Íslenskur fiskur er í sífellt auknum mæli fluttur óunninn úr landi í gámum, án þess að unnin hafi verið úr honum nokkur verðmæti. Þegjandi samkomulag virðist ríkja innan atvinnugreinarinnar um þessa þróun, segir Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og -útflytjenda, sem skorað hafa á stjórnvöld að tryggja að allur sá afli, sem seldur er á milli ótengdra aðila, verði boðinn til sölu í uppboðskerfi fiskmarkaðanna.
Samtökin funduðu í janúarmánuði með fulltrúum Fiskmarkaðs Suðurnesja, Fiskmarkaðs Íslands, Fiskmarkaðs Vestfjarða, Fiskmarkaðs Norðurlands og Reiknistofu Fiskmarkaða, þar sem málefni fiskmarkaða landsins voru rædd og um leið mikilvægi þeirra fyrir aukna verðmætasköpun í sjávarútvegi.
Segir Arnar fundarmenn hafa verið sammála um að skora þyrfti á stjórnvöld, þar sem með breyttu fyrirkomulagi megi tryggja að hæsta mögulega verð fáist fyrir þennan hluta auðlindarinnar, að sjálfstæðar fiskvinnslur hafi greiðan aðgang að hráefni og þjóðarhagur sé þar með hámarkaður. Um sé að ræða allan þann afla sem ekki kemur til vinnslu hjá samþættum útgerðarfyrirtækjum.
„Við byggjum þessa áskorun meðal annars á niðurstöðum nokkurra helstu hag- og viðskiptafræðinga landsins, sem komist hafa að því að stóru útgerðarfyrirtækin sem samþætta vinnslu og veiðar séu okkur Íslendingum gríðarlega mikilvæg. Þess vegna tölum við ekki lengur um að við viljum fá allan fisk á fiskmarkað, þar sem það er í dag almennt talið óraunhæft. Hins vegar finnst okkur undarlegt, þegar sala á afla fer fram á milli ótengdra aðila, að menn vilji ekki selja aflann sinn á hæsta mögulega verði,“ segir Arnar.
„Þegar öllu er á botninn hvolft hlýtur markmiðið alltaf að vera að hámarka þjóðarhag og við teljum það alveg ljóst að verði farið eftir þessari áskorun muni sjávarútvegurinn færast nær því markmiði,“ bætir hann við og útskýrir:
„Það er þekkt staðreynd að hæsta fiskverðið fæst með sölu afurða á fiskmörkuðum. Það er engin ástæða til að ætla neitt annað en að hærra fiskverð endurspegli hærra virði auðlindarinnar. Og eftir því sem afurðaverðið er hærra, þeim mun hærra hlýtur virði auðlindarinnar að vera. Þetta er einfalt orsakasamhengi sem allir ættu að geta gert sér grein fyrir.“
Hann bendir á að samkvæmt gögnum Verðlagsstofu skiptaverðs sé afurðaverð í sölu á milli tengdra aðila, eða innan samþættra útgerðarfyrirtækja, í nær öllum tilvikum tugum prósenta lægra en á fiskmörkuðum á sama tíma.
„Við teljum að arðsemin í sjávarútvegi byggist ekki eingöngu á veiðunum, heldur hljóti hún að byggjast á vinnslunni líka. Það er ríkjandi krafa frá hagfræðingum að framlag sjávarútvegs til þjóðarhags aukist, og sú getur ekki orðið raunin ef við förum í auknum mæli að flytja hráefnið óunnið úr landi. Þá mun engin virðisaukning eiga sér stað hér á landi. Framleiðni í sjávarútvegi getur þess vegna aðeins orðið með aukinni vinnslu hérlendis.
Þess vegna finnst okkur afar undarlegt að ekkert sé gert til að sporna við beinum útflutningi á óunnum fiski. Það er ekkert sem tryggir það að fiskurinn komi fyrst til sölu innanlands, áður en hann rennur beint úr landi.“
Ítarlegra viðtal við Arnar er að finna í sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudag.