Reglugerð um veiðar á langreyðum hefur verið birt í stjórnartíðindum og snertir á fjölmörgum þáttum er snúa að framkvæmd veiða, svo sem veðurskilyrðum, þekkingu áhafnar, atvikaskráningu og framkvæmd skota. Vísbendingar eru um að ekki takist að uppfylla þau skilyrði sem sett hafa verið í reglugerðina um námskeið sem starfsmenn Hvals hf. þurfa að hafa setið áður en veiðitímabilinu lýkur.
Í reglugerðinni er gerð krafa um að „skyttur sem annast veiðar og aflífun á dýrum skulu hafa lokið námskeiði í meðferð hvalveiðibyssu og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar. Skyttur skulu jafnframt hafa lokið námskeiði, viðurkenndu af eftirlitsaðilum, sem að lágmarki skal innihalda fræðslu um líffræði, þ.m.t. atferli, sársaukaskyn og streitu, og vistfræði með tilliti til hvala og um regluverk sem um hvalveiðar gildir.“
Slíkt ákvæði hefur til þessa ekki verið í reglugerðum í tengslum við veiðar á langreyðum. Þó ber að geta þess að í veiðileyfi Hvals hf. fyrir árin 2019 til 2023 kemur fram að við veiðarnar skuli tryggt að þrír úr áhöfn hafi reynslu af hvalveiðum hið minnsta. Þá skuli tryggt að skyttur sem annast veiðar og aflífun dýra hafi sótt viðurkennt námskeið í meðferð skutulbyssu og sprengiskutla og í aflífunaraðferðum við hvalveiðar.
Það getur þó verið, eftir því hvernig reglugerðin er túlkuð, að þau námskeið sem starfsmenn Hvals þegar hafa sótt uppfylli ekki þær kröfur sem eru gerðar til námskeiða í hinni nýju reglugerð. Má þar sérstaklega benda á fræðslu um líffræði, sársaukaskyn og fleiri slíka þætti. Sé svo að starfsmenn hafi ekki lokið slíku námskeiði er óljóst hve lengi viðurkenndir eftirlitsaðilar eru að skipuleggja umrædd námskeið og hve langan tíma tekur fyrir starfsmenn að sitja þau.
Í ljósi þess að aðeins nokkrar vikur séu eftir af veiðitímabilinu getur orðið erfitt að uppfylla þau skilyrði sem yfirvöld hafa sett. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sagði í dag það vera mat yfirvalda að skilyrði reglugerðarinnar væru ekki svo hörð að ekki yrði unnt að stunda hvalveiðar.
Þá er í reglugerðinni gert ráð fyrir að Matvælastofnun og Fiskistofa fari saman með eftirlit með framkvæmd veiða. Þar er jafnframt þessum stofnunum veitt heimild til að innheimta gjald til að standa straum af kostnaði við eftirlit.
Kveðið er á um að Matvælastofnun skuli hafa reglubundið eftirlit með því að farið sé að lögum um velferð dýra og reglugerð við veiðar á langreyðum, meðal annars „með eftirlitsferðum við veiðar, myndbandsupptökum veiðiaðferða og skráningu þeirra aðgerða við veiðar sem varða velferð dýra.“ Þá er eftirlitsmönnum gert að koma gögnum til stofnunarinnar við lok hverrar athugunar.
Fiskistofu er ætlað að fara með eftirlit með framkvæmd veiðanna að öðru leyti. Skulu eftirlitmenn þeirrar stofnunar meðal annars fylgjast með að veiðibúnaður sé í samræmi við lög og reglugerðir og hafa eftirlit með því að skilyrði sem fram koma í veiðileyfi séu uppfyllt.