Minni sókn, aukin meðalþyngd

Þorski landað á bryggju. Athygli vekur að þorskur á Íslandsmiðum …
Þorski landað á bryggju. Athygli vekur að þorskur á Íslandsmiðum verður kynþroska síðar núna en var í byrjun aldarinnar. mbl.is/Rax

Þorskurinn er mikilvægasti fiskstofninn á Íslandsmiðum og sá sem ár eftir ár skilar flestum krónum í þjóðarbúið. Aukning aflaheimilda um 6% á næsta fiskveiðiári skiptir því gríðarlega miklu máli. Hafa má í huga að ekki eru nema tíu ár síðan þorskstofninn stóð mjög veikt og hart var á dalnum í mörgum sjávarbyggðum samfara miklum samdrætti aflaheimilda. Horfurnar nú eru hins vegar jákvæðar og búast má við að viðmiðunarstofn þorsks stækki nokkuð frá sem hann er nú.

Sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, ákvað í síðustu viku að fara að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og verður leyfilegur heildarafli 257.572 tonn á fiskveiðiárinu 2017/18, en er á þessu fiskveiðiári 244 þúsund tonn. Ráðherra fylgdi ákvörðun sinni úr hlaði og sagði þar að í heildina væri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar góð tíðindi „sem benda eindregið til þess að stjórn fiskveiða hér við land hafi verið ábyrg á síðustu árum“.

Það er athyglisvert að þegar rýnt er í gögn og upplýsinga aflað hjá Hafrannsóknastofnun kemur fram að stækkun þorskstofnsins í ár miðað við það síðasta byggir fyrst og fremst á aukinni meðalþyngd, en síður á nýliðun í stofninum.

Í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar segir meðal annars: „Hrygningarstofn hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í fjörutíu ár. Veiðihlutfall hefur lækkað og er það lægsta á stofnmatstímabilinu. Nýliðun hefur verið fremur stöðug síðan 1988 (að meðaltali um 140 milljónir 3 ára nýliða) en mun minni en hún var árin 1955–1987 (meðaltal um 205 milljónir). Stækkun stofnsins er því fyrst og fremst afleiðing minnkandi sóknar.“

Stækkun þorskstofnsins í ár miðað við það síðasta byggir fyrst …
Stækkun þorskstofnsins í ár miðað við það síðasta byggir fyrst og fremst á aukinni meðalþyngd, en síður á nýliðun í stofninum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Meðaljónar miðað við fyrra tímabil

Einar Hjörleifsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, er spurður um skýringar á minni nýliðun á sama tíma og stofninn hefur styrkst.

„Í sjálfu sér er lítið um haldbærar skýringar á minni nýliðun og serían frá miðjum níunda áratugnum er sérkennileg,“ segir Einar. „Síðasti stóri árgangurinn er frá 1984 en síðan hefur nýliðun að meðaltali verið um 30% lægri. Mjög lélegir árgangar urðu tíðari þegar hrygningarstofninn var í lágmarki á tíunda áratugnum en jafnvel topparnir sem þó hafa sést eru aðeins meðaljónar miðað við fyrra tímabil. Menn hafa verið að tengja eldri seríuna við tímabil þegar við fengum innflæði af Grænlandsgöngum, en það er hæpin skýring ein og sér.“

Í ástandsskýrslu Hafró kemur fram að árgangurinn frá 2013 sé metinn slakur, en árgangar 2014 og 2015, sem koma í veiðina 2018 og 2019, séu við langtímameðaltal. Fyrsta mæling á árgangi 2016 bendi til að hann sé slakur, en sá árgangur kemur ekki inn í viðmiðunarstofninn fyrr en árið 2020.

Hlutfallslega er meira af eldri fiski í afla nú en undanfarinn áratug. Afli á sóknareiningu helstu veiðarfæra hefur verið hár á undanförnum árum. Meðalþyngd eftir aldri í afla hefur aukist undanfarin ár og var árið 2016 nálægt langtímameðaltali (1955-2016).

Hlutfallslega er meira af eldri fiski í afla nú en …
Hlutfallslega er meira af eldri fiski í afla nú en undanfarinn áratug. mbl.is/RAX

Aflaregla í þorski frá 1995

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er byggt á aflareglu. Sem nýtingarstefnu til langs tíma var aflareglu fyrst komið á fyrir fiskveiðiárið 1995-1996, til að tengja betur saman stofnstærð og leyfilegan heildarafla á þorski. Í fyrstu var miðað við 25% aflareglu, þ.e. að veiða mætti 25% af viðmiðunarstofni þorsks, fjögurra ára og eldri. Það þótti ekki skila nægjanlegum árangri og lengi vel var afli talsvert umfram leyfilegan hámarksafla þar sem ýmsir þættir bættust við úthlutaðar heimildir. Veiðihlutfallið var lækkað í 20% af viðmiðunarstofni frá og með fiskveiðiárinu 2008/09.

Einar segir að hugsunin með að lækka veiðihlutfalllið í 20% hafi ekki verið að minnka afla til lengri tíma litið heldur að hafa stofninn aðeins stærri að jafnaði en ná þó svipuðum eða meiri afla úr honum.

Eins og áður sagði hefur meðalþyngd aukist og segir Einar að aukning aflaheimilda nú sé að stórum hluta vegna þyngdaraukningar. Viðmiðunarstofn er fjögurra ára fiskur og eldri og er reiknaður út frá fjölda fiska eftir aldri og meðalþyngd í afla. Þar sem meðalþyngd í afla fyrir árið 2017 liggur ekki fyrir er byggt á spá þar sem stuðst er við meðalþyngd eftir aldri í rallinu síðasta vor.

Þyngdir 3-9 ára í vorrallinu 2017, sem eru notaðar til að spá um þyngdir í afla í viðmiðunarstofni í ár, eru í mikilvægustu aldurshópum nokkuð hærri í ár en verið hefur síðustu árin.

„Meðalþyngdir hækkuðu tiltölulega mikið í rallinu miðað við meðalþyngdir í fyrra,“ segir Einar. „Einstaklingum hefur ekki fjölgað í sama hlutfalli og þyngd hefur aukist. Hærri meðalþyngd í vorralli er stærsti einstaki þátturinn í stækkun viðmiðunarstofns nú.“

Breytingar í kynþroska

Athygli vekur að þorskur á Íslandsmiðum verður kynþroska síðar núna en var í byrjun aldarinnar, en miðað hefur verið við að þorskur yrði kynþroska 5-7 ára. Þannig var hlutfall kynþroska sex ára fisks um 50% í kringum 2000 en er nú undir 30%.

„Það er spurning hvort þetta tengist því að stofninn hefur stækkað og ef mikið er af fiski í sjónum verði hann síðar kynþroska. Þetta séu stærðar- eða þéttleikaháð viðbrögð og eigi sér líffræðilegar skýringar. Þetta er svolítið sérstakt og öfug þróun við það sem ýmsir hafa haldið fram að stífar veiðar og minni stofn hafi þau áhrif að fiskur verði erfðafræðilega fyrr kynþroska.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.9.24 606,32 kr/kg
Þorskur, slægður 19.9.24 383,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.9.24 279,12 kr/kg
Ýsa, slægð 19.9.24 249,00 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.9.24 253,40 kr/kg
Ufsi, slægður 19.9.24 322,53 kr/kg
Djúpkarfi 12.9.24 378,00 kr/kg
Gullkarfi 19.9.24 329,86 kr/kg
Litli karfi 16.9.24 10,34 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.9.24 314,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.9.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 309 kg
Þorskur 268 kg
Karfi 111 kg
Steinbítur 38 kg
Ufsi 16 kg
Ýsa 5 kg
Samtals 747 kg
19.9.24 Særif SH 25 Lína
Þorskur 1.488 kg
Keila 367 kg
Ýsa 62 kg
Steinbítur 58 kg
Karfi 25 kg
Samtals 2.000 kg
19.9.24 Elli P SU 206 Línutrekt
Þorskur 3.183 kg
Ýsa 1.120 kg
Keila 155 kg
Langa 50 kg
Steinbítur 37 kg
Samtals 4.545 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 19.9.24 606,32 kr/kg
Þorskur, slægður 19.9.24 383,70 kr/kg
Ýsa, óslægð 19.9.24 279,12 kr/kg
Ýsa, slægð 19.9.24 249,00 kr/kg
Ufsi, óslægður 19.9.24 253,40 kr/kg
Ufsi, slægður 19.9.24 322,53 kr/kg
Djúpkarfi 12.9.24 378,00 kr/kg
Gullkarfi 19.9.24 329,86 kr/kg
Litli karfi 16.9.24 10,34 kr/kg
Blálanga, óslægð 18.9.24 314,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

19.9.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 309 kg
Þorskur 268 kg
Karfi 111 kg
Steinbítur 38 kg
Ufsi 16 kg
Ýsa 5 kg
Samtals 747 kg
19.9.24 Særif SH 25 Lína
Þorskur 1.488 kg
Keila 367 kg
Ýsa 62 kg
Steinbítur 58 kg
Karfi 25 kg
Samtals 2.000 kg
19.9.24 Elli P SU 206 Línutrekt
Þorskur 3.183 kg
Ýsa 1.120 kg
Keila 155 kg
Langa 50 kg
Steinbítur 37 kg
Samtals 4.545 kg

Skoða allar landanir »