Undirritaðir hafa verið samningar um smíði á sjö nýjum togurum fyrir fjórar íslenskar útgerðir. Um er að ræða tvö skip fyrir Berg-Hugin, dótturfélag Síldarvinnslunnar, tvö skip fyrir Gjögur, tvö fyrir Skinney — Þinganes og eitt fyrir Útgerðarfélag Akureyringa.
Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar, en þar segir að áætlað sé að smíði hvors skips fyrir útgerðina taki 14 mánuði. Gert er ráð fyrir að fyrra skipið verði afhent þeim í marsmánuði 2019 og hið síðara í maí sama ár.
Frá undirritun samninga um smíði skipanna sjö. Frá vinstri: Hjörvar Kristjánsson (Samherji), Ásgeir Gunnarsson (Skinney – Þinganes), Aðalsteinn Ingólfsson (Skinney – Þinganes), Gunnþór Ingvason (Síldarvinnslan), Guðmundur Alfreðsson (Bergur-Huginn), Geir Larsen (VARD), Freyr Njálsson (Gjögur), Grétar Sigfinnsson (Síldarvinnslan), Arnet Rindaroy (VARD) og Ingi Jóhann Guðmundsson (Gjögur).
Ljósmynd/Síldarvinnslan
Smíðuð í Noregi
Nýju skipin verða smíðuð af skipasmíðastöðinni VARD í Noregi. Fyrirkomulag og val á búnaði verður þá unnið í samstarfi við útgerðirnar, en skipin verða 28,98 metrar að lengd og 12 metrar að breidd.
Verða í þeim tvær aðalvélar með tveimur skrúfum, ásamt nýrri kynslóð rafmagnsspila frá Seaonics.
Fram kemur að í skipunum verða íbúðir fyrir 13 manns. Þau muni þá taka 244 x 460 lítra kör í lest, eða um 80 tonn af ísuðum fiski. Tekið er fram að við hönnun þeirra hafi verið vandlega hugað að allri nýtingu á orku.
Þannig munu Vestmannaey og Bergey líta út.
Teikning/VARD
Horft verði til íslenskra framleiðenda
Við hönnun á vinnsludekki verði enn fremur höfð að leiðarljósi vinnuaðstaða sjómanna, öflug kæling og góð meðhöndlun á fiski. Horft verði til þeirra gæða og reynslu sem íslenskir framleiðendur búa yfir á smíði vinnslubúnaðar.
„Ástæða þess að ákveðið var að semja við VARD er sú að um er að ræða öflugt fyrirtæki, þar sem ferlið frá hönnun skips til afhendingar á fullbúnu skipi er á hendi sama aðila. Því er aðeins við einn aðila að semja,“ segir Gunnþór B. Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, sem undirritaði samninginn fyrir hönd dótturfyrirtækisins.
Síðastliðið sumar kynnti Síldarvinnslan þau áform sín að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins og mun þessi nýsmíðasamningur vera fyrsti áfangi þess viðamikla verkefnis.