Íslenskur sjávarútvegur var áberandi á sjávarútvegsráðstefnunni North Atlantic Seafood Forum sem fór fram í 14. skipti í Björgvin í Noregi í síðustu viku. Á ráðstefnunni í ár var Ísland gestaþjóð og á fyrsta degi hennar fór meðal annars fram málstofa með erindum frá íslenskum fyrirtækjum undir þemanu „sjálfbærni, gæði og nýsköpun“.
Mjög góð mæting var á íslensku málstofuna og mikill áhugi meðal annars frá erlendum blaðamönnum, sem vildu kynnast því sem Íslendingar eru að gera í sjávarútveginum í dag, að því er fram kemur á vef Íslandsstofu.
Íslenskir fyrirlesarar voru einnig áberandi á aðaldagskrá ráðstefnunnar sem er ein sú stærsta sinnar tegundar í heiminum, en tæplega þúsund manns sækja hana árlega.
Eftir ávarp Ernu Solberg forsætisráðherra Noregs héldu bæði Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS og Guðmundur Kristjánsson forstjóri HB Granda erindi sem sögð eru hafa slegið í gegn á stóra sviðinu í Björgvin.
Stóð fyrir kokteilboði
Í lok aðaldagskrár ráðstefnunnar kynntu þau Stella Björg Kristinsdóttir og Kristján Þ. Davíðsson nýtt kynningarmyndskeið sem ber yfirskriftina "Inspired by Iceland" og sýndi forystuhlutverk Íslands í alþjóðlegum sjávarútvegi, þar sem tækni og nýsköpun eru megindrifkrafturinn.
Að kvöldi 6. mars stóð íslenska sendinefndin fyrir kokteilboði í samstarfi við sendiráð Íslands í Ósló fyrir alla gesti ráðstefnunnar þar sem aðilum gafst færi á að efla tengslin og mynda ný.
Ráðstefnunni lauk 7. mars en alls kynnti þar 21 íslenskt fyrirtæki starfsemi sína undir sameiginlegu yfirskriftinni "Inspired by Iceland", þ.e. Arion banki, Arnarlax, Curio, D-Tech, Hábrún, HB Grandi, Iceland Responsible Fisheries, Íslandsstofa, Marel, Matís, MSC á Ísland, Pólar toghlerar, Samskip, SFS, Skaginn 3X, Sæplast, Trackwell, VAKI, Valka, Viðskiptaþróun og Vísir.