Stjórnendur Seðlabanka Íslands undirbúa nú enn eina sneypuförina af hálfu bankans. Þetta segir Garðar Gíslason hæstaréttarlögmaður og vísar til bréfs sem birt var á vef Seðlabankans á þriðjudag.
Bréf bankans ber yfirskriftina „Í tilefni álits umboðsmanns Alþingis“ en í umræddu áliti, sem birt var 25. janúar, kom meðal annars fram að umboðsmaður teldi að svar Seðlabanka Íslands til Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, í tengslum við erindi hans um afturköllun ákvörðunar um stjórnvaldssekt sem lögð var á vegna brota á reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál, hefði ekki verið í samræmi við lög og að bankinn hefði ekki leyst úr erindinu með fullnægjandi hætti.
Í bréfi Seðlabankans í gær segir svo að vegna fjölmiðlaumræðu, sem í sumum tilfellum hafi verið misvísandi varðandi það um hvað málið snúist, þyki Seðlabankanum rétt að gera nú að einhverju leyti nánari grein fyrir mati sínu á málinu.
Málið sé umfangsmeira en einungis það erindi sem umboðsmaður hafi veitt álit sitt á. Geti það varðað hvort í gildi hafi verið viðhlítandi refsiheimildir vegna brota á fjármagnshöftum frá nóvember 2008 og þar til í október 2011 þegar reglurnar hafi verið lögfestar.
„Verði niðurstaðan í þessu tiltekna máli sú að rétt settar reglur teljist ekki fullnægjandi refsiheimild þá mun það almennt gilda um þau fjármagnshöft sem útfærð voru í slíkum reglum þar til í október 2011,“ segir í bréfi bankans.
Athygli vekur að í framhaldinu er fullyrt að í þessu samhengi þurfi „að taka afstöðu til hvort Seðlabankinn geti úrskurðað um stjórnskipulegt gildi reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimild á grundvelli umfjöllunar ríkissaksóknara í máli sem laut að öðrum reglum um gjaldeyrismál og fellt var niður þar sem formlegt samþykki ráðherra skorti við setningu þeirra eða hvort það sé einungis á færi dómstóla að kveða á um slíkt“.
Í færslu á vef Samherja í dag segir Garðar að skrifin á vef bankans séu „augljós og illa falinn upptaktur að væntanlegri ákvörðun stjórnenda bankans um að halda fast við sinn keyp og láta ólögmætar stjórnvaldsákvarðanir þeirra um refsikennd viðurlög á hendur fjölmörgum einstaklingum og lögaðilum standa óhreyfðar, enda þótt umboðsmaður Alþingis og ríkissaksóknari, sem æðsti handhafi ákæruvalds, hafi mælt býsna skýrt um að þær reglur sem stjórnvaldsákvarðanirnar voru reistar á hafi ekki falið í sér gilda refsiheimild“.
Fer hann yfir þær fullyrðingar sem bankinn setur fram í bréfinu og segir þær margar alrangar.
„Því hefur áður verið haldið fram að stjórnendur Seðlabanka Íslands hafi misfarið með vald sitt í fyrrgreindum málarekstri sínum á hendur félögum í samstæðu Samherja hf. og helstu fyrirsvarsmönnum þeirra. Enn á sýnilega að halda áfram af þeirra hálfu á þeirri sömu braut,“ skrifar Garðar.
„Það er fyrir löngu kominn tími til að slíkri embættisfærslu linni og að stjórnendur Seðlabanka Íslands axli ábyrgð á misgerðum sínum – nú eða verði látnir axla hana, finni þeir ekki hjá sér tilefni til þess sjálfir.“