„Þarna misnotaði Kastljós gróflega viðtal við mig, fleygði mér inn í harkalega samfélagsumræðu án þess að ég hefði hugmynd um það fyrr en skaðinn var skeður. Þurfti ég að auki að sæta því næstu vikur og mánuði að heyra glósur um að ég hefði beinlínis verið upphafsmaður að málinu.“
Þetta segir Elín Björg Ragnarsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Vísar hún í máli sínu til viðtals sem Kastljós RÚV tók við hana árið 2012, klippti úr samhengi og birti um tveimur mánuðum síðar í tengslum við umfjöllun þeirra um húsleit hjá Samherja.
„Í frétt í 200 mílum á mbl.is hinn 14. janúar sl. er viðtal við Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar, þar sem fjallað er um rannsóknir og málarekstur Seðlabankans á hendur Vinnslustöðinni og Samherja. Í lok fréttarinnar greinir hann einnig frá því að í lok nýliðins árs hafi hann fengið nýjar upplýsingar um ótrúleg vinnubrögð Ríkisútvarpsins í máli Samherja. Hann er þar trúlega að vísa til vitneskju sinnar um vinnubrögð RÚV í sérstökum Kastljósþætti að kvöldi þess dags er húsleit fór fram hjá Samherja.
Ég starfaði sem framkvæmdastjóri Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda framan af ári 2012. Þá í janúar fór Helgi Seljan, einn umsjónarmanna Kastljóss, fram á viðtal við mig þar sem hann væri að vinna Kastljósþátt um samkeppnislega mismunun í innlendri fiskvinnslu og nauðsyn aðskilnaðar veiða og vinnslu. Ég tók vel í erindi hans og tók hann um 40 mínútna langt viðtal við mig um málefnið. Var viðtalið tekið upp í RÚV við Efstaleiti. Þegar leið á viðtalið fjallaði ég einnig lítillega um möguleika fyrirtækja sem hefðu alla virðiskeðjuna á eigin hendi til að taka arð af auðlindinni út í erlendu fyrirtæki. Tók ég skýrt fram að slíkt fyrirkomulag væri löglegt og ef menn vildu breyta þessum leikreglum yrði að breyta löggjöfinni. Ég gagnrýndi því löggjöfina en ekki eitt einasta fyrirtæki sem nýtti sér þessa glufu, þrátt fyrir að Helgi Seljan hefði ítrekað reynt að fá mig til að nefna eitt eða fleiri af stóru útgerðarfyrirtækjunum.
Í lok viðtalsins segir Helgi að þessi þáttur verði sýndur í næstu eða þar næstu viku. Hvorki heyrði ég meira frá Helga né öðrum hjá RÚV og ekki var þátturinn sýndur og hefur aldrei verið sýndur. Ég taldi því fullvíst að hætt hefði verið við þáttinn.
Að kvöldi 27. mars 2012, um tveimur mánuðum síðar, settist ég fyrir framan sjónvarpið, líkt og fleiri landsmenn, til að fylgjast með sérstökum Kastljósþætti þar sem fjalla átti um Samherja og húsleit hjá fyrirtækinu. Mér brá verulega þegar ég horfði allt í einu á sjálfa mig á sjónvarpsskjánum. Valið brot úr þessu viðtali við mig hafði verið klippt inn í umfjöllunina og var þetta brot einnig sýnt í sjónvarpsfréttum kl. 22 sama kvöld. Í þessu viðtalsbroti er ég að lýsa því hvernig hægt væri að taka út arðinn af auðlindinni erlendis en búið að klippa út þar sem ég lýsi því að þetta sé í samræmi við lög og leikreglur sem settar eru af löggjafanum. Í inngangi og í því sem á eftir fór er hins vegar ómögulegt annað en að draga þá ályktun að ég hafi verið að lýsa meintu ólöglegu athæfi Samherja.
Ég var mjög slegin yfir þessum vinnubrögðum RÚV og tel það skýrt brot á siðareglum. Sendi ég því tölvupóst til Páls Magnússonar, fréttastofu RÚV og Kastljós daginn eftir, 28. mars, þar sem ég lýsti óánægju minni með misnotkun á viðtalinu og skrifaði m.a.:
„Í viðtalinu var á engan hátt rætt um sjófrystingu eða viðskipti með þær afurðir eins og látið var líta út fyrir í umfjöllun RÚV. Að klippa út valinn hluta úr viðtalinu þannig að liti út fyrir að ég væri að saka fyrirtæki um ólöglega hluti finnst mér ámælisverð vinnubrögð og RÚV til vansa.
Enginn af þessum aðilum sá ástæðu til að svara tölvupósti mínum. Aðrar leiðir til að reyna fá leiðréttingu voru einnig án árangurs. Enginn áhugi var fyrir því hjá RÚV að ræða þá staðreynd að trúnaður gagnvart mér sem viðmælanda var gróflega brotinn hvað þá að koma fram með afsökun eða leiðréttingu.
Í mars 2012, þegar þessi Kastljósþáttur fór í loftið, hafði ég hætt mínu fyrra starfi og hafið störf sem lögfræðingur þar sem ég ætlaði mér að nýta þekkingu mína úr sjávarútvegi og sérhæfa mig í lögfræðiaðstoð við útgerðir og vinnslur. Þessi umfjöllun hafði því alls ekki góð áhrif á mitt líf og lífsviðurværi. Ég átti því mikið undir því að fá þessa umfjöllun leiðrétta. Þarna misnotaði Kastjós gróflega viðtal við mig, fleygði mér inn í harkalega samfélagsumræðu án þess að ég hefði hugmynd um það fyrr en skaðinn var skeður. Þurfti ég að auki að sæta því næstu vikur og mánuði að heyra glósur um að ég hefði beinlínis verið upphafsmaður að málinu með því að koma á framfæri upplýsingum sem leiddu til rannsóknar á Samherja o.fl.
Ég hafði ýmsum öðrum hnöppum að hneppa en að standa í stappi við yfirmenn RÚV sem sýndu erindi mínu fullkomið tómlæti. Ég þurfti að komast af þar sem viðskiptavinir snéru við mér baki og finna mér önnur verkefni. Ég treysti því að með tímanum myndi fenna yfir þetta mál og það gleymast. Það er þó ljóst að svo verður seint og líklega verður þetta mál eitt að þeim sem verða skrifuð á spjöld sögunnar,“ skrifar Elín í grein sinni en hægt er að lesa hana í heild í Morgunblaðinu í dag.