Eldisfyrirtækin hljóti að bera kostnaðinn

Frá fundinum í morgun, f.v. Kári Gautason, aðstoðarmaður matvælaráðherra, Svandís …
Frá fundinum í morgun, f.v. Kári Gautason, aðstoðarmaður matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra og Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri matvælaskrifstofu ráðuneytisins. Hver á að bera kostnaðinn? mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkur samhljómur var um það með fundarmönnum atvinnuveganefndar Alþingis í morgun að þeir sem réttindi hefðu til að stunda lagareldi á Íslandi, frekar en hið opinbera, bæru kostnað af eftirliti með stroki, smitsjúkdómum og öðrum óæskilegum þáttum greinarinnar.

„Hvernig getum við tryggt að fiskeldi í sjó hafi sem minnst áhrif á villta laxastofninn á Íslandi?“ spurði Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis, á opnum fundi nefndarinnar um ábyrga uppbyggingu og framtíð lagareldis á Íslandi.

Var þar meðal annars til umræðu efni og niðurstöður skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group um stöðu og framtíð greinarinnar á Íslandi.

Mikilvægt að skapa grundvöll fyrir vöxt

„Fiskeldið hefur verið í gríðarlegum vexti, en stjórnsýslan hefur ekki eflst í samræmi við það,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra við upphaf fundarins en hún var einn gesta hans. Aðrir gestir voru Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri Svandísar, Kolbeinn Árnason, skrifstofustjóri matvælaskrifstofu, og aðstoðarmenn ráðherra, Kári Gautason og Iðunn Garðarsdóttir.

Á fundinum kvað Svandís mikilvægt að auka eftirlit og rannsóknir og skapa grundvöll fyrir þann vöxt sem fram undan væri og afstýra um leið hugsanlegu tjóni vegna skorts á umhverfisvöktun, rannsóknum eða eftirliti. Skýrsla BCG væri mikil að umfangi og ekki síst væri þar góðra gjalda verður samanburður Íslands og annarra landa á vettvangi lagareldis.

Aðstoðarmaður, ráðherra og skrifstofustjóri á rökstólum.
Aðstoðarmaður, ráðherra og skrifstofustjóri á rökstólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Rafn benti í framsögu sinni á að samkvæmt nýlegri könnun væru 60 prósent landsmanna andsnúin fiskeldi í sjó og vægju þar þyngst áhyggjur af því að eldisfiskur hefði óafturkræf áhrif á hinn villta íslenska laxastofn. Sagði hann frá ferðalagi nefndarinnar til Noregs þar sem hún kynnti sér vinnulag þarlendra við laxeldi og skilvirkt eftirlit með eldislaxi sem sloppið hefði út úr stýrðu umhverfi eldisins.

Flókið leyfisveitingaferli

Varpaði hann fram nokkrum spurningum, þeirri sem getið er í upphafi auk annarra sem snerust meðal annars um hvort áhættan væri svo mikil að heppilegra væri að einblína á landeldi frekar en eldi í sjó. Svaraði ráðherra því til að grundvallarspurningin væri hvar Íslendingar hygðust leggja sínar áherslur í framtíð lagareldis. „Við erum með mjög flókið leyfisveitingaferli í lagaumhverfinu sem snýst um mat á tilteknum þáttum,“ sagði Svandís og nefndi þar burðarþol og áhættu vegna erfðablöndunar.

„Við horfumst í augu við mjög stór slys af þessu tagi, annars vegar sem lúta að smitsjúkdómum, sem við höfum séð valda mjög miklum skaða, eins og fyrir austan tiltölulega nýlega, og hins vegar strok í mjög stórum stíl fyrir vestan, hvort tveggja eru högg af slíkri stærðargráðu að þau eru mjög alvarleg fyrir reksturinn sem slíkan,“ hélt ráðherra áfram.

Hefðu sérstakir starfshópar því verið settir saman til að fjalla um smitsjúkdóma annars vegar og strok hins vegar. Hefði fyrri hópurinn þegar skilað áliti sem í raun minnti ráðherra á fyrra ráðherraembætti hennar sem heilbrigðisráðherra í heimsfaraldrinum. Í raun giltu í höfuðatriðum sömu meginreglur hvað laxasjúkdóma snerti og kórónuveiruna á sínum tíma.

Tillögur „strokhópsins“ væntanlegar

Benti ráðherra á að Íslendingar bæru alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart lífríkinu, ekki síst hvað villta laxastofna landsins snerti. Miðað við skýrslu BCG væri eftirlit og rannsóknir á Íslandi töluvert á eftir, samanborið við til dæmis Færeyjar og Noreg. „Það þarf að bæta eftirlit, það liggur algjörlega fyrir. Við þurfum ekki að fara í einhverjar langar ræður um það.“

Austfirskar sjókvíar.
Austfirskar sjókvíar. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Kolbeinn Árnason kvað „strokhópinn“ mundu skila af sér tillögum á vormánuðum en hann beindi sjónum sínum að gangi mála í Noregi. Þar hvíldi kostnaðurinn af eftirliti, rannsóknum og stroki á fyrirtækjunum sjálfum en ekki hinu opinbera. Þá fleygði tækninni fram og í Noregi væri tekið að nota gervigreindarbúnað sem flokkaði eldislax frá villtum laxi í ám. Slíkt þyrftu Íslendingar að tileinka sér, „og aftur, hver á að bera kostnaðinn af því? Það hljóta að vera þeir sem hafa réttindin til að standa í þessu,“ sagði Kolbeinn og vísaði þar til eldisfyrirtækjanna.

