„Við erum í upphafinu á tæknibyltingu“

Miklar breytingar hafa verið gerðar á vinnslulínu Skinney-Þinganess og stendur …
Miklar breytingar hafa verið gerðar á vinnslulínu Skinney-Þinganess og stendur til að gera fleiri þar sem uppsetning á róbótum frá Marel hefst í haust. Ljósmynd/Skinney-Þinganes

Á undanförnum árum hefur Skinney-Þinganes, í samstarfi við Marel, fjárfest töluvert í tæknivæðingu fiskvinnslu fyrirtækisins á Krossey í Hornafirði og er um að ræða bæði tæki og hugbúnað. Nú síðast í apríl á þessu ári var gengið frá samningum við Marel um kaup á róbótum sem sjá um pökkun, samval og kassafrátöku og beinaleitunarvél. Uppsetning tækjanna mun fara fram í haust.

„Við erum í upphafinu á tæknibyltingu og menn eru að átta sig á því, með það í huga að við erum á þröskuldi fjórðu iðnbyltingarinnar og sjálfvirknivæðingarinnar, að við þurfum að endurhugsa bolfiskvinnlu og svona fjárfestingar eru til þess fallnar að hefja þá vegferð,“ segir Guðmundur H. Gunnarsson, nýsköpunarstjóri hjá Skinney-Þinganesi.

Guðmundur H. Gunnarsson, nýsköpunarstjóri hjá Skinney-Þinganes.
Guðmundur H. Gunnarsson, nýsköpunarstjóri hjá Skinney-Þinganes. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að með fjárfestingum í nýjum vinnslubúnaði í samstarfi við Marel undanfarin ár sé verið að sækjast eftir því að auka afköst. „Þannig að hægt sé að vinna meira magn á hagkvæmari hátt og hin breytan í þessu er að það er verið að auka sérhæfni, að það sé hægt að vinna á skilvirkan hátt fjölbreyttari vörur. Hugmyndafræðin er ekki einungis að auka magn heldur einnig að auka verðmætin á hvert kíló, því eins og við vitum er auðlindin takmörkuð.“

Umfangsmikil fjárfesting

Fjárfesting í hátæknibúnaði skiptir hundruðum milljóna króna og segir Guðmundur um að ræða langtímafjárfestingar sem ná í gegn um alla virðiskeðjuna. „Það má í raun og veru segja að fyrsta skrefið okkar hafi verið endurskipulagning og síðan aukin sjálfvirknivæðing um borð í veiðiskipunum okkar. Til að fara í svona stefnumótandi breytingu eins og þessa, að fara að vinna bolfisk í betri afurðir, þarf að byrja fremst í keðjunni.“

Í júlí 2018 festi Skinney-Þinganes kaup á Flexicut-kerfi; Flexitim-snyrtilínu, Flexicut-vatnsskurðarvél og Flexisort-flokkara og svo var annað slíkt kerfi keypt í fyrra. Nú í apríl fóru fram kaup á róbóta-pökkunarlausn sem felur í sér SensorX-beinaleit, þriggja hausa samvalsróbót með sjálfvirkri kassafrátöku og fer uppsetning fram í september. Þá hefur Innova-hugbúnaður verið innleiddur sem tengir öll kerfi miðlægt og veitir stjórnendum heildaryfirsýn yfir og stjórn á vinnslunni.

Samvalsróbót er eitt af þeim tækjum sem sett verða upp …
Samvalsróbót er eitt af þeim tækjum sem sett verða upp hjá útgerðinni. Ljósmynd/Marel

„Þessi tækni kom fyrst í landi og opnaði einhvern glugga, en vegna þess að við vorum ekki alveg fyrstir þar gafst okkur tækifæri til að líta heildstætt á virðiskeðjuna. Fyrsta fjárfestingin okkar var breyting og stækkun togskipanna okkar og þar hefjum við vinnsluna. Þar er myndgreiningarbúnaður og sjálfvirk flokkun á fiski þannig að vinnslutækin í landi geta gert sem mest úr hráefninu. Við erum að tala um stórar fjarfestingar í gegnum alla virðiskeðjuna.“

Hann segir að í bolfiskvinnslu sé Skinney-Þinganes að stíga inn í aðra öld. „Það má segja að hugsunin sé að snúa frá því að vera frumframleiðandi á hráefni sem dreift er um heiminn yfir í að verða framleiðandi á vörum sem eru tilbúnar fyrir neytendamarkaðinn.“

Opnar á ný sóknarfæri

Það er hins vegar ekki lítið mál að hefja þann feril að breyta allri aðferðafræðinni, að sögn Guðmundar sem segir hafa verið mikilvægt að geta átt gott samstarf við Marel um verkefnin og áframhaldandi þróun á búnaði. „Að hefja þessa vegferð hefur í raun opnað á endalaust ný sóknarfæri og til að þetta takist er lykilatriði að notendur þessa búnaðar frá Marel séu í þéttu samstarfi við Marel um þróunina og hvernig megi gera enn betur.“

Spurður hvort það sé áskorun fyrir starfsfólk fyrirtækisins að mæta tæknivæddara vinnuumhverfi svarar Guðmundur: „Áherslur breytast og störfin, sem er jákvætt. Fólk í sjávarútvegi er mjög tilbúið að mennta sig og afla sér þekkingar. Störfum fækkar ekki endilega í sjávarútvegi en þau verða sérhæfðari.“ Þá fylgi breytingum á vinnslulínum töluverðar umbætur í vinnuumhverfinu, að sögn Guðmundar. „Það er markvisst hugað að betri lýsingu, betri hljóðvist og betri vinnuaðstæðum. Það styttist í að hægt verði að hengja upp málverk í vinnslusalnum og labba inn á inniskónum.“

