Hyggur á nýtt frumvarp um veiðigjöld

"Geta fólksins til að búa til verðmæti vex ár frá ári og það er ákaflega gleðilegt,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segir fiskistofna á Íslandsmiðum almennt hafa verið að styrkjast og að ráðgjöfin frá Hafrannsóknastofnun gefi efni til ákveðinnar bjartsýni í þeim efnum.

„Það er full ástæða til að gleðjast þegar vel gengur og sömuleiðis er það mikið fagnaðarefni að þingið sé búið að taka þessa langþráðu ákvörðun um að smíða nýtt rannsóknaskip, sem er fyrir löngu orðið tímabært,“ segir Kristján.

Eigum hæft fólk á öllum sviðum

„Hins vegar er það áhyggjuefni að aflaverðmæti hefur verið að dragast saman. Það hefur verið samdráttur í loðnuafla en botnfiskurinn er sambærilegur og hann hefur verið,“ segir ráðherrann.

„Þetta kallar á það að menn séu alltaf á tánum og reiðubúnir að takast á við nýjar áskoranir hvar svo sem þær kunna að felast, hvort sem það er í framþróun veiða og vinnslu eða uppbyggingu vísinda og þekkingar. Við eigum sem betur fer, á öllum þessum sviðum, mjög hæft fólk sem í mörgum efnum vinnur algjörlega frábært starf, bæði til sjós og lands.“

Engin ástæða til að hvika frá

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um aflaheimildir nýhafins fiskveiðiárs var ekki langan tíma á borði ráðherrans áður en hann afgreiddi hana án breytinga. Spurður hvort til greina hafi komið að víkja frá ráðgjöfinni segir hann að það komi alltaf til greina hverju sinni.

„En þessi ráðgjöf er mjög vel rökstudd og við höfum fylgt ráðum okkar færasta fólks á þessu sviði í nokkuð langan tíma. Við gefum okkur út fyrir það að nýta með sjálfbærum hætti fiskistofnana í hafinu í kringum landið og sú stefna sem við höfum haft hefur skilað okkur á þann stað sem við erum á í dag. Ég sé því enga ástæðu til að hvika nokkuð frá henni.“

Strandveiðarnar gengið vel

Fyrirkomulagi strandveiða var breytt töluvert með lögum frá Alþingi í vor, þar sem öllum bátum á strandveiðum voru heimilaðir tólf dagar til veiða í maí, júní, júlí og ágúst. Þó var ráðherra fengin heimild til að stöðva veiðar ef sýnt þætti að heildarafli færi umfram það sem ætlað væri til strandveiða á árinu. Svo fór ekki að þessu sinni.

Einnig var í frumvarpinu ákvæði sem heimilað hefur strandveiðibátum að landa ufsa án þess að hann teljist til viðmiðunar í hámarksafla til strandveiða.

Kristján segir breytingarnar hafa reynst vel, þrátt fyrir óánægjuraddir í vor. „Veiðarnar virðast hafa gengið ágætlega og flestum þeim markmiðum, sem fólk setti sér við gerð þessara breytinga, virðist hafa verið náð,“ segir hann og bætir við að sér sýnist sem aflamagnið á svæðunum fjórum hafi dugað til að flestir bátar hafi náð sínum tólf dögum. „Það ættu flestir að geta unað við þessa stöðu.“

Í vetur hefst undirbúningsvinna við nýja löggjöf um strandveiðarnar, að fenginni reynslu þessa bráðabirgðaákvæðis í sumar. „Þá horfum við til reynslunnar í ár og komum fram með á næsta vori nýtt frumvarp um framhald strandveiða,“ segir Kristján en aðspurður segir hann engar aðrar sérstakar breytingar fyrirhugaðar að sinni.

„En gert er ráð fyrir því í stjórnarsáttmálanum að við förum yfir þennan þátt fiskveiðistjórnunarkerfisins, sem snýr að pottunum svokölluðu, og ég hyggst leggjast í þá vinnu í vetur.“

Endurspegli ekki afkomuna

Frumvarp atvinnuveganefndar Alþingis, um endurútreikning veiðigjalda hjá litlum og meðalstórum útgerðum, varð ekki að lögum í vor eftir töluverðan vandræðagang á þinginu. Spurður hvort frumvarpið verði sett aftur á dagskrá í haust segist Kristján heldur ætla að leggja fram frumvarp að nýjum heildarlögum um veiðigjöld

„Við smíðina á því frumvarpi hyggst ég meðal annars taka mið af þeim athugasemdum sem fram komu við frumvarp atvinnuveganefndar, og þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. Vissulega voru það ákveðin vonbrigði að ná ekki samkomulagi um breytingar á veiðigjöldunum í vor, þar sem vísbendingar eru um það að kerfið í núverandi mynd endurspegli ekki nægilega vel afkomu greinarinnar,“ segir Kristján.