Ættu tímabundin leyfi áfram að vera tímabundin og skilyrði til endurnýjunar þá að snúast um umgengni um auðlindina? Mikilvægt væri að taka fjölda fjárhagslegra vinkla með í reikninginn og búa svo um hnútana að fyrirtæki í greininni hefðu hvata til að gera hlutina vel.

Nýtur náttúran vafans?

Kári Gautason, aðstoðarmaður ráðherra, minnti þá á áhættumat erfðablöndunar frá 2017 sem lögfest var 2019 og væri ætlað að meta hve mikil áhætta væri tekin og hafa hana í lágmarki. Þungavigtaratriði þar væri að ekki yrðu breytingar á stofninum sem leiddu til þess að drægi úr hæfni hans. Til væri ferli sem miðaði að því að fjarlægja strokinn eldislax úr ám en að bæta það ferli þyrfti rannsóknir sem svo kölluðu á aukið fjármagn.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sagði eldi hluta af framtíðinni en væri horft á málið út frá náttúrunni mætti spyrja hvort við gætum verið viss um að náttúran nyti vafans, „hvort heldur er á landi, í fjörðum eða úthafinu. Og af því að við erum kannski ekki nógu burðug í eftirlitinu, ég tel að það sé eitt af því sem við lærðum í Færeyjum og eins í Noregi, þá er gríðarlega mikilvægt að það sé öflugt og ég tek undir að fyrirtækin eiga að borga – sem menga eða hvað það nú er sem er undir í því samhengi.“

Tók Bjarkey að lokum sérstaklega fram að hún teldi alvörugjaldtöku í fiskeldi tímabæra hvar svo sem hún færi fram. „Þrátt fyrir að fyrirtæki séu að byggja sig upp, önnur fyrirtæki eru að gera það líka og þurfa að borga ýmis gjöld,“ sagði þingmaðurinn.

Mikil tækifæri í þörungarækt

Halla Signý Kristjánsdóttir, Framsóknarflokki, spurði ráðherra hvort samhengi gæti verið á milli takmarkaðs eftirlits og fjarlægðar milli starfsstöðva og eftirlitsaðila og hvort ráðherra hefði áform á prjónunum um að minnka þessa fjarlægð og færa rannsóknir og eftirlit nær sjálfu eldinu til að auka þekkingu og skilvirkni. Eins spurði Halla hve miklum hluta fiskeldisgjalds, sem tekið var upp árið 2019, hefði verið varið í rannsóknir og eftirlit með greininni. Að lokum spurði hún um framtíðaráætlanir í þörungarækt og hvort til stæði að auka umfang hennar.

Við upphaf nefndarfundarins.
Við upphaf nefndarfundarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matvælaráðherra kvað mikil tækifæri felast í þörungarækt og þar mætti vel auka umfang, spurningin þar snerist um rannsóknir, raforku og vatn. „Við erum í kjörstöðu til að grípa þau tækifæri eins og svo mörg önnur og nýta þessa styrkleika. Það er spurning um aukna þekkingu og frekari rannsóknir eins og fram hefur komið,“ sagði Svandís og benti á góða kafla í skýrslu BCG um þörungaeldi sérstaklega.

Hvað snerti staðsetningu eftirlits sagði ráðherra brýnt að eftirlit og þekking væru sem mest „heima“, sama á hvaða sviði þjóðfélagsins það væri. Þyrfti eftirlit að vera faglegt, byggja á bestu mögulegu þekkingu á hverjum tíma og vera sambærilegt óháð staðsetningu. Útheimti þetta samræmingu til að tryggja að eftirlit væri ekki mismunandi eftir því hvar starfsemin væri staðsett, hvort sem það væru hárgreiðslustofur eða fiskeldi. „Þetta er krafa sem við verðum að gera, ekki síst í matvælaframleiðslu.“

Vafamál um útreikning gjalds

Fara þyrfti í saumana á því hvort fiskeldisgjaldið uppfyllti þær væntingar sem þingið hafði um það á sínum tíma. Ráðherra hefði fengið mjög miklar athugasemdir um gjaldið, fyrst og fremst frá sveitarstjórnarfólki, um það fyrirkomulag sem þingið ákvað á sínum tíma. „Sveitarfélögin hafa talað um að þeim þætti betra að hafa þetta milliliðalaust, að þetta rynni beint til sveitarfélagana,“ sagði Svandís og kvað vafamál hvernig þá bæri að reikna gjaldið út, hvort miða ætti við einhvers konar lífmassaeiningu. Varðandi hlutfallið sem Halla Signý spurði um kvaðst ráðherra ekki vera með þá tölu en henni væri hvort tveggja ljúft og skylt að útvega hana.

