„Þegar samkeppni um markaði fer harðnandi er svarið aukin þekking, nýsköpun og þróun, líkt og við Íslendingar höfum gert, en jafnframt er brýnt að við miðlum farsælli sögu íslensks sjávarútvegs á umliðnum árum. Þar spilar Íslenska sjávarútvegssýningin stórt hlutverk sem vettvangur fyrir tengslamyndun og miðlun upplýsinga.“
Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, þegar hún setti í dag Íslensku sjávarútvegssýninguna 2017, ásamt Ármanni Ólafssyni, bæjarstjóra Kópavogs. Bætti hún við að sýningin væri sú stærsta sem haldin hefði verið hér á landi til þessa.
„Fyrirtækin sem hér eru samankomin eru í fremstu röð á sviði vinnslu, veiði og nýsköpunar. Aðrir gestir koma úr ólíkum áttum en öll eigum við sameiginlegt að vilja sækja lengra og skapa meiri verðmæti,“ sagði Þorgerður.
„Mín reynsla af þessum sýningum er að þeim loknum er maður betur upplýstur um hvar við stöndum en ekki síður hvert við stefnum og hvernig við munum komast þangað. Þessi sýning verður án efa engin undantekning.“
„Við bjóðum stolt til leiks gesti frá sex heimsálfum. Þeir koma ekki aðeins til Íslands vegna höfðinglegrar gestrisni ykkar heldur líka vegna þess að þið eruð stöðugt í fararbroddi á heimsvísu í þróun tæknibúnaðar fyrir sjósókn og fiskvinnslu. Og líka vegna þess að þið horfið til framtíðar í því skyni að tryggja sjálfbærnina í sjávarútveginum til langs tíma,“ sagði þá Marianne Rasmussen-Coulling, framkvæmdastjóri sýningarinnar.
„Ég hef fengið mikið dálæti á þessari atvinnugrein og þessari þjóð á þeim 22 árum sem liðin eru síðan ég kom hingað fyrst sællrar minningar. Í ár fögnum við 33 ára afmæli Íslensku sjávarútvegssýningarinnar,“ bætti hún við.
„Það er alltaf sönn ánægja að snúa aftur hingað en það sem skiptir þó meiru er að á komandi árum mun sú umræða og þeir tengiliðir sem skapast á þessari sýningu leika lykilhlutverk í að móta framtíð atvinnuveiða.“
Þetta er í tólfta skipti sem Íslenska sjávarútvegssýningin, IceFish, er haldin en fyrsta sýningin fór fram árið 1984. Sýningin er þríæringur, þ.e. haldin á þriggja ára fresti að ósk sýnenda. Íslenska sjávarútvegssýningin hefur alltaf notið mikilla vinsælda meðal almennings, eins og aðsóknin á síðustu sýningu ber með sér, en þá mættu yfir 15 þúsund gestir.
Í ár koma fram nærri 500 ný fyrirtæki, vörur og vörumerki á Íslensku sjávarútvegssýningunni og aðilar frá samtals 22 nýjum löndum taka þátt. Alþjóðlegum þátttakendum hefur fjölgað um 41% frá því sýningin var haldin síðast.
Á meðal þátttakenda eru mun stærri aðilar frá Danmörku og Noregi en hafa verið áður á sýningunni og nýir þátttakendur frá fjarlægum stöðum á borð við Bangladess, Indland, Perú, Bandaríkin, Tyrkland, Spán, Portúgal og Litháen.
„Við erum stolt af því að hýsa þennan tilkomumikla viðburð í Kópavogi og útvega þannig vettvang fyrir öll helstu fyrirtæki í sjávarútveginum, bæði íslensk og erlend, til að miðla þekkingu sinni og tækninýjungum,“ sagði þá Ármann Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
„Íslenskur sjávarútvegur hefur verið í fararbroddi í tæknilegri þróun, allt frá því að þróa siglingarkerfi og fiskleitarkerfi til þess að hanna nýjan búnað og tæki. Margar af þessum nýjungum eru til sýnis hér á Íslensku sjávarútvegssýningunni.“