Sjómannadagurinn skipar stóran sess í huga Hafnfirðinga og Fjörðurinn fagri iðar af lífi um helgina. Margir koma að skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar enda dagskráin umfangsmikil og eitthvað fyrir alla í boði. Hafnarfjörður er rótgróinn sjómannabær og þar hefur verið haldið með myndarbrag upp á sjómannadaginn frá því snemma á síðustu öld, eins og Unnur Lára Bryde segir frá.
Hátíðarhöldin verða við Flensborgarhöfn og þar verður margvísleg og fjölbreytt fjölskyldudagskrá á laugardeginum, sem stendur frá kl. 13-17.“
Að sögn Unnar Láru mun björgunarsveitin setja upp margvíslegar þrautir og leiktæki fyrir börn, rennibrautir, gámasig, kassaklifur og fleira.
„Siglingaklúbburinn Þytur verður með opið hús þar sem boðið verður upp á siglingar á árabátum, kajökum, kænum og kjölbátum og sýndir verða bátar og módel í klúbbhúsinu við Flensborgarhöfn. Einnig verður haldinn „skottmarkaður“ á hafnarsvæðinu, listasmiðja verður í samstarfi við Skógræktarfélagið og margt um að vera á sérstöku útileiksvæði þar sem Brúðubíllinn kemur í heimsókn kl. 15.00.
Opið hús verður á vinnustofum listamanna í Fornubúðum, Byggðasafn Hafnarfjarðar er með myndasýningu á Strandstígnum og harmonikkumúsík á skemmtisvæði auk þess sem Slysavarnadeildin Hraunprýði verður með kaffisölu við höfnina.“
Á sunnudeginum, Sjómannadeginum 11. júní, verður svo hefðbundin hátíðardagskrá, að sögn Unnar Láru.
„Lúðrasveitin leikur við Hrafnistu kl. 10:00 og síðan verður lagður blómsveigur að minnisvarða við Víðistaðakirkju um horfna sjómenn kl. 10.30 á undan sjómannamessu í kirkjunni. Hátíðardagskrá verður sett við Flensborgarhöfn kl. 13:00 þar sem fer m.a. fram heiðrun sjómanna, kappróður, björgunarsýning Landhelgisgæslunnar, leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn og margvísleg tónlistaratriði.
Hafnarfjarðarhöfn býður í skemmtisiglingu með hvalaskoðunarbátnum Eldingu frá kl. 13:00 til 16:00 og er siglt frá Óseyrarbryggju. Hraunprýði er með veitingar á skemmtisvæðinu og einnig er veitingahúsið Kænan með kræsingar í boði báða hátíðarsdagana.“
Eins og Unnur Lára bendir á er Hafnarfjörður rótgróinn sjómanna- og útgerðarbær og þar hefur verið haldið með myndarbrag upp á sjómannadaginn frá því snemma á síðustu öld.
„Sjómannadagurinn í Hafnarfirði sem er aðili að Sjómannadagsráði, er í samvinnu við Hafnarfjarðarhöfn og bæjarfélagið auk fjölda annarra aðila sem tengjast sjávarútvegi, þjónustu og menningarstarfsemi á hafnarsvæðinu, og hafa þeir tekið höndum saman um að efla og styrkja hátíðarhöldin síðustu ár og hefur það tekist vel og þátttaka verið góð. Heiðrun sjómanna og kappróður og koddaslagur hafa verið fastir liðir á sjómannadegi í Hafnarfirði svo lengi sem elstu menn muna og einnig siglingar með bæjarbúa út Fjörðinn sem hafa alltaf verið afar vinsælar.“
Meðal nýjunga í dagskránni að þessu sinni er áðurnefndur skottmarkaður á hafnarsvæðinu við Flensborgarhöfn á laugardeginum þar sem bæjarbúum gefst kostur á að koma með alls kyns gull og gersemar úr geymslunni sinni og bjóða gestum og gangandi til sölu. „Einnig er allt handverksfólk velkomið til að falbjóða sína vöru,“ bætir Unnur við.
„Þeir sem ætla að taka þátt eru beðnir um að panta stæði í síma 664-5779 eða mæta tímanlega á staðinn en markaðurinn hefst kl. 13:00.“
Sjómannadagshátíðin er alltaf vel sótt af fjölskyldufólki, segir Unnur Lára, og sést það glöggt er langar raðir myndast í skemmtisiglinguna sem alltaf er vinsæl hjá börnum og fullorðnum. „Siglt er út á fjörðinn og það eru fáir Hafnfirðingar sem hafa ekki séð bæinn sinn frá sjó.
