Nýr togari Þorbjarnarins hf. í Grindavík er kominn til landsins. Sisimiut verður Tómas Þorvaldsson GK og fer á miðin um miðjan mánuðinn og í brúnni standa menn sem lengi hafa verið á skipum útgerðarinnar. Skipstjórarnir róma togarann, sem eitt sinn var Arnar HU frá Skagaströnd.
Togarinn var smíðaður árið 1992 fyrir Skagstrending hf. og bar þá nafnið Arnar HU en var seldur fjórum árum síðar til Royal Greenland sem hefur gert hann út síðan undir nafninu Sisimiut. Skipið er 67 metra langt og 14 metra breitt og vel tækjum búið að öllu leyti. Getur meðal annars dregið tvö troll, sem er fátítt á íslenskum skipum.
Togarinn verður nefndur eftir stofnanda Þorbjarnarins hf., Tómasi Þorvaldssyni (1919-2008), föður systkinanna sem eiga og reka fyrirtækið. Á sinni tíð var Tómas þjóðþekktur fyrir störf sín í sjávarútvegi og á vettvangi Slysavarnafélags Íslands. Til skamms tíma gerði fyrirtækið út línubát með þessu nafni, en sá fór í brotajárn fyrir nokkrum mánuðum og eru kaupin á togaranum nú hluti af uppstokkun á skipastól fyrirtækisins.
Skipstjórar á Tómasi Þorvaldssyni GK verða tveir og báðir hafa þeir lengi verið hjá Þorbirninum. Annar er Sigurður Jónsson, sem hefur verið á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK síðastliðin 29 ár, lengst sem skipstjóri. Hinn er Bergþór Gunnlaugsson, skipstjóri á Gnúpi GK. Báðir taka þeir áhafnir sínar í heilu lagi yfir á Tómas Þorvaldsson GK, en 26 manns verða jafnan á skipinu. Túrarnir á togaranum verða að jafnaði tæpur mánuður í senn og verður hátturinn sá að áhafnirnar róa hvor á móti annarri.
Hjá útgerðinni hafa því verið settar saman nýjar áhafnir fyrir hina togarana tvo, Hrafn Sveinbjarnarson GK og Gnúp GK, en einnig gerir fyrirtækið út línubátana Valdimar, Hrafn og Sturlu.
Togarinn góði kom til Hafnarfjarðar síðastliðinn laugardag og verður nú í vikunni tekinn í slipp í ástandsskoðun, öxuldrátt og fleira. Þegar því lýkur tekur Þorbjörn hf. við togaranum, sem eigendur fyrirtækisins skoðuðu við komuna til landsins. Þar voru einnig skipstjórarnir tveir en þeir hafa til lærdóms að undanförnu verið um borð í togaranum, sem var í sínum síðustu túrum í eigu Royal Greenland að veiðum í Barentshafi.
„Þetta er vandað og gott sjóskip og smellpassar inn í rekstur Þorbjarnarins. Skipinu hefur verið haldið vel við og gerðar hafa verið ýmsar tæknibreytingar síðastliðin ár, sem henta okkur vel. Við vorum í nokkra daga með Grænlendingunum á veiðum í Barentshafi til að kynna okkur skipið og komum síðan með togaranum hingað heim frá Noregi sem var þægileg sigling enda blíðskaparveður. Að taka við þessum togara er tilhlökkunarefni,“ segir Bergþór Gunnlaugsson.
Hinn skipstjórinn, Sigurður Jónsson, tekur í sama streng og rómar togarann. „Það var mikið lagt í smíði þessa skips fyrir Skagstrending á sínum tíma og sumt þá var nýmæli. Byrðingur skipsins er mjög þykkur með tilliti til hafíss, sem hefur hentað Grænlendingunum. Þeir hafa líka gengið vel um þetta skip sem við fáum í alveg toppstandi,“ segir Sigurður.
Gert er ráð fyrir að í fyrstu túrunum undir merkjum Þorbjarnarins fari Tómas Þorvaldsson GK á grálúðu, sem veiðist í djúpkantinum frá Vestfjarðamiðum og austur fyrir land. Þegar nýtt kvótaár gengur í garð, 1. september, verður sóknin alhliða; sótt í þorsk, ýsu og ufsa. Um borð er góð og fullkomin vinnulína og vinnuaðstaða sjómanna með besta móti.
„Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu skipi, sem er öflugt og í alla staði vel búið,“ segir Gunnar Tómasson, útgerðarmaður í Þorbirninum.
„Lestin er stór og á millidekki er öflug vinnnslulína. Þá er líka mikill plús að geta verið úti með tvö troll í einu, sem ekki hefur verið mikið um í íslenska flotanum til þessa. Fiskistofnar á Íslandsmiðum standa sterkt og því hefur eitt troll yfirleitt dugað, en að geta verið með tvö í sjó kemur sér vel ef fiskiríið er tregt. Á þessum tímapunkti er ég samt ekkert að spá í slíkt, því vertíðin var góð og nóg virðist vera af fiski um allan sjó. Allar afurðir seljast líka nánast strax og nú þegar krónan gefur eftir er verð þeirra að hækka, sem léttir okkur lífið.“
Fjallað var um komu Tómasar í nýjasta sjávarútvegsblaði 200 mílna, sem fylgdi Morgunblaðinu laugardaginn 1. júní.