Bubbi Morthens var eitt sinn sjómaður og hefur ort mikið um hafið alla tíð síðan. Hann segir að það sé af sem áður var; sjómennskan eins og hún var fyrir daga kvótans sé í raun horfinn heimur. Þá finnst honum nýtt gullæði hafa gripið um sig hérlendis, í þetta sinn í formi laxeldis og segir menn svo blindaða af gróðavon að þeir neiti að taka rökum.
Bubbi segist hafa fylgst grannt með umræðunni og hún sé alveg rammpólitísk. Þegar hann var á sjó hafi hins vegar bara verið farið út þegar viðraði.
„Ég var á sjó fyrir tíma kvótans. Þá var þetta allt öðruvísi. Þá fóru menn og sóttu sjóinn á meðan hann gaf og það viðraði. Launin voru nú ekkert rosaleg nema hjá aflahæstu bátunum. Annars veiddum við bara upp í tryggingu. Þetta er á þeim tíma sem fyrstu skuttogararnir eru að koma til landsins, þannig að þetta umhverfi var allt önnur skepna en það er í dag. Fyrir það fyrsta dóu menn til sjós mjög reglulega – það var bara alltaf einhver að deyja. Menn voru að drukkna og skip að fara niður, og það stóð bara eins og stafur á bók. Þetta gerist varla lengur, sem sýnir alveg gríðarlega framför í öryggi sjómanna,“ segir Bubbi Morthens.
„Síðan er það svo að ef menn skoða vinnuna þeirra, fjarvistir frá fjölskyldunni, umhverfið sem þeir vinna í og aðbúnaðinn, þá er bara ekkert að því að sjómenn hafi góð laun. En umræðan hefur verið villandi í þessari umræðu. Það er nefnilega ekkert mál að taka út skipstjóra, stýrimenn, vélstjóra og kannski aflahæstu þrjú skip landsins og segja hásetahlut sjómanna vera 3 milljónir á mánuði. En það er ekkert þannig. Ég meina, skipstjórar á aflahæstu skipunum eru kannski með 60 milljónir á ári, en obbi sjómanna er ekkert að moka gulli í vasann miðað við hvernig vinnuumhverfi þeirra og viðveru er háttað,“ segir Bubbi.
Hann segir sjómennsku hafa breyst mikið frá því sem var, svo mikið að umhverfið hafi bara hreinlega verið gjörólíkt. „Ég man þegar ég var 16 ára beitningamaður á Bolungarvík og við vorum að veiða grálúðu, einhvern alverðmætasta fisk sem veiðist í dag. Við vorum bara á tryggingu, algerum skítalaunum. Það er ekki þannig í dag sem betur fer, enda eiga sjómenn að hafa góð laun,“ segir hann.
„Mér finnst sjómenn vera að standa sig helvíti vel í þessari kjarabaráttu sinni. Svo eru þeir með alveg djöfull öflugan mann með sér í þessu núna, og sá er af gamla skólanum. Villi (Vilhjálmur Birgisson) er rosaflottur í þessu. Mér finnst hann vera síðasti Móhíkaninn. Hann hefur sýnt og sannað að það eru enn þá til menn sem eru að keyra þetta af réttlætiskennd og hugsjón. Ég er ekki alltaf sammála Villa, til dæmis með það að leggja Hvalfjörðinn í rúst. Hann telur það gott fyrir atvinnulífið hjá þeim og ég er eins ósammála honum og hugsast getur. Engu að síður er ég mjög hrifinn af þessum manni. Mér finnst hann flottur og hann er að vinna gott starf fyrir stétt sem á það skilið,“ bætir hann við.
Bubbi segist hlynntur laxeldi, að því tilskildu að eldið færi fram á landi eða í lokuðum hólfum. Að hans mati er landinn þó kominn í sama gullgrafaraæðið og hér ríkti fyrir hrun og síðar í ferðamannaiðnaðinum.
„Eins og haldið er á málum varðandi laxeldi í fjörðunum okkar núna, óheft og opið öllum, er þetta bara hreinasta geðveiki. Menn sem eru að setja þetta niður eins og málin standa núna taka engum rökum. Svo er ekkert að koma fram að það eru erlendir aurgoðar frá Noregi sem hafa í rauninni bara flúið frá Noregi og stinga sér niður hér. Norðmenn hafa nefnilega vaknað og áttað sig á því hversu gríðarleg mengun stafar frá þessu, og þeir hafa meira og minna eyðilagt allar sínar laxveiðiár,“ segir hann með miklum þunga.
Hann segir eldislaxa hafa fundist við fossinn á efsta svæði Alta-árinnar í Noregi í fyrra. Það þýði einfaldlega það að síðasta vígi Norðmanna hvað laxinn varðar sé fallið.
„Alta er dýrasta laxveiðiá veraldar og hefur að geyma stærsta laxastofn sem fyrir finnst á jarðkringlunni. Meðalþyngdin þar er tíu kíló og áin hefur að geyma stærstu laxa sögunnar,“ segir Bubbi.
Það hafi verið einmitt þá sem Norðmenn áttuðu sig á að breytinga væri þörf, þar sem eldislax hefði dreift sér í allar ár og firði.
„Alta er svona eins og Þingvellir eru fyrir okkur, nánast eins og goðsagnakenndur helgistaður þeirra Norðmanna. En hingað geta komið menn og lagt undir sig hvaða fjörð sem þeir vilja fyrir skít á priki á meðan erlendis kostar leyfið eitt og sér hunduð milljóna,“ segir hann.
„Við erum að feta í fótspor feigðarinnar með þessu. Fólk mun vakna upp við það að firðirnir verða meira og minna ónýtir af grúti og drullu. Skoðið það bara á netinu. Þar eru upptökur frá Skotlandi, Írlandi og Noregi og þar sést hvernig botninn undir eldiskvíunum verður,“ segir hann með miklum þunga.
„Svo mun íslenski laxastofninn eyðileggjast. Þar er ekkert „ef“ – það mun gerast. Það þarf ekkert að spyrja að því,“ bætir Bubbi við.
Hann segir þetta gegndarlausa skammsýni sem líkja megi við ferðamannaiðnaðinn. Hann hafi stækkað allt of hratt og menn séu endalaust að moka upp á eftir honum, og það sama sé að gerast með laxeldismálin.
Hann segist ætíð verða var við að brigslað sé um að annarleg sjónarmið hljóti að liggja að baki hjá honum þegar hann hvetji menn til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum, þar sem hann er yfirlýstur laxveiðimaður.
„Svona skotgrafarhernaður er bara þessi íslenska aðferð. En þegar við reynum að fá þá að borðinu til að taka málefnalega umræðu um þetta, þá er það ekki hægt heldur. Þeir segja bara að þetta eigi ekki við hjá þeim, það sé öðruvísi á þeim bænum. Hvernig í andskotanum er það öðruvísi? Þeir tala um sterkari kvíar sem eigi að halda öllum fiski inni, en við skulum sjá hvað gerist þegar Kári ýfir íslensku firðina með látum. Það verður ekki eins og þegar kvíarnar dóla rólega í djúpum og lygnum Noregsfjörðum. En samt eyðilögðu þeir allt þar svo ég spyr: Hvernig haldið þið að þetta fari hér?“ segir Bubbi Morthens.