Einar Þór Sverrisson, stjórnarformaður 365 miðla hf., vandar Guðmundi Kristjánssyni, eiganda Brims og stórs hluta í HB Granda, ekki kveðjurnar í tilkynningu sem hann hefur sent á fjölmiðla.
Svarar hann þar athugasemdum Guðmundar frá því fyrr í dag vegna fréttaflutnings Fréttablaðsins um rannsókn Samkeppniseftirlitsins vegna kaupa Guðmundar á eignarhlut í HB Granda en fram kemur í bréfi eftirlitsins að það kunni að leiða til brota á samkeppnislögum að aðaleigandi Brims sé forstjóri HB Granda. Í bréfinu segir einnig að sú staða að aðaleigandi Brims sitji í stjórn Vinnslustöðvarinnar, sem hann átti þriðjungshlut í þar til í gær, kunni að leiða til samkeppnisbrota.
Í lok athugasemda sinna um frétt blaðsins og rannsóknina benti Guðmundur á að stjórnarformaður Fréttablaðsins væri einnig lögmaður meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og varaformaður stjórnar fyrirtækisins.
Einar svarar þessu og segir að ritstjórn Fréttablaðsins sé sjálfstæð og að hann ákveði ekki efnistök eða viti yfirhöfuð hvað birtist í Fréttablaðinu næsta dag. „Þannig er það, hefur verið og mun verða,“ segir Einar í tilkynningunni.
„Ég hef oft séð til þess að það fer ekki Guðmundi Kristjánssyni vel að umgangast sannleikann og lög og reglur samfélagsins með réttum hætti. Þann veikleika sinn getur hann ekki yfirfært yfir á aðra,“ segir Einar og bætir við í lokin: „margur heldur mig sig.“
Yfirlýsingu Einars má í heild sinni lesa hér að neðan:
Athugasemd stjórnarformanns 365 miðla hf. og varaformanns stjórnar Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum-
Í yfirlýsingu Guðmundur Kristjánssonar sem hann sendir í tilefni þess að Fréttablaðið flutti fréttir af því í morgun að hann sé til rannsóknar hjá Samkeppniseftirlitinu, grunaður um alvarleg samkeppnislagabrot, ákveður hann að gera lítið úr öllum blaðamönnum og ritstjórum Fréttablaðsins, vegur að starfsheiðri þeirra og dylgjar um að þeir lúti boðvaldi stjórnar félagsins varðandi fréttaflutning.
Samkvæmt fjölmiðalögum eru ritstjórnir fjölmiðla sjálfstæðar og lúta ekki boðvaldi eigenda eða stjórnarmanna. Þær reglur eru áréttaðar í ritstjórnarreglum Fréttablaðsins og er þeim fylgt í starfsemi Fréttablaðsins.
Ég sem formaður stjórnar útgáfufélags Fréttablaðsins skrifa ekki fréttir Fréttablaðsins, ákveð ekki efnistök, eða veit yfirhöfuð hvað birtist í blaði morgundagsins. Þannig er það, hefur verið og mun verða. Störf mín fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og útgáfufélag Fréttablaðsins tengjast ekki á nokkurn hátt.
Ég hef oft séð til þess að það fer ekki Guðmundi Kristjánssyni vel að umgangast sannleikann og lög og reglur samfélagsins með réttum hætti. Þann veikleika sinn getur hann ekki yfirfært yfir á aðra.
Um yfirlýsingu Guðmundar verður það eitt sagt að margur heldur mig sig.
Einar Þór Sverrisson
Stjórnarformaður 365 miðla hf., Torgs ehf. og varaformaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar hf.