Þverpólitísk nefnd um möguleika á gjaldtöku í sjávarútvegi er aðeins áhugamál Viðreisnar en ekki hinna stjórnarflokkanna tveggja. Þetta segir í tilkynningu frá þingflokki Pírata og er vísað til ummæla Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í kjölfar uppsagna HB Granda á Akranesi, um að þær geti leitt til sáttar um slíka gjaldtöku. Segja Píratar að gjaldtakan ein og sér leysi ekki vanda sjávarbyggða, heldur geti hún magnað vandamálin ef ekki sé hugað vandlega að útfærslunni.
„Ríkisstjórnin hefur alls ekki hug á að hrófla við kerfinu og yfirlýsingar Þorgerðar eru því í besta falli marklausar, í versta falli til að slá ryki í augu fólks til að það sjái ekki stöðuna eins og hún er. Samspil gjaldtöku og aðgengis er það sem Píratar stefna að,“ segir í tilkynningu þingflokksins.
Píratar segja hugmyndir um gjaldtöku í sjávarútvegi aðeins vera áhugamál Viðreisnar en ekki hinna stjórnarflokkanna.
Þar er ákvörðun HB Granda jafnframt fordæmd og sagt að fyrirtækið setji ekki aðeins framfærslu fólks í uppnám heldur skilji heilt bæjarfélag eftir í sárum. „Stærsti hluti þeirra sem HB Grandi segir nú upp eru harðduglegar konur, meðal annars einstæðar mæður sem lifa nú í algjöri óvissu um framfærslu sína og fjölskyldunnar. Starfsfólk fær uppsagnarbréfið í hendurnar um mánaðamótin en fjórum vikum síðar er stefnt að því að greiða hluthöfum HB Granda 1,8 milljarða króna í arð.“
Píratar segja að í stað gjaldtökunnar sem Þorgerður tali fyrir vilji þeir gagngerar breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að aflaheimildir séu boðnar upp á opnum markaði. „Með þeim hætti er jafnræði, nýliðun og sanngjarn arður þjóðarinnar af fiskveiðiauðlind hennar tryggður. Við viljum gera handfæraveiðar frjálsar og að allur fiskur fari á markað.“