Sjávarútvegsmál hafa ekki verið fyrirferðarmikil í aðdraganda kosninganna en engu að síður er sjávarútvegur meðal mikilvægustu atvinnugreina landsins. Fiskveiðistjórn, súrnun sjávar og handfæraveiðar eru meðal þess sem ratar á stefnuskrár flokkanna en hvað vilja flokkarnir gera í þessum málum? Mbl.is hefur tekið saman helstu atriðin í stefnum þeirra er varða atvinnugreinina sjálfa og umhverfismál sem tengjast sjávarútveginum.
Í stefnu Alþýðufylkingarinnar er stefnt að því að innkalla fiskveiðiheimildir og úthluta verulegum hluta þeirra til byggðarlaga sem byggja tilvist sína á sjávarútvegi og geta tekið við aflanum til vinnslu. Þá segir að full greiðslu skuli koma í ríkissjóð fyrir veiddan fisk þar sem að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. Alþýðufylkingin vill jafnframt banna brask með veiðiheimildir þannig að ónýttum veiðiheimildum verði skilað til endurúthlutunar eftir forgangsröðun sem tekur tillit til félagslegra þátta. Þá segir í stefnuskránni að ríkið eigi að leysa útgerðarmenn undan okinu og yfirtaka stærstu útgerðarfélögin ef þeir kveinka sér undan minnkandi gróða og reyna að hindra breytingar. Alþýðufylkingin vill jafnframt gefa handfæraveiðar frjálsar og hvetja til notkunar umhverfisvænna veiðarfæra.
Björt framtíð telur að áfram eigi að nota kvótakerfi við að stjórna fiskveiðum því flokkurinn trúi því að það sé hagkvæmasta aðferðin til að halda heildarafla innan skynsamlegra marka sem og kostnaði við að sækja alflann niður. Eins telur Björt framtíð það stuðla að bestri aflameðferð og gæðum og þar með verðmætasköpun og arði af fiskveiðum og vinnslu.
Flokkurinn telur hins vegar að tryggja þurfi öruggari og meiri hlutdeild fólksins í landinu í arðinum en nú er sérstaklega hvað varðar fólk sem starfar í sjávarútvegi. Í stefnuskránni segir að það þurfi að gera með gagngerri endurskoðun á núverandi veiðigjaldskerfi eða uppboði á aflaheimildum með skilyrðum sem tryggja meðal annars nægilegan varanleika og rekstraröryggi hjá þeim sem gera út og stunda fiskvinnslu og koma í veg fyrir of mikla samþjöppun og tryggja raunverulega og virka samkeppni um aflaheimildir. Björt framtíð telur rétt að nota bæði veiðigjöld og uppboð til að byrja með þannig að fiskveiðikvóta verði úthlutað með þeim aðferðum sem nú er gert en með endurskoðun veiðighjalda og úthluta hluta kvótans á grundvelli uppboða.
Dögun hefur talað fyrir endurskoðun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, meðal annars í myndbandi sem fékk mikla athygli fyrir síðustu kosningar. Stefna flokksins í sjávarútvegsmálum grundvallast á nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið er á um þjóðareign á auðlindum og nýtingarrétti þeirra.
Í stefnuskrá flokksins segir að gagnger endurskoðun á kerfinu muni meðal annars byggjast á fullu jafnræði í aðgengi að veiðiheimildum, banni á framsali, framleigu og veðsetningu veiðiheimilda, upptöku auðlindagjalds fyrir afnotin sem renni til ríkis og sveitarfélaga og fjárhags- og rekstrarlegs aðskilnaðar á milli veiða og fiskvinnslu. Dögun vill jafnframt að handfæraveiðar verði frjálsar.
Í stefnuskrá Flokks fólksins segir að sjávarútvegurinn sé undirstaða fyrir blómlega byggð á Íslandi og að mikilvægt sé að tryggja nýtingarréttur á fiskmiðunum glatist ekki frá sjávarbyggðum umfram það sem orðið er. Flokkurinn vill hlúa að þeim byggðum og telur að þjóðin öll eigi að njóta afraksturs af fiskmiðum hennar. Þá vill flokkur fólksins að frelsi til strandveiða verði aukið.
Framsóknarflokkurinn vill að skilgreint sé hvað flokkast undir auðlindir og auðlindaákvæði verði sett í stjórnarskrá til að tryggja eignarhald og landsmönnum sanngjarnan arð af sameiginlegum auðlindum.
Sjávarútvegurinn er ekki fyrirferðarmikill í málefnaáherslum Framsóknarflokksins sem vill auka fræðslu og rannsóknir á skaðsemi plasts og súrnunar sjávar á lífríkið við Íslandsstrendur. Í málefnaskránni segir að Norðurslóðir séu sérstaklega viðkvæmt svæði er varðar breytingar á umhverfi þess og að flokkurinn vilji setja aukið fjármagn í rannsóknir á svæðinu og áhrifum plasts og súrnunar sjávar á lífríki.
Frétt mbl.is: Hvað á að gera við stjórnarskrána?
Í kosningastefnu Miðflokksins er ekki sérstaklega vikið að sjávarútvegs- eða umhverfismálum en aðal áhersluatriði flokksins eru fjármálakerfið, atvinnulíf og nýsköpun, menntun og vísindi, heilbrigðiskerfið og réttindi eldri borgara. Eitt af markmiðunum á kosningastefnu flokksins er aukin nýsköpun og verðmætasköpun.
Hluti af stefnunni „Ísland allt“ hjá Miðflokknum er að starfsöryggi undirstöðuatvinnugreina verði tryggt og heildarframlag þeirra reiknað.
