Tillaga starfshóps um niðurfellingu stærðar- og vélaraflstakmarkana skipa við veiðar hefur vakið hörð viðbrögð. Landssamband smábátaeigenda segir að vegið sé að framtíð smábátaútgerðar.
Sambandið hefur sent atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu bréf með athugasemdum við tillögu starfshóps ráðuneytisins, sem er á þá leið að allar núgildandi stærðar- og vélaraflstakmarkanir skipa við veiðar verði felldar úr gildi.
Í bréfinu segir að þessi niðurstaða hópsins sé sambandinu mikil vonbrigði. Telur sambandið tillöguna vega að framtíð smábátaútgerðar á landinu og veiðirétti þeirra.
„Hópurinn hefur með tillögu sinni ákveðið að skeyta engu um þær reglur sem í gildi eru og verið einn af hornsteinum að útgerð smábáta. Að skýrar reglur gildi um veiðar á grunnslóð, hvers konar skip geti sótt á hefðbundin veiðisvæði smábáta. Sátt hefur ríkt um lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þar sem haft er til hliðsjónar að stærð báta takmarki sókn þeirra á veiðislóðir fjær landi.“
Axel Helgason, formaður LS, segir tillöguna ekki í samræmi við markmið núgildandi laga.
„Það helsta sem við hnjótum um er að starfshópurinn leggur til að allar núgildandi stærðar- og vélartakmarkanir verði felldar úr gildi. Í því felst ekkert annað en meiri háttar breyting á okkar umhverfi, og er í raun á skjön við markmið fyrstu greinar laga um stjórn fiskveiða,“ segir Axel í samtali við 200 mílur. Samkvæmt umræddri grein er markmið laganna að verndun og hagkvæmri nýtingu nytjastofna „og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“
„Það að halda þessu útgerðarformi við lýði er í hag byggðanna. Að þetta sé ekki allt á hendi stærstu aðilanna,“ bætir hann við.
„Og síðan segir Fiskistofa að það að heimila stærri bátum að koma að veiðum muni „að mati Fiskistofu leiða af sér bætta umgengni um auðlindina og bætta aflameðferð.“ Það eru engin rök fyrir þessu og það er bara verið að skjóta okkur niður.“
Aðspurður segir hann Landssambandið munu kalla eftir svörum frá Fiskistofu vegna þessa.
„Við munum krefjast þess að fá að vita til hvers þeir eru að vísa þarna. Hvernig umgengni um auðlindina sjáum við á stóru skipunum? Hvaða samhengi er þar við stærð skipsins og fjarlægð frá landi? Þetta er náttúrlega sorglegt.“
Þá bendir hann á að Hafrannsóknastofnun nefni að á nokkrum stöðum sé ljóst að engin fiskifræðileg rök séu fyrir stærðartakmörkunum.
„Það má vel vera en fiskveiðistjórnunarkerfið snýst ekki bara um fiskifræðileg rök. Þetta er atvinna nokkurra þúsunda manna og verið er að viðhalda henni til að stuðla að byggð úti um landið.“
Þá segir hann takmarkanirnar ekki heldur vera aðeins til að vernda ungviði fiska og sjávarbotninn.
„Þetta snýst um að það farsvið sem smábátar hafa sé að hluta til verndað fyrir þessum stórvirku veiðarfærum. Dragnótabátar geta núna komið inn í botninn á Skagafirði og hreinsað upp fiskinn á einni og hálfri viku. Eftir það er engin línuveiði í Skagafirði, allan veturinn. Í staðinn fyrir að heimamenn gætu veitt þar jafnt og þétt á sama tíma með valkvæðara veiðarfæri sem hróflar ekki við botninum.“