„Við höfnuðum því,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, um gagntilboð samninganefndar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem sjómönnum var afhent síðdegis í dag. „Og við vorum snöggir að því. Tilboðið okkar í gær var lokatilboð, það stendur þannig.“ Segir hann tilboðið sem sjómenn lögðu fram í gær vera endanlegt og óumsemjanlegt.
Í dag gerði SFS gagntilboð líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag og vonaðist Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, til þess að það væri farið að sjá fyrir endann á deilunni. Valmundur segir mikið hafa verið á milli þess sem SFS bauð í gagntilboðinu og tilboðinu sem sjómenn lögðu fram í gær.
Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Íslands, Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, og Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands.
mbl.is/Eggert Jóhannesson
Engir samningar komi ríkið ekki að málum
Spurður út í aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjaradeilunni segir Valmundur það ljóst að það verði enginn samningur komi ríkið ekki til móts við deiluaðila með breytingum á skattkerfinu sem miða að því að fæðispeningar sjómanna verði skattfrjálsir.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í útvarpsviðtali í morgun að hún sé mótfallin sértækum aðgerðum, þar á meðal niðurgreiðslu launa fyrir útgerðarmenn, og sagði Valmundur í samtali við mbl.is fyrr í dag að sjómenn telji þetta ekki vera sértækar aðgerðir. „Það er ekki verið að niðurgreiða nein laun,“ sagði hann í samtali við mbl.is fyrr í dag.