Skemmtiatriðin draga einnig að sér mikinn mannfjölda, heiðrun aldraðra sjómanna, lúðrasveitin, söngur leikskólabarna, og létt sprell.
Síðan hefur alltaf Landhelgisgæslan sýnt björgun úr sjó og flugkappar sýnt listflug. Þó dagurinn sé sjómanna þá leggjum við áherslu á að hafa eitthvað í boði sem skemmtir allri fjölskyldunni.“
Unnur Lára þekkir sjálf vel til þess hve mikilvægur dagur Sjómannadagurinn er í Hafnarfirði enda er hún úr mikilli sjómannafjölskyldu. „Hafnarfjörður er sjómannabær fyrst og síðast, og frá því að ég var barn þá vissi maður að helmingur fjölskyldunnar kæmi í land fyrir þennan dag og það væri heilagt, allir sjómenn í minni fjölskyldu héldu mjög upp á þennan dag og fólk gerði sér glaðan dag,“ segir Unnur.
„Hátíðarhöldin á sjómannadaginn voru meira tilhlökkunarefni fyrir krakka en 17. júní hátíðarhöldin – fyrir svona 40 árum að minnsta kosti. Verandi úr mikilli sjómannafjölskyldu – pabbi var til sjós nánast alla tíð, fyrst á togurum og síðan sem loftskeytamaður hjá Landhelgisgæslunni til starfsloka – þá kunni maður að meta þann tíma sem sjómennirnir okkar voru í landi og það var alltaf mikið tilhlökkunarefni að fá pabba í land, verandi mikil pabbastelpa.“
Unnur Lára hugsar sig um og það er augljóst að hún hefur talsverðar tilfinningar til Sjómanndagsins. Hún heldur áfram:
„Að sama skapi áttar maður sig á því þegar maður kemst til vits og ára að það voru fleiri hetjur en sjómennirnar, því á bakvið þá voru einstaklega sjálfstæðar og sterkar konur sem þurftu að taka ábyrgð á öllu einar og óstuddar, ekkert netsamband og stopult símasamband við skipin svo að allar ákvarðanir og atburðir hvíldu á þeim.
Það er því við hæfi að minna á hafnfirskar sjómannskonur, húsmæðurnar sem héldu bænum gangandi á meðan eiginmennirnir voru langdvölum á sjó, konur sem stóðu saman í sigrum og ekki síður sorgum sem oft fylgdu hafinu. Þessar konur hafa ekki fengið mikið pláss í sögunni hingað til, konur eins og langamma mín, Amalía Gísladóttir, sem bjó að Suðurgötu 67 og varð ekkja með 8 ung börn.
Hún missti mann sinn á sjó en með hörku, dug og vinnusemi kom hún öllum sínum börnum til manns og voru nokkrir synir hennar miklir sjómenn eins og Halli Amalíu, skipstjóri á Maí, sem þótti hin mesta aflakló, en 2 syni missti hún líka í hafið. Þetta stöðvaði þó ekki afkomendur hennar í að sækja sjó og eru enn margir sjómenn í fjölskyldunni okkar og við erum einstaklega stolt af þeim.“
„Sjómannadagurinn er hluti af æsku minni, hluti af minningum mínum, hluti af því að hafa alist upp í Hafnarfirði, bænum mínum sem kenndur er við höfnina eins og við öll vitum og erum svo stolt af,“ rifjar Unnur upp.
„Við eigum öll minningar frá þessum degi, Sjómannadeginum, frá koddaslagnum á gömlu bryggjunni, kappróðrinum, stoltum sjómönnum sem hafa verið heiðraðir fyrir vel unnin störf og síðast en ekki síst siglingunni út á fjörðinn sem í minningunni var ævintýri líkast – og þannig er það enn í dag.
Hafnarfjörður án Hafnarinnar er óhugsandi í mínum huga – höfnin var og er lífæðin okkar sem hér búum. Hér slær hjarta bæjarins sem fyrir nokkrum dögum fagnaði 109 ára kaupstaðarafmæli.“
Unnur bendir á að útgerðin hafi verið lífæð bæjarins og með kaupstaðarréttindum hafi svo komið grundvöllur fyrir hafnargerð.
„Síðan þá hefur höfnin vaxið og dafnað og er í dag eins og áður í okkar huga ein helsta höfn landsins.
Hafnfirskir sjómenn hafa tekið þátt í deginum í 79 ár, eða allt frá því að Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti. Og í dag munum við halda hefðinni lifandi og taka hér þátt í skemmtilegum degi.“