Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir að honum þyki „mjög líklegt“ að Þorsteinn Már Baldvinsson snúi aftur á forstjórastól Samherja þegar Björgólfur lýkur störfum fyrir félagið, en áætlað er að það verði í byrjun apríl.
„Eins og var sagt í upphafi þá var ég ráðinn tímabundið sem forstjóri Samherja og samkvæmt orðanna hljóðan þýðir það að það kemur einhvern tímann endir. Eins og ég sé þetta núna stefnir í að það verði í lok fyrsta ársfjórðungs, í byrjun apríl,“ segir Björgólfur um fyrirhuguð starfslok sín í samtali við mbl.is.
Á þeim tímapunkti er áætlað að innanhússrannsókn, sem Samherji réð norsku lögmannsstofuna Wikborg Rein til að inna af hendi vegna ásakana á hendur fyrirtækinu um mútugreiðslur í Namibíu, verði lokið, eða um það bil.
Björgólfur segir að hann persónulega telji líklegast að Þorsteinn Már taki við forstjórastöðunni að nýju, en hann hafi sjálfur litla hugmynd um það, enda sé ákvörðunin í höndum stjórnar fyrirtækisins.
„Ég náttúrulega er ráðinn af stjórn Samherja og þetta var ákvörðun [Þorsteins Más] að stíga til hliðar. Af orðanna hljóðan, að stíga hliðar, þá finnst mér það líklegt, en auðvitað veit ég ekkert um það, það er stjórn félagsins sem ákveður það, en mér finnst það bara mjög líklegt. En það er bara mín skoðun,“ segir Björgólfur.
Hann segir að það hafi ekki verið létt verk að stíga inn sem forstjóri fyrirtækisins, sem er til rannsóknar hérlendis og í Namíbíu vegna meintra brota tengdum starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, en hann telur að starf hans hafi gengið vel.
„Starfsemi félagsins hefur verið í raun og veru óröskuð þrátt fyrir þessa storma. Það var snúið að stíga inn, en ég þekkti mjög marga í félaginu og margir þekktu mig, svo þetta hefur gengið vel,“ segir Björgólfur, sem eins og fram kom í morgun ætlar sjálfur að gefa kost á sér í stjórn Sjóvár, en hann hefur verið í leyfi frá stjórnarstörfum þar að undanförnu vegna starfa sinna fyrir Samherja.
Er Björgólfur tók við hjá Samherja um miðjan nóvember sagði hann sig frá stjórnarstörfum hjá Festi og sagði sig einnig frá stjórnarstörfum fyrir Íslandsstofu, þar sem hann var raunar stjórnarformaður. Hann segir alls óráðið hvort hann snúi þangað aftur.