Til eru aðrar leiðir til að halda uppi byggðum í landinu en að þvinga menn til að standa í útgerð og atvinnuháttum sem bera sig kannski ekki lengur. Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, í umræðum á Alþingi í gær þar sem hann var spurður út í stefnu sína hvað varðar veiðigjöld í sjávarútvegi.
„Með veiðigjöldin þá viljum við fyrst og fremst að þjóðin fái hærri afgjöld af sameiginlegum auðlindum sínum, hvort sem um er að ræða sjó eða orku eða annað slíkt. Auðvitað getur slíkt leitt til mikillar samþjöppunar,“ sagði Logi og benti á að til væru aðrar leiðir.
„Af hverju bjóðum við ekki út eitthvað af þessum kvóta? Af hverju tökum við ekki byggðakvótann og látum byggðirnar fá peningana í staðinn fyrir að vera með þetta kerfi sem við erum með í dag og gerum þeim kannski kleift að byggja upp á nýjum atvinnuvegum, ferðaþjónustu, nýsköpun og öðru slíku?“ spurði Logi.
Sagði hann að ótrúlegt væri „að hlusta á fulltrúa frjálshyggjunnar hérna“, og vísaði þar til Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, sem spurt hafði Loga í ræðu sinni þar á undan um stefnu hans þegar kemur að veiðigjöldum.
Bætti Logi við hvort útgerðin ætti að lúta öðrum lögmálum en önnur starfsemi og tók sem dæmi verkfræðistofur, rakarastofur og nuddstofur.
„Er ekki allt í lagi þó að eitthvað af útgerðarfyrirtækjunum fari á hausinn og við leitum í hagkvæmasta reksturinn þannig að þjóðin fái á endanum afgjaldið? Aðalatriðið er að byggðunum blæði ekki. En ef háttvirtur þingmaður getur fullvissað mig um að í núverandi kerfi hafi byggðunum ekki blætt, þá skal ég bara biðjast afsökunar.“
Að loknu svari Loga sté Óli Björn aftur í ræðustól:
„Herra forseti. Þetta var merkileg ræða. Ég skal fullyrða að það mun fyrst og fremst koma niður á byggðum, meðal annars í kjördæmi háttvirts þingmanns, ef hugmyndafræði hans og stefna þegar kemur að veiðigjöldum nær fram að ganga,“ sagði Óli Björn.
„Það kemur ekkert á óvart að þingmaðurinn skuli tala með þessum hætti þegar hugmyndafræði hans byggir á því að ríkið sé að afsala sér einhverjum tekjum þegar skattar eru ekki hækkaðir meira en gert er eða þeir lækkaðir.Sá sem talar með þeim hætti gengur út frá því að ríkið eigi í raun eigi allt sem einstaklingurinn aflar sér, launamaðurinn, vegna þess að það er ekki hægt að afsala sér neinu því sem maður á ekki. Hugmyndafræðin byggir á því að ríkið eigi í rauninni allt sem einstaklingurinn aflar og fyrirtækin afla. Þeirri hugmyndafræði er ég að berjast gegn. Ef það telst frjálshyggja er ég frjálshyggjumaður.“
Logi tók þá á ný til máls og fullyrti að veiðigjöld væru ekki skattur.
„Þau eru gjald fyrir afnot af takmarkaðri auðlind. Ef það hefur farið fram hjá háttvirtum þingmanni þá hefur Samfylkingin meira að segja talað fyrir annars konar gjaldtöku sem er hugsanlega í formi uppboðs sem leiðir til þess að menn bjóða væntanlega ekki meira í hlutinn en þeir ráða við að borga,“ sagði Logi.
„Í góðu ári fáum við miklar tekjur og í slæmu ári minni tekjur þannig að greinin geti alltaf borið þetta. Það er auðvitað skynsamlegast þegar öllu er á botninn hvolft. Þannig gerum við þetta í ýmsum öðrum atvinnugreinum.“
Áður hafa 200 mílur greint frá erfiðleikum smærri útgerða að undanförnu, þar sem há álagning veiðigjalda hefur reynst mörgum þungur baggi.