Í byrjun þessa mánaðar munu kafarar Landhelgisgæslunnar kafa niður að flaki pólska flutningaskipsins SS Wigry, sem fórst við Hjörsey í Mýrasýslu í aftakaveðri í janúar árið 1942. Ekki var nákvæmlega vitað hvar skipið væri niðurkomið fyrr en Alexander Witold Bogdanski, formaður Samtaka Pólverja á Íslandi, gerði út leiðangur með aðstoð nokkurra starfsmanna Gæslunnar á síðasta ári.
Í samtali við 200 mílur segir Alexander, betur þekktur sem Witek, að í kjölfar þess að skipið fannst í júlí síðastliðnum hafi ekki verið ljóst hvað tæki við. Sjálfur hafi hann viljað að kafað yrði niður að skipinu til að fræðast betur um örlög þess, en ekki haft ráð á því sjálfur.
Síðan hitti Witek fyrir tilviljun Georg Lárusson, forstjóra Landhelgisgæslunnar, á Bessastöðum fyrr á árinu þegar forseti Íslands tók þar á móti nýjum sendiherra Póllands.
„Við áttum langt og gott tal saman þar sem Georg reyndist mjög áhugasamur um verkefnið, og úr varð að við funduðum í stjórnstöð Gæslunnar í febrúarmánuði. Niðurstaða þess fundar var að Gæslan mun ráðast 100% í verkefnið.“
Witek segist þess feginn, enda hafi hann hingað til notið óbeinnar aðstoðar Gæslunnar í gegnum tengdason sinn Teit Gunnarsson, sem gegnir þar starfi sigmanns og kafara. „Nú er þetta orðið formlegt og opinbert.“
SS Wigry, sem var á leið frá Reykjavík til New York í Bandaríkjunum, sökk þann 15. janúar árið 1942. Af 27 manna áhöfn, þar sem um borð voru 13 Pólverjar og þrír Íslendingar, lifðu aðeins tveir af, einn Íslendingur og einn Pólverji.
Witek segir það ljóst nú að skipið hafi steytt á skeri sem sjáist bara þegar fjari út.
„Ég fór með bónda á Laxárholti á Mýrum út í Hjörsey og þá sáum við þetta sker með kíki. Mánuði síðar ákváðum við að kanna þetta nánar og sigldum út á flóði, og loks þegar fjaraði út þá birtist þetta sker bara fyrir okkur,“ segir Witek og bætir við að hann hafi einnig fundið tvö vitni um skipskaðann.
Annars vegar Guðríði Kristjánsdóttur, dóttur Kristjáns Kristjánssonar, bónda á Syðra-Skógarnesi á sunnanverðu Snæfellsnesi, sem kom þeim tveimur sem lifðu af til bjargar.
„Einnig fann ég mann, Halldór Jóhannsson, sem bjó á Hjörsey fram til ársins 1956 en býr í Grafarvogi í dag. Hann sagði mér allt það sem hann mundi frá þessum atburði og með hans hjálp tókst mér að finna skerið og loks, með hjálp skanna, skipið þar rétt hjá.“
Draumur Witeks er að finna bjöllu skipsins, sjálft hjarta þess, eða byssuna sem var ofan á því. Umfram allt vill hann þó fræðast um mennina sem fórust með skipinu og fjölskyldur þeirra.
Hingað til hefur hann fundið fjölskyldur tólf þeirra manna sem voru um borð í skipinu. Þá er Witek í sambandi við son skipstjóra skipsins sem fórst, en hann hefur nú heimsótt Witek tvívegis og gefið sitt leyfi fyrir því að kafað verði niður að skipinu.
Við athugun Witeks á gögnum um slysið kom í ljós að Bragi, annar þeirra sem lifði slysið af, átti á þeim tíma ársgamla dóttur. Sjálfur var hann þá átján ára.
„Ég fann dóttur hans Sigurlaugu Bragadóttur sem býr nú í Kópavogi og við erum orðnir góðir félagar. Eftir að ég hafði gefið henni allar upplýsingarnar sem ég hafði fundið um Braga, þá sagði hún í léttum tón: „Þú veist meira um pabba minn en ég“,“ segir Witek og hlær.
„Saga hans er svo ótrúleg að Baltasar Kormákur gæti alveg gert mynd um þetta. Það sem gerist er að skipið sekkur á aðeins sjö mínútum í kolniðamyrkri og á meðan er skipstjórinn að beina áhöfninni í eina björgunarbátinn með hjálp kertaljóss. Sjálfur yfirgefur hann ekki skipið og fer niður með því ásamt vini sínum, breskum kokki.“
Úr varð að tuttugu og fjórir sjómenn sigldu á opnum björgunarbát í vitlausu veðri og voru heila nótt á leiðinni frá Hjörsey að Syðra Skógarnesi, en þeir vissu ekkert hvert þeir stefndu.
„Þar hvolfir bátnum tvisvar sem endar með því að sex menn ná að halda sér á kili, en þeir hafa ekki orku til að snúa bátnum við. Tveir þeirra missa svo takið á bátnum þannig að þeir eru fjórir eftir, þrír Pólverjar og einn Íslendingur. Þeir freista þess að synda í land en aðeins tveir lifa sundið af, Íslendingurinn Bragi Kristjánsson og Pólverjinn Ludwik Smolski. Hinir drukkna í flæðarmálinu.“
Minning þeirra lifir, sýning til minningar um þá sem fórust með skipinu, opnaði í Sjóminjasafninu í janúar 2016 og var Witek sýningarstjóri sýningarinnar. Í maílok á síðasta ári var svo afhjúpaður minnisvarði um skipskaðann í fjörunni við Syðra-Skógarnes.