Samfélagssátt um veiðigjöldin

„En það breytir því ekki að kerfið var sett á og við þurfum að vinna samkvæmt því þangað til því verður breytt. Markmið mitt er að frumvarpið sem fram kemur í haust taki á þeim ágöllum sem finna má í núverandi kerfi, og þá er stærsta atriðið í rauninni það að reyna að færa álagningu þessara gjalda sem næst okkur í tíma. Í því felst mesta áskorunin.“

Ráðherrann segist enn fremur finna fyrir ágætis sátt í samfélaginu um að greidd skuli gjöld fyrir nýtingu auðlinda sem eru undir forræði ríkisins. „Átökin um veiðigjöldin hafa að mestu snúist um fyrirkomulag innheimtunnar, hvernig til þeirra er stofnað og svo fjárhæðirnar.“

Spurður hvort fyrirtæki í fiskeldi megi vænta keimlíkra gjalda segir Kristján að það hafi verið hluti af þeirri sátt sem gerð var á milli veiðiréttarhafa annars vegar og fiskeldisfyrirtækja hins vegar.

„Ég er að sjálfsögðu að skoða þann þátt í samræmi við sáttina. En ég held að við hljótum að þurfa að ræða það hvort ekki sé orðið skynsamlegra að ríkið ákveði fyrir fullt og allt með hvaða hætti það ætlar að skattleggja nýtingu auðlinda sem eru á þess forræði, frekar en að útbúa einhvers konar sérstaka skattheimtu fyrir einstakar greinar holt og bolt,“ segir Kristján.

„Þegar farið er að kalla eftir því að auðlindagjald nokkurs konar verði lagt á fleiri greinar en færri – þegar umræðan er orðin svona – þá er ekki fjarlægt að hugsa sér það að skynsamlegt gæti verið að ríkið markaði sér almenna reglu um það hvernig gjaldtöku af auðlindum eigi að vera háttað.

Eftirlitsfrumvarpið gagnrýnt

Greint var frá því á vef 200 mílna í ágústmánuði að Fiskistofu verður heimilt að vakta löndun og vigtun afla með rafrænum eftirlitsmyndavélum, auk þess sem hún mun geta nýtt sér fjarstýrð loftför við eftirlitsstörf verði væntanlegt frumvarp sjávarútvegsráðherra að veruleika.

Vísað var í drög að frumvarpinu, sem er að finna á vef Stjórnarráðsins, en þar segir að varla hafi nokkrum dulist sú umræða sem uppi hafi verið í fjölmiðlum um skort á eftirlitsheimildum Fiskistofu til að sinna fiskveiðieftirliti og gagnrýni á lagaumgjörð eftirlitsins.

Drög þessi hafa sætt þónokkurri gagnrýni í kjölfar umfjöllunarinnar, meðal annars af hálfu Sambands ungra sjálfstæðismanna, Samtaka atvinnulífsins og ekki síst Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Á vef SFS segir að svo virðist sem grundvöllur lagasetningarinnar sé almannarómur þar sem niðurstöður rannsókna hafi ekki sýnt fram á að brottkast tíðkist í miklum mæli. Þá segir enn fremur að það tæki starfsmann 7.200 klukkustundir að fara yfir myndefni frá skipi sem væri 300 daga á ári við veiðar og vinnslu, eða þrjú ár og 274 daga.

Mikilvægt að virða reglurnar

Kristján segist hafa átt von á uppbyggilegri viðbrögðum. „Ég átti von á að menn myndu senda inn tillögur og hugmyndir að því með hvaða hætti mætti berja í þessa bresti. Það sem ég vil segja um þetta mál er að það er gríðarlega mikilvægt að allir fylgi veiðiráðgjöfinni og virði þær reglur sem í lög hafa verið leiddar, hvort sem það er við útreikning aflamagns, vigtun eða hvað við kemur brottkasti,“ segir hann.

„Ég hef raunar þá trú að þetta hafi batnað stórum á síðustu árum, og verulegur samdráttur orðið á þessu. Engu að síður tel ég þörf á því að viðhaft sé eftirlit með umgengni um auðlindina á öllum stigum en að því verði skipað þannig að það verði bæði sem kostnaðarminnst fyrir hið opinbera og eins þá sem eru eftirlitsskyldir.“

Kristján tekur fram að um sé að ræða drög að frumvarpi. Sjálft frumvarpið verði ekki frágengið fyrr en búið verði að fá úttekt Ríkisendurskoðunar á starfsemi Fiskistofu, sem væntanleg sé með haustinu. „Þá viljum við fara yfir þær umsagnir sem berast og einbeita okkur að þeim gagnlegu tillögum sem þeim kunna að fylgja. Það er öllum ljóst sem vilja vita það hefur enginn áhuga á því að byggja hér upp eftirlitskerfi sem yrði einhvers konar stóri bróðir. Sem betur fer er lítil stemning fyrir því og engin hugsun í þá veru heldur.“

Mikilvægur loðnusamningur

Þriggja ára samningaviðræðum milli Íslands, Grænlands og Noregs lauk fyrr í sumar með undirritun nýs samnings um hlutdeild í loðnukvóta milli ríkjanna. Samkvæmt samningnum fær Ísland 80% loðnukvótans, Grænland 15% og Noregur 5%, en nær engin loðna er lengur veidd nema í lögsögu Íslands auk þess sem hún hefur ekki verið veidd að sumri í mörg ár.

Kristján segist ánægður með að hafa náð samkomulagi við grannríkin tvö. „Það er mikilvægt að þessi samningur sé kominn á, um hvernig nýtingu þessa mikilvæga stofns eigi að vera háttað, því það er algjört grundvallaratriði. Í því sambandi þarf bara að horfa til þess hvernig þjóðirnar við Norður-Atlantshafið umgangast kolmunna, makríl og síld, þar sem sóknin er langt umfram ráðgjöf og algjörlega ósjálfbær,“ segir Kristján.

„Það er því gleðilegt að ná samningum við nágranna okkar um loðnuna, því hún er okkur mjög mikilvæg bæði sem nytjastofn en ekki síður sem fæða fyrir aðra fiskistofna á Íslandsmiðunum. Af þeim sökum er það töluvert umhugsunarefni að þetta skuli vera eini deilistofninn í Norður-Atlantshafi sem samkomulag næst um. Það er mjög merkilegt því allar þessar þjóðir sem hér lifa og starfa gefa sig út fyrir það að vera með sjálfbæra nýtingu í huga, og þá er mjög einkennilegt að við skulum ekki geta náð saman um nýtingu á þeim nótum.“

Ótrúleg tækni og þekking

Að lokum telur Kristján vert að geta þess að sjávarútvegur árið 2018 snúist um meira en hefðbundnu útgerðirnar sem sæki fiskinn í sjóinn, þó að hlutverk þeirra sé vissulega stórt. Íslensk tæknifyrirtæki veki sífellt meiri athygli erlendis og hasli sér ört völl fjarri heimaslóðum.

„Ef maður horfir yfir sjávarútveginn hér á Íslandi, frá minnstu einingu til hinnar stærstu, og allt það sem við kemur því að sækja þennan afla sem við fáum úr sjónum, vinna hann og koma honum á markað erlendis, þá er alveg ótrúlegt að sjá þá tækni, þekkingu og getu sem býr í atvinnugreininni. Geta fólksins til að búa til verðmæti vex ár frá ári og það er ákaflega gleðilegt.“

Í saltfiskvinnslu Ekta fisks á Hauganesi við Eyjafjörð.
Í saltfiskvinnslu Ekta fisks á Hauganesi við Eyjafjörð. mbl.is/Sigurður Bogi
Átökin um veiðigjöldin hafa að mestu snúist um fyrirkomulag innheimtunnar, …
Átökin um veiðigjöldin hafa að mestu snúist um fyrirkomulag innheimtunnar, hvernig til þeirra er stofnað og svo fjárhæðirnar, segir sjávarútvegsráðherra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 531,23 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 347,24 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 197,29 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 231,97 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.11.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.657 kg
Ýsa 1.454 kg
Ufsi 9 kg
Hlýri 4 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 3.126 kg
22.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 132 kg
Þorskur 123 kg
Keila 27 kg
Ufsi 13 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 302 kg
22.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 382 kg
Ýsa 259 kg
Samtals 641 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.11.24 531,23 kr/kg
Þorskur, slægður 22.11.24 560,82 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.11.24 347,24 kr/kg
Ýsa, slægð 22.11.24 257,15 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.11.24 197,29 kr/kg
Ufsi, slægður 22.11.24 282,11 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.11.24 231,97 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 22.11.24 127,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

22.11.24 Fanney EA 48 Línutrekt
Þorskur 1.657 kg
Ýsa 1.454 kg
Ufsi 9 kg
Hlýri 4 kg
Steinbítur 2 kg
Samtals 3.126 kg
22.11.24 Kristján HF 100 Lína
Ýsa 132 kg
Þorskur 123 kg
Keila 27 kg
Ufsi 13 kg
Steinbítur 7 kg
Samtals 302 kg
22.11.24 Gísli Súrsson GK 8 Lína
Þorskur 382 kg
Ýsa 259 kg
Samtals 641 kg

Skoða allar landanir »