Stóru fréttirnar eru að áhrifin af laxeldi eru staðbundnari en menn töldu áður. Þetta sagði Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar á morgunfundi sem haldinn var í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu nú í morgun um áhættumat Hafró á laxeldi.
„Áhrifin eru mest næst eldisstöðvunum þannig að allar ár landsins eru ekki í hættu, en við munum sjá eldislaxa í laxveiðiám,“ sagði Sigurður. Fari blöndun eldislax við villtan lax hins vegar ekki upp fyrir 4%, en áhættumat Hafró bendir til að blöndunin sé innan þeirra marka, eigi villti laxinn að þola þá blöndun.
Húsfyllir var á fundinum og ljóst að margir láta sig málið varða, enda sagðist Sigurður hafa gert lítið annað en svara fyrir áhættumatið frá því að það var fyrst kynnt í sumar.
„Umræðan er mikilvæg og við eigum einstakt tækifæri í íslensku fiskeldi til að stýra því á þann veg að það verði farsælt fyrir bæði náttúruna og eldið,“ sagði Sigurður og fór stuttlega yfir sveiflukennda sögu laxeldis hér á landi. Sagði hann eldisferilinn hafa verið illa undirbúinn í upphafi og töluvert um slysasleppingar og strok eldislaxa á upphafsárunum. Sýnt hafi verið fram á erfðablöndun í Elliðaám á árunum 1990-2005 og vísbendingar hafi fundist um erfðablöndun í tveimur ám á Vestfjörðum árin 2014-2015.
Fiskeldi sé hins vegar vaxandi atvinnugrein á heimsvísu og um 50% af sjávarfangi nú komi frá eldi. Sagði Sigurður Íslendinga eiga mikla möguleika í eldinu, enda séu hvergi betri skilyrði til að ala fisk en við Ísland, þó að fiskeldi hafi ekki farið á flug hér enn þá. „Það er mikið laxeldi í Noregi og í viðamikilli rannsókn sem gerð var þar í landi kemur fram að það er víða erfðablöndun, en hún er þó lítil miðað við umfang eldisins.“
Mikil blöndun sé engu að síður nú þegar í ám í Noregi og aðstæður laxastofna landanna því ekki fyllilega sambærilegar.
Sagði Sigurður tvær leiðir til að varðveita villta laxastofna hér á landi og draga úr blöndun. Annars vegar með því að koma í veg fyrir strok, eða með því að hindra æxlun með notkun á ófrjóum eldislaxi. „Það dró verulega úr stroki með breyttum reglugerðum varðandi búnað í Noregi,“ sagði Sigurður, en bætti þó við að alltaf sleppi meira en sé tilkynnt.
Íslenskar og norskar reynslusögur hafi verið nýttar við gerð líkans Hafró, auk þess sem stofnunin tekur þátt í starfi samstarfshópsins Atlantic Ocean Resarach Alliance – Galway við að meta áhrif fiskeldis á villta stofna.
„Við erum annars vegar að skoða strokið og líkur á að fiskurinn komist í árnar og hins vegar hvað gerist svo þar,“ segir hann. Í áhættumatinu sem birt var í sumar hafi menn m.a. verið að reyna að átta sig á því hvert eldislaxinn fari. „Fiskar sem sleppa ungir haga sér til dæmis öðruvísi en þeir sem sleppa gamlir,“ segir hann. Kvíin sé heimili þeirra ungu og þeir leiti innan við 100 km svæðis að á til að hrygna í á meðan stór fiskur geti lagt allt að 1.000 km að baki. Eldri fiskurinn hafi hins vegar mun minni hrygningahæfni.
Áhrifin séu því mest næst eldisstöðvunum. Sigurður segir engu að síður þurfa að huga að mótaðgerðum, m.a. með því að nýta stranga staðla Norðmanna varðandi sterkbyggðari búnað, auka útsetningu stórseiða í stað smáseiða þar sem að þau stærri séu ólíklegri til að komast úr eldiskvíum og ólíklegri til að lifa það af takist þeim að smjúga í gegn, og svo þurfi einnig að tryggja gott ástand náttúrulegra stofna. „Of mikið veiðiálag skilur eftir tómarúm fyrir eldislax að nýta sér,“ segir hann.
„Ég spái því líka að innan nokkurra ára verði komin ófrjór lax sem menn nota í eldi.“
Tillögur Hafrannsóknarstofnunnar um að heimila 50.000 tonn laxeldis á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum byggi á þessari vinnu. Henni sé þó hvergi nærri lokið og áfram verði unnið áhættumat með vöktun í ám sem verði endurskoðað á þriggja ára fresti.
„Sýni verða tekin úr ám og þau erfðagreind og ef eldislaxinn er ekki að sýna sig í síunni þá erum við í góðum málum og getum mögulega aukið eldið,“ sagði Sigurður.