Alls hafa 46 einstaklingar verið skipaðir af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í fjóra starfshópa, eina verkefnisstjórn og eina samráðsnefnd og er þeim ætlað að rýna í sjávarútveginn. Vinnan sem stefnt er að er sögð í tilkynningu á vef Matvælaráðuneytisins vera ný nálgun „við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti.“
Fjórum starfshópum er ætlað að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum ásamt því að meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Starfa þeir undir nöfnunum Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri.
„Í ljósi reynslu af vinnu við endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni á undanförnum árum og áratugum varð niðurstaða matvælaráðherra sú að beita þyrfti nýrri nálgun við þær fjölmörgu áskoranir og tækifæri sem eru í sjávarútvegi og snerta samfélagið allt með beinum og óbeinum hætti. Í stað einnar stórrar pólitískrar nefndar er nú komið á laggirnar opnu, þverfaglegu og gagnsæu verkefni fjölmargra aðila sem unnið verður með skipulegum hætti á kjörtímabilinu,“ segir í tilkynningunni.
Starfshóparnir fjórir eru skipaðir samkvæmt sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 28. nóvember 2021. Þar segir meðal annars: „Skipuð verður nefnd til að til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunar kerfisins. Nefndinni verði falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar. Nefndin fjalli einnig um hvernig hægt er að auka gagnsæi í rekstri fyrirtækja í sjávarútvegi og þá sérstaklega meðal stærstu fyrirtækja landsins. Þá meti nefndin árangur af atvinnu- og byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í landsbyggðunum.“
Samfélagshópnum er meðal annars gert að skoða ágreining um stjórn fiskveiða og möguleika til samfélagslegrar sáttar, meta þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins, framkvæma alþjóðlegan samanburð kerfa, skoða samþjöppun veiðiheimilda, veiðigjöld og skattspor.
Starfshópurinn sem starfar undir nafninu Aðgengi á að leggja mat á og koma með tillögur til úrbóta á sviði samkeppni, verðlagsmála og aðgangshindrana, eignatengsla í sjávarútvegi og óskyldum greinum, gagnsæis í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja auk kynslóðaskipta og nýliðun.
Þá á þriðji hópurinn að rýna í umgengni um sjávarauðlindina með tilliti til vistkerfis, verndarsvæði, sjónarmið varúðar og aflareglur, rannsóknir á lífríki hafsins, vísindalega ráðgjöf og orkuskipti. Jafnframt á hópurinn að skoða vigtun, brottkast, eftirlit og viðurlög.
Rekjanleiki afla, fullvinnsla, gæðamál, hringrásarhagkerfið, stafræn umbreyting, hugverkaréttur, rannsóknir, þróun og nýsköpun verður til skoðunar hjá fjórða hópnum sem starfar undir nafninu Tækifæri. Þessi hópur er einnig skipaður til að meta orðspor Íslands og markaðssetningu.
Sérstök verkefnisstjórn matvælaráðuneytisins og formanna starfshópanna fjögurra mun funda reglulega um gang verkefnisins og með Samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu. Í samráðsnefndinni eru 27 einstaklingar, þar af matvælaráðherra, níu stjórnmálmenn sem eru fulltrúar sinna flokka á Alþingi, 13 fulltrúar hagsmunaaðila og fjórir formenn starfshópanna. Nefndin á að hafa yfirsýn yfir starf starfshópanna og er gert ráð fyrir að hún starfi til loka ársins 2023.
Óvenju margir eru í nefndunum sem Svandís hefur nú skipað, en ekki er um fyrstu nefndina eða fyrstu rýnivinnu í tengslum við sjávarútveginn að ræða enda hefur fjöldi nefnda starfað um sjávaraútvegsmál á undanförnum áratugum. Má meðal annars nefna að í maí kom út yfir 200 blaðsíðna skýrsla á vegum stjórnvalda um stöðu og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi.