Færeyjar og Rússland hafa undirritað samning um tilhögun veiða í lögsögum hvors annars á næsta ári. Fá færeysk skip að veiða 15.713 tonn af botnfiski, flatfiski og rækju innan rússneskrar lögsögu í Barentshafi og rússnesk skip fá í skiptum að veiða tæplega 150 þúsund tonn af uppsjávarfiski í færeyskri lögsögu, þar af eru 93.776 tonn fengin frá Færeyjum.
Niðurstaða samningaviðræðna var að heimildir ríkjanna í lögsögu hvors annars myndi breytast frá fyrri samningum í samræmi við breytingar í ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) um hámarksveiði, að því er fram kemur í tilkynningu á vef sjávarútvegs- og samgönguráðuneytisins Færeyja (Fiskisvinnu- og samferðslumálaráðið).
Með samningnum minnkar því þorskkvóti færeyskra skipa í rússneskri lögsögu um 20% í 9.766 tonn og ýsukvóti þeirra um 18% í 1.047 tonn. Þá helst flatfiskkvótinn óbreyttur í 900 tonnum og sama gildir um rækju og fá færeysku skipin 4.000 tonna rækjukvóta.
Heimildir rússneskra skipa til veiða á kolmunna í færeyskri lögsögu hækkar í 75 þúsund tonn, en heimildir í makríl lækka um 5,5% í 12.291 tonn og lækka heimildir í síld um 23,7% í 6.485 tonn. Jafnframt fá rússnesk skip að veiða 55.618 tonn af kolmunnakvótanum sem Rússland úthlutar sjálft til sinna skipa í færeysku lögsögunni.
Tekið er sérstaklega fram að rússnesk skip fá ekki að veiða á miðunum milli Færeyja og Bretlands.
Nokkrar deilur hafa verið undanfarið milli Rússlands og Færeyja sem má rekja til þess að að færeysk yfirvöld ákváðu að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um að leyfa ekki rússneskum skipum sem stundað hafa veiðar sem rúmast ekki innan gildandi fiskveiðisamninga ríkjanna tveggja að landa, umskipa eða fá aðra þjón-ustu í færeyskum höfnum. Nær þetta til dæmis til rússneskra togara sem hafa stundað ólöglegar karfaveiðar á Reykjaneshrygg.
Hinn 23. október síðastliðinn tilkynnti fiskistofa Rússlands frá því að stofnunin myndi leggja til við ráðuneyti landbúnaðarmála að bann yrði sett á sjávarafurðir frá Færeyjum. Stofnunin sagði tillöguna um bannið vera „svar við verndaraðgerðum gegn rússneskum sjávarútvegsfyrirtækjum“.
Enn sem komið er hefur ekki orðið af banninu og eins og raun ber vitni virðist deilan ekki hafa komið í veg fyrir gerð fiskveiðisamninga ríkjanna.