Peugeot 208 stekkur fram fullskapaður

Er ekki draumur flestra bílkaupenda í dag að bíllinn eyði litlu, kosti lítið, sé fallegur, með nægilegt rými og þokkalegt afl? Allt þetta uppfyllir Peugeot 208, sem kom hressilega á óvart í reynsluakstri.

Peugeot 208 er af nýrri kynslóð og forverarnir hétu 207, þar áður 206 og enn fyrr 205. Allt hafa þetta verið söluháir bílar og falla í b-stærðarflokk bíla.

Tekist hefur að létta 208 um 110 kíló að meðaltali frá 207-bílnum, en hann er nú boðinn í fjölmörgum útfærslum og með 10 mismunandi vélar. Annað eins vélaframboð á sér vart hliðstæðu. Peugeot 208 var fyrst kynntur á bílasýningunni í Genf í mars en samt hafa þegar selst á annan tug bíla hér frá því hann kom til landsins. Ódýrasta útfærsla Peugeot 208 kostar aðeins 2.290.000 og erfitt gæti reynst að finna meiri bíl fyrir sama pening.

Góð vinna við teikniborðið

Peugeot 208 er fríður bíll að utan og slær forveranum hressilega við. Hann er minni í utanmáli en 207 en snjöll hönnun innanrýmisins gerir hann samt rúmbetri. Það er sama hvar litið er á bílinn, að framan, aftan eða á hlið, hann er hinn snotrasti og framendinn sérlega flottur. Lengi er hægt að finna ný og ný smáatriði í ytri hönnun hans sem síðan rennur saman í heildstæða teikningu hans. Það er ekki hægt að gera stórkostlegar kröfur til svo ódýrs bíls hvað innréttingu varðar en hún er ótrúlega smekkleg og fer fram úr væntingum. Notkun vandaðra efna, margra stællegra háglans-flata, fallegs mælaborðs og flottrar hönnunar í hvívetna gerir þennan bíl langt frá því að vera billegan í innra útliti. Sætin í bílnum eru að vanda góð frá Peugeot, enda sjúkraþjálfarar með í ráðum við hönnun þeirra. Reyndar gætti þreytu ökumanns í sitjandanum við langan akstur. Sætin í Active- og Allure-útfærslum eru mjög falleg en einnig má fá þau leðurklædd. Það sem stelur senunni í innréttingunni í öllum útfærslum nema þeirri ódýrustu er 7 tommu snertiskjár á miðju mælaborði þar sem stjórna má flestu því sem hugurinn girnist í bílnum. Hann gefur líka skýrar upplýsingar um eyðsluna, sem gaman er að fylgjast með í svo eyðslugrönnum bíl. Stýrið er frekar lítið í bílnum og á það til að skyggja á mæla, sem gerir það erfiðara að finna bestu akstursstöðu.

Mikið framboð í vélarkostum

Reynsluekið var bíl í Active-útfærslu með 1,4 l dísilvél sem skilar 68 hestöflum og var beinskiptur. Þessi vél er ótrúlega spræk fyrir léttan bílinn, sem ekki vegur nema 1.050 kíló. Því er spurning hvort ástæða sé til að kaupa hann frekar með öflugri dísilvélum sem í boði eru, en fá má 1,6 l dísilvélar sem orka 92 eða 115 hestöfl. Þannig hlýtur hann að verða ansi sprækur en þá kemur spurning hvort þyngri vélar geri hann of nefþungan og skemmi góða aksturseiginleikana. Fimm bensínvélar eru einnig í boði, frá 1,0 til 1,6 lítra og 68, 82, 95, 120 eða 156 hestafla, sem vafalaust gerir bílinn af algerri rakettu. Dísilvélarnar eyða mjög litlu, uppgefnar með 3,4 til 3,8 lítrum í blönduðum akstri. Reynsluakstursbíllinn er með uppgefna 3,8 lítra eyðslu, 3,4 utanbæjar og 4,4 innanbæjar. Í reynsluakstrinum var honum ekið nokkuð langa vegalengd utanbæjar og var hann með 4,1 lítra eyðslu í þeirri ferð. Innanbæjar mældist hann nákvæmlega eins og uppgefið er með 4,4 lítra. Það er mjög ánægjulegt þegar mæling í reynsluakstri er nálægt eða nær algerlega uppgefnum eyðslutölum, en því náði þessi bíll þrátt fyrir að honum hefði ekki verið hlíft neitt í akstrinum.

Besti smábíll Peugeot í mörg ár

Akstur Peugeot 208 kom jafn mikið á óvart og flest annað við bílinn. Hann er sérlega góður í akstri og lipur borgarbíll sem gaman er að henda stöku sinnum í krappar beygjur. Hann er duglegur að eyða öllum ójöfnum, fer vel með hraðahindranir þó hann skoppi aðeins við það vegna þess hve stutt er milli öxla, en það gerist í öllum smærri bílum. Greinarskrifari myndi alltaf velja hann beinskiptan, því kynnin af sjálfskiptingum Peugeot nýverið fælir frá. Aðeins verður að setja út á beinskiptinguna, eða öllu heldur staðsetningu hennar, en stöngin er aðeins of aftarlega og fjarri ökumanni og hnúðurinn væri betri kúlulaga, en ekki með löngum hliðum. Flestir bílablaðamenn eru sammála um það að þessi bíll, Peugeot 208, sé besti smái bíll sem Peugeot hefur framleitt í mörg ár. Samkeppnin er þó hörð í þessum stærðarflokki og ætli hún komi ekki mest frá Volkswagen Polo og Ford Fiesta. Svo virðist sem Bernhard hafi náð að þvinga niður verð frá Peugeot á þessum nýja 208-bíl því hann er í boði á einkar góðu verði, öndvert við það sem í boði var með 207-bílinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: