Stjórnvöld hafa átt í viðræðum við Evrópusambandið frá því á árinu 2017 um að íslenskar sjávarafurðir njóti fulls tollfrelsis inn á innri markað sambandsins í gegnum aðild Íslands að EES-samningnum en til þessa hafa þær viðræður hins vegar ekki borið árangur.
Þessi staða varð Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að umtalsefni á fundi EES-ráðsins í Brussel á dögunum hvar fulltrúar Íslands, Noregs, Liechtenstein og Evrópusambandsins fögnuðu 25 ára afmæli EES-samningsins sem tók gildi árið 1994.
Fram kom í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu að Guðlaugur Þór hefði ítrekað þá skoðun íslenskra stjórnvalda á fundinum að fullt tilefni væri til þess að Evrópusambandið bætti markaðsaðgang fyrir íslenskar sjávarafurður með því að fella niður tolla.
Ráðherrann hefði ennfremur bent á að á síðustu árum hefði orðið stefnubreyting í fríverslunarviðræðum Evrópusambandsins hvað varðar sjávarafurðir. Sem EES-ríki ætti Ísland ekki að þurfa að sæta hærri tollum en ríki sem stæðu utan innri markaðarins.
Vísaði Guðlaugur Þór þar til þess að Evrópusambandið hefur á undanförnum árum samið um víðtæka fríverslunarsamninga til að mynda við Kanada og Japan þar sem gert er ráð fyrir 100% tollfrelsi fyrir sjávarafurðir, en EES-samningurinn kveður ekki á um fullt tollfrelsi.
Ráðherrann gerði þessa stöðu einnig að umtalsefni í ræðu á málstofu í Háskólanum í Reykjavík um EES-samninginn 6. febrúar á þessu ári þar sem hann sagði Evrópusambandið hafa þráast við að veita Íslandi fullt tollfrelsi fyrir sjávarafurðir í gegnum samninginn.
„Það er einnig okkar markmið að koma á fullri fríverslun með fisk en ESB hefur þráast við að fella niður tolla á tilteknar fiskafurðir,“ sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni, en sérstök tollakjör inn á markað Evrópusambandsins voru ein af forsendunum fyrir því að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum fyrir um aldarfjórðungi síðan.