Ráðherra getur með reglugerð sett reglur um álaveiðar, m.a. um að banna eða takmarka álaveiðar um allt land eða á tilteknum svæðum ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar. Þetta segir í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að Fiskistofa óskaði eftir því fyrir nokkrum árið 2015 að ráðuneytið hlutaðist til um að álaveiðar yrðu bannaðar eða takmarkaðar á Íslandi og við landið. Ástæðan er sú að álastofninn hefur minnkað víða um heim og álaveiðar eru nær alls staðar bannaðar í heiminum. Áll er einnig kominn á bannlista sem verslunarvara eða á lista CITES (Appendix II).
„Alþjóðahafrannsóknaráðið leggst alfarið gegn veiðum á ál meðan svo er ástatt fyrir stofninum og í sama streng taka fleiri alþjóðastofnanir um fiskveiðimál (t.d. EIFAAC).“ Þetta kemur fram í greinargerðinni.
Hér á landi eru afar litlar upplýsingar til um álaveiðar á og við Ísland og að engin veiði hefur verið skráð. Veiðimálastofnun vill jafnframt að ef áll veiðist í silungs- eða laxveiði verði skylt að sleppa honum.
Ráðgjöf Veiðimálastofnunar séu umfram meðalhóf
Bændasamtök Íslands gerðu athugasemdir við frumvarpið. Þar kemur fram að samtökin dragi ekki í efa mat alþjóðastofnana á ástandi álastofnsins en bent á að þessi staða sé ekki tilkomin vegna óábyrgra veiða hérlendis þótt þær séu og hafi verið stundaðar í takmörkuðum mæli.
„Bændasamtökin telji að þær fyrirætlanir sem koma fram í ráðgjöf Veiðimálastofnunar séu umfram meðalhóf til að ná tilætluðum árangri í þessum efnum og að friðunarákvæði 20. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, veiti Fiskistofu nægilegar heimildir til tímabundinna friðana án þess að gengið sé um of á eignarrétt og atvinnufrelsi veiðiréttarhafa. Mjög litlar upplýsingar eru til um álaveiðar hér á landi en talið er að þær séu stundaðar að einhverju leyti. Ekki verður þó talið að þar sé um að ræða mikla hagsmuni.“ Þetta kemur meðal annars fram í athugasemdunum.