„Lausnirnar okkar munu valda straumhvörfum“

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X.
Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhætt er að segja að Skaginn 3X hafi verðskuldað Nýsköpunarverðlaun Íslands, sem fyrirtækið hlaut á dögunum fyrir þróun nýrra tæknilausna fyrir uppsjávarvinnslur og bolfiskveiðiskip.

Skaginn 3X fékk líka verðlaunin Svifölduna fyrir Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2016 í nóvember síðastliðnum og ugglaust eru fleiri verðlaun á leiðinni, en lausnir sínar hefur fyrirtækið þróað í nánu samstarfi við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki.

Undanfarin ár hefur Skaginn 3X verið leiðandi í þróun og smíði nýjunga fyrir sjávarútveginn og skiljanlegt að Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri líti mjög björtum augum á framtíðina.

„Við vonumst til þess að tæknin frá okkur verði upphafið að nýju ævintýri í veiðum og vinnslu bolfisks, og vinnslu á laxi. Með okkar lausnum er verið að taka afköstin og gæðin upp á annað stig.“

Sjálfvirk gæðaskoðun og pökkun hjá Eskju. Hver einasti fiskur er …
Sjálfvirk gæðaskoðun og pökkun hjá Eskju. Hver einasti fiskur er myndaður og greindur af nákvæmni.

Flokkaður og klár á bretti

Skaginn 3X hefur náð mjög góðum árangri í þróun kerfa fyrir vinnslu uppsjávarfisks og segir Ingólfur núna unnið að því að gera það sama fyrir bolfiskvinnslu, bæði í landi og um borð í skipum.

Uppsjávarfiskerfi Skaginn 3X er sjálfvirkt að nær öllu leyti og eru myndavélakerfi og gervigreind notuð til að greina aflann og besta vinnsluna.

„Kerfin okkar taka við fiskinum beint úr skipinu, og skila afurðinni tilbúinni, raðaðri á bretti inni í frystigeymslu. Er þá búið að stærðarflokka, gæðaflokka og tegundagreina aflann, og pakka í sölueiningar. Sjálfvirknin er svo mikil og afköstin það góð að hver greiddur manntími skilar nærri því einu vörubretti af fullpakkaðari vöru.“

Að yfirfæra árangur Skaginn 3X við vinnslu uppsjávartegunda yfir á vinnslu bolfisks er hægara sagt en gert.

„Við lögðum af stað í þá vegferð fyrir um tveimur og hálfu ári og líkt og með uppsjávarfiskinn byrjuðum á að skoða upphaf virðiskeðjunnar: hvað bæta mætti um borð í sjálfum veiðiskipunum.“

Um borð í nýju Engeynni er búnaður frá Skaganum 3X.
Um borð í nýju Engeynni er búnaður frá Skaganum 3X. mbl.is/Árni Sæberg

Kældur fyrir dauðastirðnun

Hefur Skaginn 3X meðal hannað íslaust kælikerfi fyrir bolfisk og byggir á hönnun sambærilegs kælibúnaðar fyrir uppsjávartegundir. Er fiskurinn kældur í sjó og er RoteX-snigillausn notuð til að færa fiskinn á milli enda kælitanksins.

„Með þessari tækni tekst að gera fiskinn kaldari en væri nokkurn tíma hægt að gera með ís. Aflinn er kældur niður í -1°C, niður að frostmarki fisksins sjálfs, og hægt að blóðga og kæla fiskinn áður en dauðastirðnunin hefst, sem þýðir mun betra hráefni.“

Við þróun bolfiskvinnslunnar þurfti m.a. að gæta að því að bolfisktegundirnar eru viðkvæmari en uppsjávarfiskurinn. „Um leið erum við í kappi við tímann og þurfum að ná fiskinum hratt niður að réttu hitastigi,“ útskýrir Ingólfur en alla jafna hefst dauðastirðnunin um þremur stundarfjórðungum eftir að fiskurinn er blóðgaður og slægður.

„Við dauðastirðnunina verða átök í holdi fisksins. Holdið vill skreppa saman en beingarðurinn tosar á móti. Með því að kæla fiskinn nægjanlega mikið niður fyrir dauðastirðnun fáum við flök í landi sem eru heil og flott og mjög góð til vinnslu, og einnig bætt geymsluþol.“

Ingólfur segir fyrirtækið með einstaka tækni í höndunum og nefnir sem dæmi að um borð í nýju Engeyinni sé svo mikið af nýjum uppfinningum að Skaginn 3X hafi lýst sjö nýjum einkaleyfum vegna vinnsluaðferðanna um borð.

„Við þróunina komumst við t.d. að því að straumhraðinn í kælikerfinu hefur mikið að segja, og áhrifin sambærileg og af vindkælingu. Eftir því sem straumurinn er meiri, því hraðar má kæla fiskinn.“

Ingólfur nefnir að um borð í nýju Engeyinni sé svo …
Ingólfur nefnir að um borð í nýju Engeyinni sé svo mikið af nýjum uppfinningum að Skaginn 3X hafi lýst sjö nýjum einkaleyfum vegna vinnsluaðferðanna um borð. mbl.is/Eggert

Hvert kar rekjanlegt

Eftir að gert hefur verið að fiskinum er hann sjálfvirkt tegundagreindur og flokkaður, og færður í þar til gert blæðihjól í 360 kg skömmtum. Eftir blæðingu ferðast skammturinn svo áfram yfir í kælibúnaðinn og í tiltekið geymslukar.

