Strandveiðimönnum og stuðningsmönnum þeirra var heitt í hamsi þegar þeir komu saman á Austurvelli fyrr í dag og kröfðust að tryggt verði að strandveiðitímabilið vari út ágúst.
Strandveiðifélag Íslands stóð fyrir mótmælunum en gengið var frá Hörpu að Austurvelli þar sem hópurinn hitti matvælaráðherra fyrir og afhenti honum áskorun þess efnis að strandveiðar verði tryggðar út ágúst.
„Þetta er svona kröfu og samstöðufundur því það stefnir allt í það að okkar aflaheimildir klárist núna um mánaðarmótin júní/júlí, eða í blábyrjun júlí og strandveiðitímabil á að standa út ágúst. Við erum bara að biðja um að fá að veiða út ágúst eins og okkur hefur verið lofað,“ sagði Kjartan Páll Sverrisson formaður strandveiðafélagsins áður en gangan lagði af stað.
Hann segir strandveiðar umhverfisvænustu veiðarnar, að í þeim séu verðmætastu sjávarafurðirnar framleiddar og að veiðarnar skapi störf út um allt land.
„Við erum að sýna samstöðu og sýna að við séum til og þetta skiptir gríðarlegu máli fyrir okkur og alla landsbyggðina,“ segir strandveiðimaðurinn Guðlaugur Jónasson sem mættur var á mótmælin.
„Það er mikið landsbyggðarmál að strandveiðar lifi og fyrir ferðamenn að sjá á hverju landið byggist,“ segir Guðlaugur
Hallgerður Hauksdóttir strandveiðisjómaður mætti í gönguna til að berjast fyrir atvinnufrelsi: „Ég vil fá að vinna. Ég vil fá atvinnufrelsi og frelsi til að sjá fyrir mér með veiðum.“
„Það sést hér hvernig búið er að sölsa auðlindir þjóðarinnar og hvernig á að kirkja úr okkur getuna til að sjá fyrir okkur með veiðum.“ segir Hallgerður.
Þegar komið var á Austurvöll og búið að afhent matvælaráðherra áskorunina stilltu strandveiðisjómenn, sem margir voru klæddir í gula regnstakka, sér upp fyrir framan alþingi og tendruðu neyðarblys.
Ólafur Jónsson, fyrrum sjómaður, sem mættur var til að styðja við bakið á strandveiðimönnum fylgdist með gjörningum og sagði við blaðamann:
„Þetta er bara sjálfstæðisbarátta þjóðarinnar. Þetta er ekkert annað. Ef við ætlum ekki að rísa upp gegn frekjunni og græðginni hver gerir það þá.“
„Þetta eru strandveiðimenn sem eru að sækja mannréttindi sín. Sameinuðu þjóðirnar dæmdu að hér yrði að vera 48 daga leyfi til strandveiða yfir sumartímann. En nú ætla spilltir ráðherrar og ráðamenn hér á Alþingi að meina þeim um fisk sem dugar þeim út 48 dagana,“ segir Ólafur.