„Ertu fegin að fá mig í land?“

Fjölskylda Sigurðar Steinars beið hans á bryggjunni í morgun.
Fjölskylda Sigurðar Steinars beið hans á bryggjunni í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Ertu fegin að fá mig í land?“ spurði Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra á varðskipinu Þór, konu sína, Sólveigu Baldursdóttur, þegar hún tók á móti honum úr sinni síðustu ferð eftir 50 ára samfelldan feril hjá Landhelgisgæslunni. Sigurður er nýorðinn sjötugur og lætur af störfum vegna aldurs, en Landhelgisgæslan tók á móti honum með viðhöfn þegar Þór lagði að bryggju við Faxagarð í morgun. Stillt var upp heiðursverði og viðhafnarskotum var skotið til heiðurs skipherranum. 

Það var Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sem steig fyrstur um borð í Þór og heilsuðust þeir Sigurður formlega, að sið Gæslunnar, áður en þeir föðmuðust þéttingsfast. Á eftir kom fjölskylda hans, barnabarn sem hann tók í fangið og knúsaði og eiginkonan sem fékk koss. Aðrir fjölskyldumeðlimir fylgdu í kjölfarið, svo starfsmenn Landhelgisgæslunnar og fleiri velunnarar Sigurðar.

Algjör tilviljun að hann endaði í Gæslunni 

Í dag eru nákvæmlega 50 ár upp á dag síðan Sigurður hóf störf hjá Gæslunni en sjálfum finnst honum þessi tími hafa liðið ansi hratt. „Ég man vel eftir því þegar ég byrjaði. Það var fyrir algjöra tilviljun. Við ætluðum fara félagarnir úr fiskimannadeild yfir í farmannadeild við Stýrimannaskólann og urðum að ná okkur í sex mánaða siglingatíma. Ég fékk pláss á litlum varðbát, Maríu Júlíu. Ég held ég sé bara ennþá að ná mér í siglingatíma, eða kannski dagaði ég bara uppi,“ segir skipherrann kíminn í samtali við mbl.is.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, heilsaði Sigurði Steinari formlega áður en …
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, heilsaði Sigurði Steinari formlega áður en hann faðmaði félaga sinn þéttingsfast. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður hóf störf sem háseti, lauk svo námi úr Stýrimannaskólanum í Reykjavík og var skipstjórnarmaður á varðskipum og í loftförum í fjölda ára. Hann varð svo fastráðinn skipherra fyrir um 30 árum. Þá lauk hann frekara námi  frá Naval War College í Bandaríkjunum og sérfræðinámi frá Rhodes Academy í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Sigurður hefur á ferli sínum hefur gegnt fjölda starfa innan Landhelgisgæslunnar, meðal annars sem yfirmaður aðgerða. Þá hefur hann lagt lóð sitt á vogarskálarnar í mennta- og þjálfunarmálum Landhelgisgæslunnar. Í síðustu ferð sinni sem skipherra á Þór sigldi Sigurður í kringum landið og kvaddi hafnarstjóra og hafnir. Ferðinni lauk svo á viðamikilli æfingu með norska flotanum og varðskipinu Tý.

Stóð vaktina í tveimur þorskastríðum

Sigurði vefst ekki tunga um tönn þegar hann er spurður hvað stendur upp úr á ferlinum. „Að bjarga mannslífum er það sem stendur upp úr, það gefur okkur öllum mikið enda erum við fórnfúsir á þessu sviði, við Íslendingar.“

Hann náði því einnig að standa vörð um fiskveiðilögsögu Íslands í tveimur þorskastríðum. „Það var stundum erfitt en við vorum að reyna að ná fiskveiðimiðum þjóðarinnar.“ Annars hefur svo margt á daga Sigurðar drifið að ævintýrin gætu eflaust fyllt mörg bindi af bókum.

Viðhafnarskotum var skotið af bryggjunni til heiðurs skipherranum.
Viðhafnarskotum var skotið af bryggjunni til heiðurs skipherranum. mbl.is/Árni Sæberg

Nú hyggst hann hins vegar fara að sinna fjölskyldunni meira, segir tíma kominn til þess. Svo ætlar hann að ferðast, þrátt fyrir að hafa reyndar siglt um öll heimsins höf síðustu 50 ár.

