Stækkun makrílstofnsins er meginástæða þess að útbreiðslusvæði hans stækkar, meðal annars vestur til Íslands og Grænlands. Umhverfisáhrif eins og hitastig og áta hafa þar ekki bein áhrif. Hins vegar takmarkar hitastig í hvaða átt fiskurinn gengur. Hann getur í raun ekki gengið neitt annað en vestur.
Kom þetta fram í fyrirlestri sem Anna Heiða Ólafsdóttir, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, flutti á málstofu Hafró um útbreiðslu makríls í Norðaustur-Atlantshafi frá árinu 1997 til 2016. Sagði hún frá niðurstöðum alþjóðlegs rannsóknarverkefnis sem Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar taka þátt í. Notuð eru gögn úr sameiginlegum makrílleiðöngrum sem farnir hafa verið frá árinu 2007 og eru nú hluti af stofnstærðarmati Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar (ICES). Til viðbótar eru í rannsókninni notuð gögn úr makrílleiðöngrum Norðmanna á árunum 1997 til 2006.
Á þessum tæpu tveimur áratugum hefur makrílstofninn tvöfaldast og er hrygningarstofninn metinn um 5 milljónir tonna, samkvæmt stofnmati Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
Ýmsar kenningar hafa verið uppi um ástæður þess að makríll sækir til Íslands í ætisleit á sumrin, „beygir til vinstri“, í stað þess að safnast upp í Noregshafi.
Anna Heiða segir að gögnin sýni að marktæk jákvæð fylgni sé á milli stofnstærðar og útbreiðslu að sumri. Hún tekur fram að ekki sé hægt að segja að orsakasamband sé þar á milli þó að fylgnin sé jákvæð heldur þurfi að prófa kenningar um áhrif umhverfis og stofnstærðar á útbreiðslu.
Mesti þéttleiki makríls er við 9-13 stiga sjávarhita. Anna Heiða bendir á að yfirborðshiti sjávar við suðurströnd Íslands sé yfir 9 gráður í júlí. Það komi ekki á óvart þar sem þetta sé sama hafstraumakerfið og í Noregshafi, tvær greinar Golfstraumsins. Hitastig geti ekki skýrt á beinan hátt hvers vegna makríll hóf að ganga í vesturátt upp úr 2007.
Kenningin um þéttleikaháða útbreiðslu gengur, að sögn Önnu Heiðu, út á það að eftir því sem fleiri fiskar safnist saman aukist samkeppnin um fæðuna auk þess sem fiskarnir þurfi svigrúm til að afla sér fæðu. Þá sæki þeir út á jarðarsvæðin og breiði þannig úr sér. Kenningin um þéttleikaháð viðbrögð við stækkun stofns segir að fiskur á aðal- og jaðarsvæði sé í jafngóðu ásigkomulagi.
„Frumniðurstöður rannsóknarinnar benda til að enginn munur sé á ástandi markríls í Noregshafi og á vestursvæðinu. Það bendir til þess að hann breiði úr sér eftir því sem stofninn stækkar,“ segir Anna Heiða.
Makrílgöngurnar komast ekki mikið norðar en þær hafa gert, vegna kulda sjávar, og eina leiðin til að bjarga sér úr þvögunni er því í raun í vesturátt, með suðurströnd Íslands og að suðurhluta Grænlands.