Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sakar Ágúst Ólaf Ágústsson þingmann Samfylkingarinnar um „ómerkilegan blekkingaleik“ í umræðu um veiðigjöld. Ágúst Ólafur, sem situr í fjárlaganefnd þingsins, sagði við Ríkisútvarpið í dag að meirihluti fjárlaganefndar hefði lagt til að lækka veiðileyfagjaldið. Bjarni segir það rangt.
„Þetta er ómerkilegur blekkingaleikur hjá Ágústi Ólafi,“ ritaði ráðherra á Facebook-síðu sína. „Það liggur ekki fyrir þinginu nein tillaga um að lækka veiðigjaldið. Það er hins vegar að koma fram áætlun um hvaða tekjur muni skila sér á næsta ári, og þær eru að lækka vegna mikilla fjárfestinga í greininni, sem hafa áhrif á niðurstöðuna. Yfir lengri tíma jafnast svona lagað út. Ef reglum um veiðigjald hefði ekki verið breytt á fyrra þingi hefði gjaldið orðið enn lægra á næsta ári,“ skrifaði Bjarni.
„Ég þooooli ekki svona stjórnmál“
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
mbl.is/Eggert
Bjarni er ekki einn um að telja Ágúst Ólaf hafa hallað réttu máli í samtali við RÚV í dag. Í sama streng tekur Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
„Ég þooooli ekki svona stjórnmál,“ skrifar Björn Leví á Facebook-síðu sína. „Þessi lækkun er vegna þess að útgerðin fór í meiri fjárfestingu en gert var ráð fyrir sem lækkar stofninn til veiðigjalds. Það má alveg deila um það fram og til baka hvort það sé gott fyrirkomulag á veiðigjöldunum og þá hvort það hafi verið góð lagasetning stjórnar að fjárfesting kæmi niður á auðlindagjöldunum, sem er þá eins konar ríkisstyrking á fjárfestingu útgerðarinnar. En rétt skal vera rétt, ríkisstjórnin er ekki að lækka veiðigjöldin heldur er þetta útreiknuð stærð miðað við uppsetningu laga,“ skrifar Björn Leví.
„Veiðileyfagjaldið þarf að vera hærra“
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
mbl.is/Hari
Ágúst Ólafur hefur brugðist við gagnrýni Bjarna á Facebook-síðu sinni og segir þar mikilvægt að átta sig á aðalatriðum þessararar umræðu. Þingmaðurinn segir hinn pólitíska kjarna málsins vera veiðileyfagjaldið þurfi að vera hærra.