Þar sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa rofið fjölmiðlabann sem sett var á að beiðni ríkissáttasemjara telur formaður Verkalýðsfélags Akraness mikilvægt að sjómenn fái upplýsingar um bókun sem lögð var fram á sáttafundi deiluaðila í gær. Fundurinn var árangurslaus. SFS sendu félagsmönnum sínum fréttabréf eftir fundinn þar sem fram kom að sjómannasamtökin hefðu komið með nýja „kröfu“ inn í deiluna.
Upplýsir formaðurinn Vilhjálmur Birgisson í pistli á vef verkalýðsfélagsins í hverju bókunin, sem SFS kalla kröfu, felst.
Í pistlinum segir að bókunin hafi snúist um að samningsaðilar yrðu sammála um að leitað yrði skýringa á því hvers vegna erlend uppsjávarskip sem landa makríl, síld og loðnu, t.d. í Noregi, virðast ætíð fá hærra fiskverð en greitt er til íslenskra sjómanna.
Bókunin laut líka, að því er fram kemur í pistli formannsins, að því að samningsaðilar væru sammála um mikilvægi þess að skipa fjögurra manna óháða nefnd sem hefur það hlutverk að rannsaka í hverju mismunurinn á verði á makríl, síld og loðnu hér og í Noregi liggur.
Þá laut hún líka að því að samningsaðilar væru sammála um að eyða þurfi þeirri tortryggni og vantrausti sem ríkt hefur um verðmyndun á uppsjávarafla og væri þessi fjögurra manna óháða nefnd einn liður í þeirri vinnu.
„Þetta er nú þessi svakalega „krafa“ sem samtök fyrirtækja í sjávarútvegi skilja bara ekkert í og segja í fréttabréfi til sinna félagsmanna að þessi bókun sjómannasamtakanna sýni í verki algert viljaleysi til að ná farsælli lendingu í kjaraviðræðum sem eru á viðkvæmu stigi,“ segir í pistlinum.
Svo segir: „Þessi bókun um að skipa fjögurra manna óháða rannsóknarnefnd er liður í að eyða því vantrausti og tortryggni sem ríkt hefur um áratugaskeið um verðmyndun á uppsjávarafla til íslenskra sjómanna. Hvernig í ósköpunum stendur á þessum ofsafengnu viðbrögðum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í ljósi þess að útgerðarmenn segja að verðmyndun á uppsjávarafla sé í alla staði eðlileg og þeir hafi ekkert að fela?
Ef svo er þá ætti að vera afar auðvelt fyrir útgerðarmenn að samþykkja þessa bókun sem er einungis liður í að eyða vantrausti og tortryggni við verðmyndun á uppsjávarafla. Við í sjómannaforystunni spyrjum okkur að sjálfsögðu að því hví í ósköpunum eru útgerðarmenn á móti þessari bókun í ljósi þess að útgerðin segir að ekkert sé við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga? Er kannski eitthvað við verðlagningu á uppsjávarafla að athuga sem ekki getur litið dagsins ljós? Að sjálfsögðu velta sjómenn því fyrir sér í ljósi þessara viðbragða.
Formaður VLFA vil koma því skýrt á framfæri að það stóð aldrei til að hunsa fyrirmæli um fjölmiðlabann frá ríkissáttasemjara en í ljósi þess að SFS gerði það þá varð að upplýsa sjómenn um hverju þessi svokallaða „krafa“ laut að.
Bara þannig að því sé til haga haldið þá eru sjómenn svo sannarlega tilbúnir til að ganga frá nýjum kjarasamningi enda telja sjómenn að þær kröfur sem liggja nú fyrir útgerðamönnum séu sanngjarnar, réttlátar og hóflegar.“