Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning sjómanna gæti orðið mjög tvísýn. Það virðist skiptast nokkuð eftir verkalýðsfélögum hvort félagsmenn séu jákvæðir eða neikvæðir í garð samningsins og á sumum stöðum er hörð andstaða við samninginn. Þetta segir Aðalsteinn Baldursson hjá Framsýn á Húsavík.
Kjörsókn hjá Framsýn er á milli 60-70% að sögn Aðalsteins, en kosningu lýkur klukkan 17:00. Þá mun lögreglan á staðnum koma og telja atkvæði, en Aðalsteinn segir að heimild hafi verið fyrir því að sýslumaður eða lögreglan myndu telja atkvæði og koma niðurstöðunni til ríkissáttasemjara í stað þess að senda atkvæðin suður ef veður eða landfræðileg staða krefðist þess.
Reiðir út í SFS og hundfúlir út í ráðherra
„Tilfinningin er mjög sérstök, sjómenn eru mjög reiðir og ég skynja það hjá þeim. Það er eins og samningurinn falli í skuggann á framkomu SFS og þeirra sem þar eru í forsvari,“ segir Aðalsteinn og vísar til þess að búið sé að boða sjómenn að mæta á skipin í kvöld, þótt niðurstaðan liggi ekki fyrir. Þá segir hann framgöngu ráðherra ekki góða í þessu máli og skrítið að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hafi komið fram og sagt að hún myndi ekki grípa inn í, en svo verið tilbúin með lög á verkfallið. „Menn eru reiðir út í hrokann hjá SFS og hundfúlir út í ráðherrann,“ segir Aðalsteinn.
Hann bendir á að nú séu menn á leið þvert yfir landið í mörgum tilfellum. Hafi verið sendir með rútum frá Húsavík suður til Reykjavíkur og austur á land. Þannig verði væntanlega einhverjir staddir á Blönduósi í kvöld þegar niðurstaðan liggur fyrir og þá gætu þeir þurft að snúa við ef samningarnir verða felldir.
Telur Aðalsteinn rétt að gefinn hefði verið alla vega hálfur eða einn sólarhringur fyrir sjómenn að komast í bátana eftir að niðurstöður liggja fyrir.