„Við nálgumst Vík á hægri siglingu,“ segir Gísli Valur Gíslason, einn skipstjóra Herjólfs, við mbl.is. Nýr Herjólfur er væntanlegur til Vestmannaeyja í kvöld og verður formleg móttökuhátíð vegna þess á morgun.
Herjólfur lagði af stað frá Gdynia Í Póllandi, þar sem nýr Herjólfur var smíðaður, á sunnudagsmorgun þaðan sem stefnan var sett á Vestmannaeyjar fyrir utan stutt stopp í Færeyjum.
Gísli segir að gert sér ráð fyrir því að skipið verði við Vestmannaeyjar um klukkan sex í kvöld. „Við verðum tollaðir um klukkan átta og förum inn eftir miðnætti og tæmum dekkið,“ segir Gísli.
Formleg móttökuathöfn í Friðarhöfninni í Vestmannaeyjum hefst klukkan 14:15 á morgun. Samgönguráðherra, forstjóri Vegagerðarinnar, formaður bæjarráðs og fulltrúi Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs flytja þá ræður. Prestur Landakirkju mun blessa skipið og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra formlega nefna það.
Í framhaldi verður skipið bæjarbúum og öðrum gestum til sýnis. Boðið verður upp á veitingar, skemmtiatriði og fleira milli klukkan 14:30 og 16.
„Ég hugsa að það verði fín mæting á þetta,“ segir Gísli en hann telur að töluverð spenna sé í Eyjunni vegna komu nýju ferjunnar.
Nýr Herjólfur ristir grynnra en sá gamli og því þarf ekki að dýpka jafn mikið fyrir nýtt skip. Mun það auðvelda og flýta fyrir dýpkun og mun fækka dögum sem ekki er unnt að sigla í Landeyjahöfn.
Gísli segir að það muni taka tíma að læra á skipið og kynnast því. „Líkt og það var þegar Landeyjahöfn opnaði. Menn voru bara að átta sig á aðstæðum.“
Hann segir að siglingin heim á leið hafi gengið vel og hlær og svarar því neitandi hvort einhver um borð hafi orðið sjóveikur.
„Við fengum alveg skítaveður í Norðursjónum og þar var smá veltingur. Það hefði örugglega ekki verið fyrir alla.“
Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf., sagði í samtali við mbl.is á sunnudaginn að vonir stæðu til að nýja skipið verði kominn í almennan rekstur milli lands og Eyja um næstu mánaðarmót, að því gefnu að allt gangi upp.