„Ég ákvað að hitta í fyrramálið sjómannaforystuna og útgerðarmenn,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en í ráðuneytinu var í morgun haldinn fundur vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi.
Í þættinum voru birt myndbönd sem sýndu mikið brottkast á íslensku fiskiskipi, Kleifabergi. Í honum var einnig fjallað um umfangsmikið meint svindl útgerðarinnar á vigtun aflans. Þorgerður Katrín segir að það hafi vakið athygli sína að í viðbrögðum SFS, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sé ekkert vikið að vigtunarmálum.
Fulltrúar ráðuneytis og stofnana þess; Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar, hittust í morgun á fundi og fóru yfir stöðuna, bæði hvað varðar brottkastið en eins vigtunarmálin. Þorgerður Katrín segir að hún hafi eftir fundinn ákveðið að hitta útgerðarmenn. Næstu skref verði ákveðin eftir þann fund. „Það er mikilvægt að eiga samtal og samstarf við útgerðina.“
Hún segir að eftir þáttinn hafi hún fengið ábendingar um hvað betur megi fara í þessum málum. „Ég fæ líka pósta með ábendingum um handvömm á ákveðnum sviðum,“ segir hún.
Þorgerður Katrín segir að jákvæð þróun hafi orðið á fiskveiðistjórnunarkerfinu en brottkast sé enn til staðar og það þurfi að taka alvarlega. Hún segir að útgerðin þurfi að sinna enn betur því „ábyrgðamikla hlutverki að nýta fiskistofnana okkar“. Hún leggur áherslu á að samstarf sé mikilvægt.
Í þættinum kom fram að þess væru mörg dæmi að afli væri vantalinn í seinni vigtun, þeirri sem á endanum gilti við útreikninga á aflaheimildum. Ís, sem hluti af brúttóþyngd aflans, reyndist samkvæmt vigtunum miklu meiri þegar eftirlitsmenn Fiskistofu væru fjarstaddir. Fram kom að með þessu væri útgerðin að svindla á kvóta og komast þannig upp með að veiða meira en aflaheimildir segi til um.
Þorgerður segir í þessu sambandi að hún hafi orðið þess áskynja á fyrstu dögum sínum í embætti, þegar sjómannaverkfallið var, að mikillar tortryggni gætti varðandi löndun og vigtun, með tilliti til launakjara sjómanna. Sjómenn fá laun eftir verðmæti aflans og ef hann er vantalinn eru sjómenn snuðaðir um laun.
„Við eigum að taka svona hluti alvarlega,“ segir Þorgerður um þáttinn í gær en bætir við að hún vilji sem minnst segja fyrr en hún hafi rætt við útgerðarmenn og sjómenn. „Við höfum gott stjórnkerfi fiskveiða og mikla reynslu og eigum að byggja á henni. Við eigum ekki að níða það sem þó er vel gert en við getum bætt okkur á sviði vigtunarmála,“ segir hún og bætir við að kerfið þurfi að hvetja til ábyrgrar umgengni við auðlindir hafsins.
Fundur ráðherra með forystufólki útgerðar- og sjómanna fer fram í fyrramálið.