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði náttúruverndarsamtök hafa gagnrýnt að rannsóknir og skýrslur fjölluðu eingöngu um viðskiptalegar forsendur eldis á meðan mat og skoðun umhverfislegra forsendna væri vanmetið. „Sumir tala um sjókvíaeldi sem einhvers konar mengandi stóriðju, þar þurfi að nota mikið magn af skordýraeitri til að berjast við laxalúsina og svo sýklalyf til að reyna að stemma stigu við áhrifum af henni. Eitrið og lyfið fer út í hafið og situr svo í holdi laxins sem verði þá ekki eins holl matvara og menn vilja vera láta,“ sagði Oddný.

Skrifstofustjóri brosir við ráðherra á fundinum sem stóð í rúma …
Skrifstofustjóri brosir við ráðherra á fundinum sem stóð í rúma klukkustund. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Spurði hún í framhaldinu hvort upplýsingar væru fyrir hendi um gæði matvörunnar hér á landi og enn fremur hvort ráðherra hygðist beita sér fyrir stöðvun nýrra leyfa um sjókvíaeldi hér á landi og draga úr núverandi starfsemi á meðan regluverk og eftirlit kringum greinina yrði endurskoðað í samræmi við athugasemdir í skýrslu BCG.

„Þessi skýrsla er ekki skrifuð af líffræðingum“

Ráðherra svaraði því til að hún teldi tilhneiginguna alltaf vera að vanmeta umhverfissjónarmið. „Þó vilja ég segja að mér finnst þessi sjónarmið vera vaxandi í allri umræðu og meiri meginstraumskrafa að náttúran njóti vafans, að umhverfissjónarmið séu lögð til grundvallar, og það gildir líka um þessa skýrslu. Þessi skýrsla er ekki skrifuð af líffræðingum, það er alveg ljóst og það var heldur ekki meiningin,“ sagði Svandís.

Skýrsla BCG væri góður grundvöllur og við hana mætti vel gera athugasemdir, svo sem við jafnvægi milli þátta. Ráðherra teldi því vel haldið til haga í skýrslunni að alls staðar mætti gera athugasemdir við umhverfissjónarmið og væri það algjörlega í forgrunni.

Hvað snerti upplýsingar um hollustu vörunnar væru þær ekki hluti af þeirri skoðun sem til umfjöllunar væri á fundinum, það er skýrslu BCG, en ábending þingmannsins væri góð og því mætti halda til haga.

Varðandi stöðvun útgáfu leyfa sagði ráðherra fullan vilja til að staldra við eins og unnt væri. Ákveðið regluverk væri þó í gildi sem ekki yrði litið fram hjá, regluverkið sem þingið hafi búið um í lagaumhverfinu árin 2014 og 2019. „Það er veruleikinn sem við horfum á og ég hef ekki stöðu til að taka lög úr sambandi meðan á þessu gengur. En ég hef hins vegar sagt að það væri ráðlegt að ganga hægt um gleðinnar dyr meðan á þessu stendur og það held ég að sé öllum ljóst og það verður að gera það,“ sagði matvælaráðherra að lokum í svari sínu við spurningum Oddnýjar G. Harðardóttur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 211,11 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.12.24 Kristrún RE 177 Grálúðunet
Grálúða 192.678 kg
Þorskur 6.879 kg
Samtals 199.557 kg
22.12.24 Júlíus Geirmundsson ÍS 270 Botnvarpa
Þorskur 186.991 kg
Ýsa 154.221 kg
Karfi 48.438 kg
Ufsi 9.809 kg
Steinbítur 1.935 kg
Skarkoli 206 kg
Þykkvalúra 151 kg
Langa 92 kg
Samtals 401.843 kg
22.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 108 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 26 kg
Sandkoli 14 kg
Samtals 183 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 22.12.24 710,33 kr/kg
Þorskur, slægður 22.12.24 707,99 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.12.24 401,74 kr/kg
Ýsa, slægð 22.12.24 174,32 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.12.24 211,11 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 22.12.24 140,85 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.12.24 Kristrún RE 177 Grálúðunet
Grálúða 192.678 kg
Þorskur 6.879 kg
Samtals 199.557 kg
22.12.24 Júlíus Geirmundsson ÍS 270 Botnvarpa
Þorskur 186.991 kg
Ýsa 154.221 kg
Karfi 48.438 kg
Ufsi 9.809 kg
Steinbítur 1.935 kg
Skarkoli 206 kg
Þykkvalúra 151 kg
Langa 92 kg
Samtals 401.843 kg
22.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 108 kg
Ýsa 35 kg
Steinbítur 26 kg
Sandkoli 14 kg
Samtals 183 kg

Skoða allar landanir »