Verkfall sjómanna hefur nú staðið í átta vikur. Hinn 14. desember 2016 felldu sjómenn öðru sinni kjarasamning sem undirritaður hafði verið af samninganefndum sjómannasamtakanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS). Þrátt fyrir að samningsaðila hafi greint á um einstaka þætti, hafa viðræður lengst af gengið vel og sameiginlegur skilningur er kominn um niðurstöðu fjölda krafna beggja aðila.
Ein þeirra krafna sem eftir standa varðar afstöðu skattyfirvalda til fæðiskostnaðar sjómanna. Eftir að sjómannaafsláttur var tekinn af árið 2009 hafa sjómenn greitt fullan tekjuskatt af svokölluðum fæðispeningum sem útgerðir greiða til að standa undir kostnaði við fæði. Fæðispeningar sem útgerð greiðir hverjum sjómanni samkvæmt gildandi kjarasamningi eru 1.646 kr. hvern dag og taka breytingum hinn 1. maí ár hvert miðað við matvörulið vísitölu neysluverðs sem birt er af Hagstofu Íslands í apríl ár hvert.
Líkt og áður var vikið að greiða sjómenn fullan tekjuskatt af þeim fæðispeningum sem þeir fá greidda. Eftir skatt standa því eftir um 1.000 kr. Auðsýnt er að sú fjárhæð nægir hvergi til að standa undir kostnaði við fæði fullan dag á sjó.
Þegar litið er til skattalegrar meðferðar greiðslna atvinnurekanda til starfsmanna í einstökum starfsstéttum vegna sannanlegs kostnaðar, þá eru samningaaðilar sammála um að í fyrrgreindri skattalegri meðferð fæðispeninga felst bæði óskynsemi og ójafnræði.
Samkvæmt A-lið 1. mgr. 30. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er heimilt að draga frá tekjum kostnað að hámarki móttekinni fjárhæð dagpeninga vegna ferða- og dvalarkostnaðar, allt í samræmi við matsreglur ráðherra. Í þessu felst að dagpeningum, sem greiddir eru vegna ferðalaga starfsmanns á vegum atvinnurekanda, er ætlað að standa undir kostnaði starfsmannsins vegna fjarveru frá heimili sínu, s.s. gisti- og fæðiskostnaði og öðrum tilfallandi kostnaði sem af ferðinni hlýst. Á þessum grundvelli er til að mynda gisti- og fæðiskostnaður flugáhafna og ríkisstarfsmanna frádráttarbær frá greiddum dagpeningum vegna ferðalaga.
Af þessum sökum er eðlilegt að spurt sé, hvers vegna eru greiðslur útgerða til sjómanna vegna sannanlegs fæðiskostnaðar sem hlýst að ferðum þeirra á sjó, fjarri heimili, ekki frádráttarbær líkt og kostnaður flugáhafna og ríkisstarfsmanna? Um eðlislíkan kostnað þessara starfsstétta er að ræða og af þeim sökum má álykta að ójafnræði felist í skattalegri meðferð þessara fjármuna. Rök skattyfirvalda fyrir þessari mismunun liggja í því að samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra, sem gefið er út árlega og birt í B-deild Stjórnartíðinda, verður að uppfylla fjögur skilyrði ef færa á frádrátt á móti dagpeningum. Skilyrðin eru þessi:
1. Dagpeningarnir voru greiddir vegna tilfallandi ferða á vegum launagreiðanda.
2. Dagpeningarnir voru greiddir vegna ferða utan venjulegs vinnustaðar.
3. Launamaðurinn hefur sannanlega greitt ferðatengdan kostnað samkvæmt reikningi og geti sýnt fram á það.
4. Að fyrir liggi í bókhaldi launagreiðanda, sem og launamanns, gögn um tilefni ferðar og fjölda dvalardaga, fjárhæð ferðapeninga eða dagpeninga, svo og nafn og kennitala launamanns.
Fyrir liggja úrskurðir yfirskattanefndar þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að starf sem felst í útgerð og sjósókn felur ekki í sér tilfallandi ferðir utan vinnustaðar í skilningi skattmatsreglna. Þess vegna kemur frádráttur eftir reglum um fæðispeninga sjómanna ekki til álita. Niðurstaða yfirskattanefndar er sú að veiðiferðir sjómanns, fjarri heimili, séu ekki tilfallandi í starfi hans, og þess vegna er honum ekki heimilt að draga sannanlegan fæðiskostnað frá greiddum fæðispeningum. Þegar litið er til eðlis starfs flugáhafna og fjölda ríkisstarfsmanna sætir þessi túlkun þó furðu. Í starfi bæði flugáhafna og mikils fjölda ríkisstarfsmanna felast regluleg ferðalög, fjarri heimili. Einhverra hluta vegna eru ferðir þessara starfsstétta hins vegar taldar tilfallandi samkvæmt yfirskattanefnd, en veiðiferðir sjómanna ekki. Þetta stenst engin rök.
Fyrrgreind skattaleg mismunun raungerðist þegar sjómannaafsláttur var afnuminn árið 2009. Ónægja sjómanna lýtur að þessu óréttlæti og það hefur veruleg áhrif í þeim kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Leiðrétting þessa óréttlætis er forsenda þess að kjarasamningar verði undirritaðir. Úrlausnarefnið er ekki flókið og engra lagabreytinga er þörf. Sú túlkun yfirskattanefndar, sem hér hefur verið vikið að, hvelfist um skilyrði í skattmati ríkisskattstjóra. Þessu skattmati verður því að breyta, þannig að leiðrétt verði það ójafnræði sem felst í skattalegri meðferð sannanlegs kostnaðar einstakra starfsstétta vegna ferðalaga á vegum atvinnurekanda.
Það er miður að heyra ómálefnalegar fullyrðingar þess efnis að með fyrrgreindum málflutningi sé verið að gera kröfu til þess að ríkið greiði laun sjómanna. Vafalaust henta dylgjur sem þessar málflutningi þeirra sem allt hafa á hornum sér gagnvart íslenskum sjávarútvegi. Dylgjurnar eru einfaldlega rangar. Útgerðir munu nú sem fyrr greiða sjómönnum fjármuni til að mæta fæðiskostnaði á sjó. Vegna mismunandi skattheimtu ríkisins af fæðisgreiðslum atvinnurekenda til starfsmanna í mismunandi atvinnugreinum, standa þessar greiðslur útgerða til sjómanna hins vegar ekki undir raunkostnaði. Kjarni málsins snýst því um hófsemi og jafnræði í skattheimtu. Um það hljóta allir að vera sammála.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.