Þverpólitísku nefndinni sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra skipaði í vor til að móta tillögur um „hvernig tryggja megi sanngjarna gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni,“ líkt og sagði í frétt ráðuneytisins í maí, var ætlað að „skapa grundvöll að þverpólitískri og víðtækri sátt í samfélaginu um sjávarútveginn.“ Harla litlar líkur eru taldar á því að sátt náist í nefndinni um tillögur.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins létu þrír fulltrúar í nefndinni, þau Svandís Svavarsdóttir, VG, Páll Jóhann Pálsson, Framsóknarflokki, og Logi Einarsson, Samfylkingu, bóka á síðasta fundi nefndarinnar nú í vikubyrjun harðorða gagnrýni á formann nefndarinnar, Þorstein Pálsson.
Viðreisn og Björt framtíð
Tilefni bókunarinnar var grein sem Þorsteinn skrifaði í vefritið Kjarnann í síðustu viku, undir fyrirsögninni Hvað breyttist með nýrri ríkisstjórn?
Þar sagði Þorsteinn m.a.: „Mesta hættan fyrir þessa tvo flokka [Viðreisn og Bjarta framtíð, innskot blm.] í framhaldinu er sú að í því breiða samtali sem lagt hefur verið upp með á nokkrum sviðum nái Sjálfstæðisflokkurinn saman með þeim tveimur flokkum í minnihlutanum [VG og Framsókn, innskot blm.] sem mest eru á móti breytingum. Á næstu mánuðum eða misserum komast þeir flokkar tæpast hjá því að svara hvert hugur þeirra stefnir í þeim efnum.“
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er vitnað í grein Þorsteins Pálssonar í bókuninni og það sem hann skrifar um VG og Framsóknarflokkinn. Svandís, Páll Jóhann og Logi taka það fram í bókun sinni að vandséð sé að formaður nefndarinnar sé að vinna að því marki að ná víðtækri sátt um gjaldtöku í sjávarútvegi, með tilvitnuðum skrifum.