Mitsubishi er sá bílaframleiðandi sem einna lengst hefur unnið að smíði rafmagnsbíla og hefur sú þróun staðið síðan árið 1966.
Segja má að stærsta stökkið í þeirri þróun sé útkoma i MiEV-rafmagnsbílsins en Hekla hefur nú þann bíl til sölu fyrir almenning. Því hefur lengi verið spáð að framtíðin liggi í rafmagnsbílum og með lágu raforkuverði hérlendis sé það einkar álitlegur kostur. Hann er nú orðinn að veruleika og hefur bæði mikla kosti og ókosti í för með sér. Helstu kostirnir eru að kostnaður orkunnar sem bíllinn nærist á er mjög lítill og hægt er að aka 100 kílómetra fyrir aðeins 171 krónu og með því að nýta lægri gjöld á næturtaxta getur verðið enn lækkað. Þegar lítrinn af bensíni er yfir 250 krónur má gera ráð fyrir að komast vart 7 kílómetra fyrir sömu krónutölu. Annar afar stór kostur er að bíllinn mengar ekki neitt. Þriðji kosturinn er að hann er svo til alveg hljóðlaus. Fjórði kosturinn er að í rafmagnbílum eru miklu færri íhlutir og því von á færri bilunum. Ókostirnir felast í háu verði á rafmagnsbílum, skertri ökudrægni, lítilli reynslu af slíkum bílum og þyngd rafhlaðanna.
Það er alveg sérstök tilfinning að ræsa bílinn, heyra örlítið suð og leggja síðan af stað hljóðlaust. Það er sannarlega skemmtilegt að leggja af stað í Mitsubishi i MiEV því hann bókstaflega rýkur af stað og fullt afl til staðar frá kyrrstöðu. Þá er hann beinlínis eins og sportbíll og mjög snöggur í 50 km hraða. Eftir það minnkar hröðunin og það tekur bílinn 15 sekúndur að ná 100 km hraða og hámarkshraðinn er 130. Við reynsluakstur, sem eðlilega fór aðeins fram á höfuðborgarsvæðinu, var bíllinn svo viljugur að einhvern veginn var erfitt að halda honum undir hámarkshraða og rétt að passa sig á hve frískur hann er og fer vel með hraða. Þetta er sko enginn letingi þó lítill og nettur sé. Aflið er 49 kw en togið er mjög mikið fyrir svo léttan bíl, þ.e. 180 Nm en bíllinn vegur aðeins 1.110 kg. Mitsubishi gefur upp akstursdrægni upp á 150 kílómetra, en starfsmenn Heklu vilja ekki gefa hann upp fyrir mikið meira en 90-100 km drægni við þær köldu aðstæður sem við búum við hérlendis. Það reyndist einmitt rétt í reynsluakstrinum. Sú drægni ætti þó að nægja flestum við innanbæjaraksturinn og ekki oft sem þyrfti meira. Hann fullhleður sig svo á 6 klukkutímum yfir nótt og er tilbúinn í næsta dag. Til þess er best að hafa 16 ampera tengil sem títt er að sé í bílskúrum í venjulegri 220 volta innstungu.
Akstur i MiEV kemur verulega á óvart. Bíllinn er svo lipur og ljúfur borgarbíll að leit er að öðru eins. Það er einfaldara að aka honum en flestum öðrum bílum enginn þarf að hafa áhyggjur af því að það sé flóknara að aka rafmagnsbíl en bíl sem brennir jarðefnaeldsneyti. Það að bara einfaldara, engin er jú skiptingin, hann er stiglaus, hröðunin jöfn og þétt og engir rykkir eins og óhjákvæmilegt er meira að segja með sjálfskiptingum. Reynsluökumaður hélt af útliti bílsins að dæma að þar færi enginn akstursbíll en því fer fjær. Hann er ótrúlega skemmtilegt leiktæki og miklu betri í akstri en vænta mátti. Á hann má leggja heilmikið í beygjum enda þyngdarpunktur hans mjög lágur með rafgeymana neðst í bílnum. Beygjuradíus bílsins er alveg sérstakur, 4,5 metrar svo það má snúa honum nánast á punktinum og ekki er vandamálið að koma honum í stæði fyrir vikið, svo ekki sé minnst á hve lítið stæði hann þarf.
Mitsubishi i MiEV er fjögurra sæta bíll og alger ógjörningur að koma fleiri farþegum í bílinn. Hann er stuttur og mjór enda eitt meginmarkmiðið að hann sé léttur og við það eykst drægni hans. Vel fer þó um alla farþega og höfuðrými ríflegt enda bíllinn hár í loftinu þó smár sé. Bíllinn er nokkuð einfaldur að innan og alls ekki ríkulegur fyrir vikið, en nokkuð framúrstefnulegur. Stjórntæki eru einföld og mest fer fyrir miðstöðvartökkunum og stillingum fyrir útvarp. Miðstöðin er snögg upp og hitar rösklega en hún tekur jafnframt mikið rafmagn sem minnkar þá drægni bílsins. Rétt er því að bruðla ekki með hana, fremur en annað rafdrifið. Rafmagnsrúður eru allan hringinn og hljóðkerfið er bara ári gott og með CD-spilara. Þar er USB-tengi og tengi til hleðslu fyrir rafmagnstæki. Sætin eru þægileg en sláandi einföld í útliti, sem vinnur ekki með innréttingunni í heild. Skottrými er eðlilega ekki mikið en dugar í flestar innkaupaferðir, en það er 235 lítrar en getur stækkað í 860 lítra ef sætin eru lögð niður. Það verður ekki sagt að i MiEV sé líklegur sigurvegari í fegurðarsamkeppni og hreinlega skrítið hvað bílaframleiðendur hanna alltaf skrítna rafmagnsbíla. Af hverju mega þeir ekki líta út eins og venjulegir bílar og vera fallegir að utan? Burtséð frá því er bíllinn ferlega vel heppnaður og skemmtilegur í akstri og umgengni. Mitsubishi i MiEV væri frábær sem annar bíll á heimili.