Hann hlær þegar hann er spurður hvort konan sé fegin að fá hann í land. „Þú verður að spyrja hana að því.“ Svo rifjar hann upp sögu af frænku sinni og manninum hennar sem var skipstjóri. „Hann sá um útgerðina og hún sá um heimilið. Það tók tvö ár fyrir þau að ná saman í landi þegar hann hætti á sjónum. Hún vildi halda áfram að stjórna og hann vildi líka stjórna.“

Fara út í sortann 

Sigurður þakkaði konu sinni sérstaklega í ræðu sem hann hélt um borð í Þór þegar búið var að taka formlega á móti honum. Sagði það ekki auðvelt fyrir fjölskyldur starfsmanna Landhelgisgæslunnar að þurfa að horfa á eftir þeim út sortann þegar útkall kæmi. „Það má ekki gleyma einu í þessu starfi, það eru okkar fjölskyldur. Bakhjarl okkar. Við erum kannski út á sjó í vondum veðrum eða förum í útköll í vondum veðrum. Við segjumst bara vera að fara í útkall og svo förum við út í sortann. Ég vil sérstaklega þakka eiginkonu minni og fjölskyldu fyrir að hafa staðið við bakið á mér öll þessi ár.“

Sigurður Steinar hóf störf hjá gæslunni fyrir námkvæmlega 50 árum, …
Sigurður Steinar hóf störf hjá gæslunni fyrir námkvæmlega 50 árum, upp á dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þá spurði Sigurður í ræðu sinni hvort það væri klikkun að starfa í 50 ár hjá sömu stofnun. Eftir að hafa farið yfir það hvað starfið hefur verið fjölbreytt var niðurstaðan hins vegar sú að svo væri ekki. „Punkturinn yfir i-ið. Nei það er ekki klikkun, það er mín skoðun. Þetta er hugsjónastarf, eins og víða annars staðar í þjóðfélaginu.“

Þekkir öll skip í skipaskránni úr mikilli fjarlægð

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, hélt einnig ræðu þar sem hann fór yfir feril Sigurður og sagði af honum skemmtilegar sögur. Tiltók hann sérstaklega eina náðargáfu skipherrans, en hann þekkir öll skipin í íslenska skipaflotanum, og jafnvel fleiri, úr mikilli fjarlægð. „Hann fer eftir lögun skipskrokks, stöðu masturs og öðrum atriðum. Hann þekkir öll skip og báta sem fyrirfinnast í íslenskri skipaskrá og jafnvel víðar. Það verður að teljast mikilli kostur fyrir mann sem starfar við öryggis- og löggæslustörf á hafinu.“

Tekið var á móti varðskipinu Þór með mikilli viðhöfn við …
Tekið var á móti varðskipinu Þór með mikilli viðhöfn við Faxagarð í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Georg sagði stýrimenn sem voru með Sigurði á vöktum á fyrir tíma AIS auðkennikerfisins vel hafa kunnað að meta þennan eiginleika hans. „Oftast var það þannig að menn sáu lítinn depil út við ystu sjónarrönd og Sigurður Steinar þekkti bátinn samstundis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 5.11.24 539,33 kr/kg
Þorskur, slægður 5.11.24 584,83 kr/kg
Ýsa, óslægð 5.11.24 312,86 kr/kg
Ýsa, slægð 5.11.24 309,75 kr/kg
Ufsi, óslægður 5.11.24 259,80 kr/kg
Ufsi, slægður 5.11.24 307,39 kr/kg
Djúpkarfi 17.10.24 124,11 kr/kg
Gullkarfi 5.11.24 326,18 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

5.11.24 Siggi Bessa SF 97 Línutrekt
Þorskur 8.631 kg
Ýsa 1.743 kg
Langa 1.127 kg
Ufsi 575 kg
Keila 526 kg
Skötuselur 32 kg
Karfi 4 kg
Samtals 12.638 kg
5.11.24 Sigrún EA 52 Handfæri
Þorskur 216 kg
Ufsi 85 kg
Karfi 13 kg
Samtals 314 kg
5.11.24 Björn EA 220 Þorskfisknet
Ufsi 3.938 kg
Þorskur 85 kg
Samtals 4.023 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 5.11.24 539,33 kr/kg
Þorskur, slægður 5.11.24 584,83 kr/kg
Ýsa, óslægð 5.11.24 312,86 kr/kg
Ýsa, slægð 5.11.24 309,75 kr/kg
Ufsi, óslægður 5.11.24 259,80 kr/kg
Ufsi, slægður 5.11.24 307,39 kr/kg
Djúpkarfi 17.10.24 124,11 kr/kg
Gullkarfi 5.11.24 326,18 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 3.11.24 277,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

5.11.24 Siggi Bessa SF 97 Línutrekt
Þorskur 8.631 kg
Ýsa 1.743 kg
Langa 1.127 kg
Ufsi 575 kg
Keila 526 kg
Skötuselur 32 kg
Karfi 4 kg
Samtals 12.638 kg
5.11.24 Sigrún EA 52 Handfæri
Þorskur 216 kg
Ufsi 85 kg
Karfi 13 kg
Samtals 314 kg
5.11.24 Björn EA 220 Þorskfisknet
Ufsi 3.938 kg
Þorskur 85 kg
Samtals 4.023 kg

Skoða allar landanir »