Þorskveiði togara HB Granda hefur verið slök í haust og það sem af er vetri, eða fram að síðustu helgi þegar skipin fengu mjög góðan þorskafla. Fara þarf tíu ár aftur í tímann, eða aftur til þess tíma þegar þorskkvótinn var skertur verulega, til að finna dæmi um jafn slaka þorskveiði á þessum tíma árs.
Mokafli hjá þrjátíu togurum
Þetta segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, útgerðarstjóri ísfisktogara HB Granda, en fjallað er um þetta á vef útgerðarinnar.
Segir þar að vert sé að hafa í huga að eftir eigi að koma í ljós hvort það skot, sem kom í þorskveiðina síðastliðinn laugardag á Vestfjarðamiðum, bendi til aukinnar veiði næstu vikurnar.
„Þetta er langbesta veiðin sem fengist hefur frá því í sumar og það er ekki laust við að ákveðin fortíðarþrá hafi gert vart við sig því þarna voru einir þrjátíu togarar að veiðum og það var mokafli hjá þeim öllum,“ sagði Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á Helgu Maríu AK, í gær.
Ef til vill bara orðinn góðu vanur
Að sögn Birkis Hrannars er þó ljóst að haustveiði á þorski hefur verið mun dræmari í ár og í fyrra en í mörg ár þar á undan. Hann segir að undanfarnar vikur hafi verið dræmar fyrir vestan og í fleiri skipti en færri hafi skipin ekki náð þeim þorski sem þeim hafi verið ætlaður. Besta veiðin hafi verið yfir nóttina og jafnvel þá hafi komið fyrir að skipin hafi ekki náð tonni á togtímann.
„Líklega hefur bolfiskveiðin frá 2009 til 2015 verið heilt yfir mjög góð, þ.e.a.s. í þorski, ufsa og karfa. Þá þótti gott ef t.d. Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom með 60-65 tonn af tveggja kílóa þorski og lítið með því eftir 5 daga á Vestfjarðamiðum. Hér áður fyrr var þorskveiðin svona og e.t.v. var maður bara orðinn góðu vanur,“ segir Birkir Hrannar Hjálmarsson.