Hugsa út fyrir rammann

„Sjálfvirkar róbótalausnir eru tiltölulega nýkomnar á markað og rosalega flott að sjá loksins róbótalausnirnar í hvítfisknum. Þetta breytir tegund starfa við fiskvinnslu, sparar töluvert af vinnutíma og skilar svo mikilli nákvæmni,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel. Hún bendir sérstaklega á mikilvægi öflugs samvalskerfis, en það eru róbótar sem velja hvaða bitar af unnum fiski á færibandinu fara í hvaða kassa eftir vigt, stærð og ummáli. Þannig sé hægt að stýra bæði hver þyngdin er í hverjum kassa og hvaða tegundir og stærðir af bitum eru valdir saman. „Þannig er maður með færri frávik og aukna möguleika til að framleiða fjölbreyttar vörur sem öllum er pakkað á sama tíma og staðlaðan máta í gegnum róbótana,“ útskýrir Guðbjörg Heiða.

Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel.
Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir samstarfið við Skinney-Þinganes hafa gengið mjög vel. „Það er náttúrlega engin endastöð þegar maður er í nýsköpun. Við hverja lausn sem búin er til opnast alltaf nýjar dyr í leiðinni og þetta samstarf mun halda áfram. Ég tel að þegar Skinney-Þinganes er komið inn með róbótakerfið og beinaleitunarvélar auk vatnsskurðvélanna [sem eru þegar komnar upp] sé þetta orðið verksmiðja í fremstu röð þótt víða væri leitað. [...] Þetta er svakalega flott vinnsla sem þeir hafa byggt upp á undanförnum árum.“

Heimamarkaðurinn enn mikilvægur

Spurð hvert næsta skref kunni að vera í samstarfinu svarar Guðbjörg Heiða: „Þá er spurning hvernig við vinnum saman áfram og ég sé fyrir mér að það yrði gaman að ræða frekar þætti sem varða vinnslustýringuna og stafræna þróun þar. Það er rosalega mikil þróun hjá Marel í stafrænum lausnum og lausnum sem svara síaukinni kröfu um sjálfbærni við matvælavinnslu. Svo eru alls konar tæki á vöruþróunarleiðarvísinum okkar. Miðað við hvernig samstarfið hefur verið hingað til sé ég fyrir mér að það haldi áfram að vera sterkt, því báðir aðilar eru með sterka framtíðarsýn og þora að hugsa út fyrir rammann.“

Marel er orðið stórt fyrirtæki í matvælaiðnaði alþjóðlega, en Guðbjörg Heiða segir það ekki draga úr mikilvægi markaðarins á Íslandi. „Þetta er okkar heimamarkaður. Ég lít svo á að ef þú ert ekki í góðu sambandi við heimamarkaðinn, hvernig ætlarðu þá að spila góðan leik út á við? Íslensku sjávarútvegsfyrirtækin eru gríðarlega mikilvæg og þau eru framsækin. Þau vilja fjárfesta, þau vilja bjóða yfirburðagæði á erlendum vettvangi enda að selja mest úr landi.“

Þá sé sérstaklega mikilvægt fyrir Marel að eiga viðskiptavini innan fiskiðnaðar sem eru hér á landi þar sem það skapi góðan grundvöll fyrir sameiginlegt vöruþróunarsamstarf sem er báðum aðilum í hag.

Guðbjörg Heiða segir íslensku fyrirtækin móttækileg fyrir vöruþróunarsamstarfi og mjög opin fyrir nýjungum. „Það er mín tilfinning. Eins og í hvítfisknum eru þau mjög opin. Þau vilja auka vöruframboð sitt, vilja bjóða upp á vörur í réttum gæðum og vera leiðandi í sjálfbærni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.1.25 530,04 kr/kg
Þorskur, slægður 10.1.25 666,95 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.1.25 309,96 kr/kg
Ýsa, slægð 10.1.25 245,17 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.1.25 266,60 kr/kg
Ufsi, slægður 10.1.25 298,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 10.1.25 346,05 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

11.1.25 Þorleifur EA 88 Þorskfisknet
Þorskur 1.616 kg
Ufsi 211 kg
Samtals 1.827 kg
10.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.870 kg
Þorskur 657 kg
Keila 118 kg
Hlýri 67 kg
Ufsi 13 kg
Samtals 3.725 kg
10.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 7.696 kg
Ýsa 3.572 kg
Steinbítur 629 kg
Langa 201 kg
Hlýri 34 kg
Keila 33 kg
Karfi 6 kg
Samtals 12.171 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 10.1.25 530,04 kr/kg
Þorskur, slægður 10.1.25 666,95 kr/kg
Ýsa, óslægð 10.1.25 309,96 kr/kg
Ýsa, slægð 10.1.25 245,17 kr/kg
Ufsi, óslægður 10.1.25 266,60 kr/kg
Ufsi, slægður 10.1.25 298,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 6.1.25 90,00 kr/kg
Gullkarfi 10.1.25 346,05 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

11.1.25 Þorleifur EA 88 Þorskfisknet
Þorskur 1.616 kg
Ufsi 211 kg
Samtals 1.827 kg
10.1.25 Litlanes ÞH 3 Línutrekt
Ýsa 2.870 kg
Þorskur 657 kg
Keila 118 kg
Hlýri 67 kg
Ufsi 13 kg
Samtals 3.725 kg
10.1.25 Einar Guðnason ÍS 303 Lína
Þorskur 7.696 kg
Ýsa 3.572 kg
Steinbítur 629 kg
Langa 201 kg
Hlýri 34 kg
Keila 33 kg
Karfi 6 kg
Samtals 12.171 kg

Skoða allar landanir »