Vestmannaeyingar ætla sér sess á sviði líftækni og er sjónum beint að því sem kemur úr hafinu. Vestmannaeyjar eru ein stærsta verstöð landsins í veiðum og vinnslu. Með líftækninni er þriðju stoðinni bætt við og skref í þá átt er Vestmannaeyjar – Sjávarlíftæknivettvangur Íslands, verkefni sem Þekkingarsetur Vestmannaeyja (ÞSV) hefur umsjón með, að því er fram kemur í Mogunblaðinu í dag.
Verkefnið var kynnt fyrir skömmu og undirbúningur hefur staðið í eitt og hálft ár. Er unnið í samvinnu við stofnanir og sjávarútvegsfyrirtæki í Eyjum, háskóla í landinu og vísindamenn sem þar starfa.
ÞSV og Vestmannaeyjabær standa að verkefninu sem hlaut 10 milljóna króna styrk til eins árs úr Lóu – nýsköpunarstyrkjum fyrir landsbyggðina, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur umsjón með. Einnig kom fram að fiskverkunarfyrirtækið Langa ehf. í Eyjum fékk nýlega styrk úr Matvælasjóði að fjárhæð 21 milljón króna í verkefni sem tengist sjávarlíftækni.
Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri ÞSV, fór stuttlega yfir þá innviði sem eru til staðar í ÞSV og hvernig þeir nýtast Sjávarlíftæknivettvangnum. Fjöldi fyrirtækja og stofnana er þar með aðsetur, eins og Matís, Hafró, Háskóli Íslands, Mannvit, CCP, Náttúrustofa Suðurlands, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Sea life Trust og Umhverfisstofnun.
Arnar Sigurmundsson, formaður stjórnar ÞSV, sem fylgt hefur verkefninu eftir fór yfir þróun sjávarútvegs í Vestmannaeyjum frá 1890 til 2021 og taldi hann næstu skref í þróun öflugs sjávarútvegs felast m.a. í vinnslu verðmætra efna úr sjávarfangi með líftækniaðferðum.
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri fór yfir forsögu verkefnisins og mikilvægi þess að efla nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í Vestmannaeyjum. Íris lagði ríka áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélög kæmu að frumkvöðlastarfsemi á upphafsstigum.
„Sérstaklega þarf að sinna þessu vel úti á landi og leggja áherslu á að taka þátt í uppbygginu nýsköpunar og frumkvöðlastarfi. Við hér í Eyjum þurfum að skapa aðstæður s.s. húsnæði og aðstoða við að ræsa þessi verkefni. Tengja fólk saman. Til þess þarf aðkomu fagaðila sem við höfum nýtt okkur. Fólk og fyritæki þurfa sameiginlegan vettvang til þess að nýsköpunarhugmynd geti orðið að veruleika. Stuðningur ríkisins er mjög mikilvægur og skiptir nýr sjóður eins og Lóan miklu máli,“ sagði Íris.
Þar næst greindi dr. Hólmfríður Sveinsdóttur, frumkvöðull og verkefnisstjóri, stuttlega frá verkefninu og þeim mikilvæga tilgangi þess, sem er fyrst og fremst að efla enn frekar frumkvöðlastarfsemi, atvinnutækifæri og verðmætasköpun í Vestmannaeyjum.
„Hér eru grunninnviðir eins og Þekkingarsetrið, Rannsóknaþjónusta Vestmannaeyja og sjávarútvegsfyrirtæki sem búa yfir mikilli þekkingu á allri virðiskeðju sjávarútvegs, sem mikilvægt er að tengja við háskóla, rannsóknastofnanir og þekkingarfyrirtæki til þess að mynda breiðan vettvang,“ sagði Hólmfríður.