Formaður nefndar um sátt í sjávarútvegi ætlaði aldrei að skapa neina sátt um sjávarútveg, heldur ætlaði hann að reka fleyg í ríkisstjórnarsamstarf Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks. Þetta segir Páll Jóhann Pálsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í nefndinni, í fréttatilkynningu sem hann sendi frá sér vegna greinagerðar Þorsteins Pálssonar formanns sáttanefndar um gjaldtöku í sjávarútvegi.
Greint var frá því fyrr í dag að starfi þverpólitískrar nefndar um framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni hefur verið slitið vegna þingrofs og komandi kosninga.
Með tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu um málið fylgdi greinargerð formanns nefndarinnar, Þorsteins Pálssonar, um stöðu mála í nefndinni við starfsslitin en alls hélt hún níu formlega fundi frá 19. maí til 6. september.
Í greinargerð sinni sagðist Þorsteinn hafa ítrekað þá skoðun sína, á síðasta fundi nefndarinnar, að mikilvæg forsenda fyrir áframhaldandi leit að lausn væri samstaða um að gjaldtaka skyldi miðast við tímabundin afnot auðlindarinnar.
Páll Jóhann segir í yfirlýsingu sinni hafa, ásamt fulltrúum tveggja annarra flokka, varað við að svona gæti farið og að bókun þess efnis hafi verið skráð þann 20. júní s.l.
„Það eru forkastanleg vinnubrögð af hálfu formanns nefndarinnar að slíta nefndarstarfinu án samráðs við nefndarmenn og túlka niðurstöðu nefndarinnar með þeim hætti að ekki hafi verið hægt að ná sátt um langtíma samninga. Eftir gagnaöflun og greinagerðir sérfræðinga höfðu aðeins tveir af sjö nefndarmönnum lagt fram sínar hugmyndir formlega inn í umræðuna og því ótímabært að slíta viðræðum,“ segir í tilkynningunni.
Í nefndarstarfi sem þessu sé mikilvægt að vanda til verka og því sé það umhugsunarefni að vinnugögn nefndarinnar séu birt opinberlega áður en vinnu sé lokið.
Framsóknarflokkurinn hafi í nefndarstarfinu lagt ríka áherslu á „að treysta atvinnu og byggð í landinu og hámarka þjóðhagslegan ávinning af auðlindinni án þess að ganga ekki of nærri minni útgerðarfyrirtækjum.“