Fyrir nokkrum árum ákvað Ester Sigurðardóttir að breyta um starfsvettvang. Hún kveðst í desemberblaði 200 mílna hafa verið forvitin um fiskeldi og fræðir lesendur um að það að fóðra laxa kalli á nákvæmni og innsæi.
Samhliða örum vexti fiskeldis hefur orðið til fjöldi nýrra starfa í greininni. Ester gekk til liðs við Fiskeldi Austfjarða (Ice Fish Farm) fyrir þremur og hálfu ári og gegnir í dag stöðu fóðrara. Þar á undan tók hún að sér ýmis stjórnunarstörf og verkefni fyrir ólík fyrirtæki, en hún menntaði sig í upplýsingastjórnun í Dyflinni.
Ester ólst upp á höfuðborgarsvæðinu en í náminu erlendis tók hugurinn að leita til Djúpavogs. „Ég hafði byrjað viðbótarnám í Danmörku en snéri aftur til Íslands, og eftir að heim kom tók ég þá ákvörðun að betra væri að ala börnin mín upp úti á landsbyggðinni, en taka að mér störf í fjarvinnu fyrir vinnuveitendur á höfuðborgarsvæðinu og víðar,“ segir Ester söguna og óhætt er að kalla hana brautryðjanda á sviði fjarvinnu enda var ekki útbreitt á þessum tíma að vinna yfir netið fyrir fyrirtæki í öðrum landshlutum og jafnvel í öðrum löndum.
Sem barn hafði Ester heimsótt Djúpavog reglulega og þekkti hún því bæjarfélagið ágætlega. „Ég vissi nokkuð vel hvað ég var að fara út í, þó að ég hafi upphaflega hugsað mér að búa hérna í aðeins tvö ár. Dvölin varð mun lengri en það og börnin eru núna bæði vaxin úr grasi; annað komið í háskólanám í Reykjavík og hitt í framhaldsskóla á Egilsstöðum.“
Ester sér ekki eftir ákvörðuninni enda gott samfélag á Djúpavogi og þar fá bæði börn og fullorðnir að njóta þeirra fríðinda að vera í miklu návígi við náttúruna. „Svæðið er sannkölluð útivistarparadís og þetta er frábær staður fyrir börn. Íþrótta- og tónlistarlíf bæjarins er öflugt og foreldrarnir duglegir að skutla börnunum yfir til næstu bæja ef þar er eitthvað alveg sérstakt í boði.“
Það var ekki fyrr en nokkru eftir að Ester settist að á Djúpavogi að starfsemi Fiskeldis Austfjarða fór á fullan skrið. Er fyrirtækið í dag með skrifstofur á Eskifirði og Djúpavogi og með eldiskvíar í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Spurð hvers vegna hún ákvað að skipta um starfsvettvang segir Ester að hún hafi verið forvitin um greinina og langað að breyta um umhverfi.
„Það getur verið krefjandi til lengdar að vinna fjarvinnu einn heima við og það voru jákvæð umskipti fyrir mig að finna strax hve góð teymisvinna er hjá fyrirtækinu. Unnið er eftir vönduðum gæðakerfum og allir sem að eldinu koma eru áhugasamir og vilja leggja sig fram við að vinna sína vinnu vel.“
Viðtalið við Ester má lesa í heild sinni í desemberblaði 200 mílna.