Í áherslu- og stefnumálum Pírata segir að Píratar vilji að stjórnvöld bjóði fiskveiðikvótann upp í skrefum, að allur afli fari á markað og að handfæraveiðar verði gefnar frjálsar, til að tryggja nýliðun í greininni og atvinnuöryggi um allt land.
Stefna Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum frá stofnun hefur verið að bjóða út fiskveiðikvóta. Í stefnuskrá flokksins segir útboðin þjóni tvíþættum tilgangi með því að veita nýliðum aðgengi og að skila eðlilegum arði til eigandans, þjóðarinnar. Með því að láta bjóða í fiskveiðiheimildirnar telur Samfylkingin að þjóðin fái hæst verð fyrir afnotin af eign sinni. Mikilvægt er að slíkt útboð verði undirbúið með aðkomu erlendra og innlendra fræðimanna og sérfræðinga á sviðinu.
Vísað er til þess að í Færeyjum var nýlega byrjað að bjóða út aflaheimildir að frumkvæði systurflokks Samfylkingarinnar og að reynsla þeirra sýni að með útboðum gætum við fengið mun meiri tekjur af fiskveiðiauðlindum en í dag.
Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins segir að íslenskur sjávarútvegur sé í fremstu röð á heimsvísu, jafnt hvað varðar gæði, sjálfbærni, þróun og arðsemi. Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja stöðugleika í sjávarútvegi svo hann geti áfram staðið að nýsköpun og vöruþróun og lagt drjúgan og sanngjarnan skerf af mörkum til lífsgæða landsmanna.
Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér fyrir víðtækri sátt um nýtingu náttúruauðlinda og að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda sé að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila, en nýtingin þurfi að vera innan sjálfbærra þolmarka með sama hætti og gilt hefur um sjávarútveg.
Þá segir í stefnuskránni að Sjálfstæðisflokkurinn vilji að ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu verði gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða beri eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki verði gripið til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga þegar slíkt er ekki brýn nauðsyn vegna þjóðarhags.
Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðarinnar og stefna flokksins til að ná því markmiði er sú að í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Í stefnuskránni segir að þannig fáist sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verði stöðug til frambúðar. Þá segir að leiðin hvetji til hagræðingar og hámarksarðsemi þegar til lengri tíma sé litið og að einnig opnist leið fyrir nýliðun.
Vinstri grænir leggja áherslu á afdráttarlaust auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindum sé skýrt. Flokkurinn vill að fyrirtæki, sem stunda eldi í sjó, greiði fyrir nýtingu sjávar líkt og um lóðaleigu væri að ræða og að útgerð greiði veiðigjald sem er fast hlutfall af aflaverðmæti selt úr skipum.
Við útfærslu slíks gjalds telja Vinstri grænir að mikilvægt sé að komi til þrepaskiptingar milli ólíkra útgerðarflokka og afkomu eins og flokkurinn vill gera í skattkerfinu, þar sem er ólíku saman að jafna, hagkvæmni og hagnaði stórútgerðarinnar og minni útgerða.
Frétt af mbl.is: Hvað vilja flokkarnir í utanríkismálum?
Fiskeldismál rata ekki inn á stefnuskrár allra stjórnmálaflokkanna en nokkrir þeirra leggja talsverða áherslu á málaflokkinn. Þannig vill Framsóknarflokkurinn vinna að sátt um sjálfbært fiskeldi en í stefnuskrá framsóknarmanna segir að vöxtur og viðgangur laxeldis megi ekki gerast á kostnað náttúrunnar eða villta íslenska laxastofnsins.
Vinstri grænir leggja talsverða áherslu á fiskeldi í stefnuskrá sinni en líkt og áður segir vill flokkurinn að fyrirtæki greiði lóðaleigu fyrir fiskeldi í sjó. Í stefnuskrá flokksins segir að í fiskeldi séu miklir vaxtar- og framtíðarmöguleikar víða um land, styðja þurfi við þróunarstarf og rannsóknir og skapa stranga lagaumgjörð og reglur fyrir greinina.
Nokkrir stjórnmálaflokkanna minnast á olíuleit á Drekasvæðinu í stefnuskrá sinni. Þannig segir í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar að ef olíu sé að finna á Drekasvæðinu vilji fylkingin að hún sé látin liggja kyrr. Samfylkingin vill að Íslendingar lýsi því yfir að þeir hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni og gefi ekki út ný leyfi til leitar á olíu. Vinstri grænir vilja jafnframt hverfa frá olíuvinnslu og skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir endurnýjanlega orkugjafa til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust Ísland árið 2050. Þá er Björt framtíð alfarið á móti olíuvinnslu á norðurslóðum.
Þeir flokkar sem minnast á olíuleit í stefnuskrá sinni gera súrnun sjávar jafnframt að umfjöllunarefni. Þannig er súrnun sjávar nefnt sem brýnt úrlausnarefni samtímans hjá Alþýðufylkingunni og Vinstri grænum en Framsóknarflokkurinn vill auka fræðslu og rannsóknir á súrnun sjávar við Íslandsstrendur. Í stefnuskrá Bjartrar framtíðar segir að flokkurinn vilji berjast gegn frekari súrnun hafsins og að náttúruvernd sé annað lykilstef flokksins. Þá er Samfylkingin með aðgerðir gegn súrnun sjávar á stefnuskrá sinni og segja að flokkurinn ætli að gera vöktun og rannsóknir á súrnun að forgangsverkefni sem stjórnvöld beiti sér fyrir á alþjóðavettvangi.
Frétt mbl.is Súrnun hefur áhrif á allt lífríki hafsins