„Við erum búin að mynda hvern einasta fisk í karinu, og tengja þær upplýsingar við númerið á hverju kari. Má senda þessar upplýsingar strax í land og þá um leið hægt að hefjast handa við að ákveða hvernig á að vinna fiskinn og hvert á að selja hann.“

Segir Ingólfur markið sett á að eitt skip geti gert að allt að tíu tonnum af afla á klukkustund, og afgreitt 100 tonn niður í lest á hverjum sólarhring.

„Með góðum veiðarfærum er auðveldlega hægt að veiða 100 tonn á sólarhring, og er það vinnslan og kælingin um borð sem er flöskuhálsinn. Sjálfvirknin er líka mjög vinnusparandi svo að ekki þarf að stækka áhöfnina til að ná þessum afköstum, eins og við sjáum t.d. í Málmey, skipi Fisk Seafood, sem hefur verið aflahæsta ferskfiskskip íslenska flotans undanfarin tvö ár.“

Ávinningur af að losna við ísinn

Aukin afköst þýða betri nýtingu á skipi og tækjum, en aukin gæði þýða að hægt er að fá meiri verðmæti úr aflanum. Íslausa kælingin þýðir líka að ekki þarf að setja ís í kerin með fiskinum, eða ofan í frauðplastkassa.

„Ef við erum að losna við ís sem fyllir 15% í hverju kari þá þýðir það að 15% meira af fiski rúmast í lestinni. Skip sem áður var með 200 tonna fullfermi af afla getur þá rúmað 230 tonn af fiski og nýtt ferðina á miðin betur, með tilheyrandi olíusparnaði.“

Kælingin þýðir líka að allir flutningar verða hagkvæmari. Nefnir Ingólfur að með íslausu kælingunni sé verið að létta hverja flutningseiningu í flugvélum og flutningabílum.

„Allir bílar sem flytja t.d. lax frá Noregsmarkaði niður til meginlands Evrópu þurfa að lúta þyngdartakmörkunum og með því að losna við ísinn má koma 15% meiri fiski fyrir í bílnum. Í tilviki flutninga með flugi þarf að borga fyrir sendinguna í samræmi við þyngd og sparnaðurinn verulegur þegar ekki þarf að pakka ís með fiskinum. Er þá eftir að nefna að áhrifin eru samsvarandi á kolefnisspor fisksins.“

Sjálfvirka lestarkerfið léttir mjög vinnuna um borð og eykur líka …
Sjálfvirka lestarkerfið léttir mjög vinnuna um borð og eykur líka öryggið.

Framfarirnar í kælingu eru svo miklar að markaðurinn þarf hreinlega tíma til að venjast nýjum gæðum. Hafa heyrst sögur af kaupendum sem þykir undarlegt að fá til sín ískaldan fisk en sjá hvergi ís, enda vaninn að álykta sem svo að fiskurinn hafi hitnað of mikið og ísinn bráðnað ef ekki finnst neinn ísmoli í pakkningunni.

„Menn hafa leyst það með því að setja lúkufylli af ís með fiskinum, svo kaupandinn geti haft ákveðna tilfinningu fyrir því hvort varan hafi hitnað. Jafnvel ef að 1% af innihaldi fiskpakkningarinnar er ís þá er það strax mikil framför frá 15%.“

Búa í haginn fyrir bjarta framtíð

Mikill kraftur í nýsköpun og vöruþróun á liðnum árum er að skila sér miklum áhuga á tækni Skaginn 3X og ætti ekki að koma á óvart að fyrirtækið verði að stórauka hjá sér afköstin á næstu árum. Starfsmenn fyrirtækjanna þriggja sem vinna saman undir hatti Skaginn 3X eru um 200 talsins, og segir Ingólfur verið að búa í haginn fyrir aukin umsvif.

„Eins og ástandið er núna í gengismálum er ráðlegast að auka framleiðslugetu okkar með því að fjárfesta í nýrri tækni og tækjabúnaði. Til að geta tekist á við þá áskorun sem er framundan munum við þurfa að ráðast í miklar fjárfestingar, en við erum þess líka fullviss að lausnirnar okkar muni valda straumhvörfum í fiskvinnslu, bæði til sjós og lands.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 530,81 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 345,49 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 199,50 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 232,84 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.11.24 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.305 kg
Þorskur 904 kg
Keila 95 kg
Hlýri 57 kg
Ufsi 17 kg
Karfi 7 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 3.388 kg
23.11.24 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Ýsa 5.110 kg
Þorskur 3.886 kg
Langa 62 kg
Steinbítur 50 kg
Karfi 22 kg
Keila 13 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 9.145 kg
23.11.24 Vigur SF 80 Lína
Þorskur 1.191 kg
Ýsa 90 kg
Keila 88 kg
Hlýri 51 kg
Karfi 33 kg
Steinbítur 4 kg
Samtals 1.457 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 530,81 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 345,49 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 199,50 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 232,84 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.11.24 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.305 kg
Þorskur 904 kg
Keila 95 kg
Hlýri 57 kg
Ufsi 17 kg
Karfi 7 kg
Steinbítur 3 kg
Samtals 3.388 kg
23.11.24 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Ýsa 5.110 kg
Þorskur 3.886 kg
Langa 62 kg
Steinbítur 50 kg
Karfi 22 kg
Keila 13 kg
Skarkoli 2 kg
Samtals 9.145 kg
23.11.24 Vigur SF 80 Lína
Þorskur 1.191 kg
Ýsa 90 kg
Keila 88 kg
Hlýri 51 kg
Karfi 33 kg
Steinbítur 4 kg
Samtals 1.457 kg

Skoða allar landanir »