Ekki er útlit fyrir að samninganefndir sjómanna og útgerðarmanna setjist að samningaborðinu á næstunni. Þetta segir Valmundur Valmundsson, formaður samninganefndar sjómanna.
„Það hefur ekki verið rætt að menn hittist og tali saman á ný,“ segir hann. Það er örugglega eitthvað fundað einhvers staðar. Við erum vel meðvitaðir um hvernig staðan er. Það er allt fast ennþá og hvorugur aðilinn tilbúinn að gefa sig. Meðan svo er, er ekki tilgangur að ræðast við.“ Hann segir þó að eitthvað sé um að menn séu að hringja sig saman. „Það er alltaf eitthvað svoleiðis í gangi en ekkert á því byggjandi í bili að minnsta kosti. En eins og staðan er í dag á ég ekki von á að menn hittist neitt fyrr en sáttasemjari boðar næst til fundar.“ Eins og kunnugt er ber ríkissáttasemjara að boða aðila deilunnar til sáttafundar innan tveggja vikna frá því síðast var fundað, en það var á föstudaginn var.
Eftir að síðasti samningur milli sjómanna og útgerðar var felldur juku sjómenn við kröfur sínar í 5 liðum. Eftir þá fundi settu fulltrúar sjómanna sem eru í verkfalli, sameiginlega fram 5 viðbótarkröfur við þann samning sem sjómenn felldu í desember. Þessar fimm kröfur eru í fyrsta lagi að útgerðir bæti sjómönnum upp það sem nemur þeirri skattahækkun sem þeir urðu fyrir þegar stjórnvöld felldu niður sjómannaafsláttinn árið 2009. Í öðru lagi að viðmiði vegna olíuverðs verði breytt til hagsbóta fyrir sjómenn. Í þriðja lagi að boðið verði frítt fæði um borð. Í fjórða lagi að sjómönnum verði séð fyrir vinnufatnaði þeim að kostnaðarlausu. Loks í fimmta lagi að útgerðin taki á sig fjarskiptakostnað vegna samskipta sjómanna í land.
Það var svo á samningafundi á föstudaginn síðastliðinn sem sjómenn lögðu fram tillögu að bókun um að aðilar hefðu með sér samstarf um að leita skýringa á mismun á verði á uppsjávarfiski í Noregi og á Íslandi sem hefur verið talsverður og óútskýrður.
Framlagning þessarar tillögu olli því að fundinum lauk með hvelli.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að ekki kæmi til álita að grípa inn í deiluna. Og ekki kæmi til greina að fara í sértækar aðgerðir, svo sem eins og að smábátar fengju heimild til að halda til veiða fleiri daga en nú væri, meðan á verkfalli stæði. Hins vegar væri hafin vinna í ráðuneytinu að leggja mat á áhrif verkfallsins og þá hagsmuni sem í uppnámi væru vegna þess.
Þá sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í Silfrinu í Ríkissjónvarpinu í gær að það væri skýr lína af hans hálfu að upptaka sjómannaafsláttar á ný væri ekki til umræðu.
Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun bættist á níunda tug fiskvinnslufólks á atvinnuleysisskrá á tímabilinu frá 19. janúar til síðustu mánaðamóta. Heildartala fiskvinnslufólks á atvinnuleysisskrá er nær 1.600 manns.