Fær þig til að segja „jííhaa“

Hestöflin 200 í þessum skemmtilega bíl skila sér vel til …
Hestöflin 200 í þessum skemmtilega bíl skila sér vel til afturdekkjanna þrátt fyrir sjálfskiptingu. Gaman er að spretta úr spori, t.d. á akstursbrautinni í hrauninu sunnan við Hafnarfjörð. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Árið 1965 kom fram á sjónarsviðið sportbíll frá Toyota sem bar nafnið 2000GT, sem var afturhjóladrifinn með tveggja lítra bensínvél. Sá bíll var í framleiðslu frá 1967-1970 í samstarfi við Yamaha mótorhjólaframleiðandann.

Næstum hálfri öld seinna hefur Toyota endurtekið leikinn, að þessu sinni í samstarfi við Subaru og býður aftur tveggja lítra bíl með afturhjóladrifi. Að þessu sinni kallast bíllinn GT86 en borun og slaglengd vélarinnar er einmitt 86 sinnum 86 mm.

Nýlega lenti þessi bíll í öðru sæti á vali á bíl ársins í Evrópu, en það er mjög óvanalegt að sportbíll nái svona langt í vali sem þessu. Það er hins vegar skiljanlegra að hann hafi verið valinn bíll ársins hjá Top Gear og er bíllinn í miklu uppáhaldi hjá stjórnanda þáttanna, Jeremy Clarkson.

Undirritaður hafði ekki prófað þennan bíl áður og gat því ekki beðið boðanna þegar honum bauðst að fá sjálfskiptan GT86 í reynsluakstur, en áður hafði Morgunblaðið reynsluekið honum í beinskiptri útgáfu á Spáni í fyrra.

Ekki einu sinni barnvæn aftursæti

Það var vottur af vori í lofti þegar kynningarstjóri Toyota á Íslandi afhenti undirrituðum bílinn. Framundan var heil helgi með góðri veðurspá og eyðum í dagbókinni sem skyldu verða notaðar til hins ýtrasta. Þegar sest er í fyrsta skipti inn í bílinn kom aðeins á óvart að sjá hversu einföld og hrá innrétting bílsins er. Efnisval er í ódýrari kantinum og gamaldags stafrænar tölur með rauðum glampa taka á móti manni.

Fljótt verður maður þess þó áskynja að einföld innréttingin er einmitt það sem hentar þessum bíl, innrétting sem hækkar ekki verð bílsins upp úr öllu og ruglar ekki upplifun ökumannsins af akstrinum. Sætin eru sérstaklega sportleg og nánast eins og körfustólar. Ásetan er mjög lág svo maður fær á tilfinninguna að setið sé ofan í götunni og þess vegna er það ekki fyrir hvern sem er að koma sér fyrir í þessum bíl svo að vel sé.

Að því sögðu er nánast ómögulegt fyrir ökumann að koma sér fyrir í aftursætinu. Aðgengi þangað er þröngt og fótapláss svo lítið að innstig verður að einskonar jógaæfingu. Tíu ára gömul dóttir mín fékk að reyna aftursætin einu sinni og þurfti að sitja á hækjum þótt að framsæti væru færð framar. Þess vegna skýtur skökku við að sjá nokkuð rúmgott farangursrými fyrir aftan þessi svokölluðu aftursæti.

Gott útsýni kemur á óvart

Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar farið er að aka bílnum er gott útsýni en það er harla óvenjulegt í þessum flokki bíla. Meira að segja útsýni aftur er betra en í mörgum fjölskyldubílnum. Nálægt gírskiptingunni eru takkar sem slökkva á spólvörninni í stigum og stilla skiptinguna yfir á sport. Þar sem reynsluakstursbíllinn er sjálfskiptur á maður von á að talsvert þurfi til að losa bílinn að aftanverðu, með öðrum orðum að hann fari að spóla. Ósjálfrátt leita því fingur ökumanns þangað og eftir smástund loga ljós í mælaborði sem vara mann við að spól- og skrikvörn séu nú báðar óvirkar.

Undirritaður hefur aðgang að svæði sem leyfir smá leikaraskap og í fyrstu tilraun fer bíllinn í gott hliðarskrið og þurfti ekki mikið til. Þar hefur léttleiki bílsins eflaust mikið að segja og boxer-vélin gefur gott afl tiltölulega lágt niðri á snúningssviðinu. Stýrið er mjög virkt og þarf ekki að snúa því mikið til að leggja vel á dekkin. Þessi samsetning gerir þennan bíl að hreinræktuðu leiktæki, punktur. Þetta er bíllinn sem fær þig til að segja jíííhaaa!

Maður getur rétt ímyndað sér að með beinskiptingu muni bílstjórinn endanlega ganga í barndóm. Kannski lýsir það bílnum vel hvað skrikvörnin er virk þegar kveikt hefur verið á henni aftur. Ekki þarf mikið til að hún komi inn í beygju, kannski bara það að tekið er aðeins of snöggt í stýrið. Bíllinn hreinlega veit það sjálfur hversu kvikur hann er.

Gæðingur á gæðingsverði

En hvar er notagildið í bíl sem þessum? Ekki er hann fjölskylduvænn, svo mikið er víst. Notagildi hans er meira eins og mótorhjóls, pláss fyrir tvo ásamt léttum farangri og sólskinsbrosi. Gæðingur eins og þessi þarf stað til að hleypa á skeið og því miður er ekki mikið um brautir sem bjóða upp á slíkt hérlendis, því miður. Innanbæjar er vissara að hafa spólvörnina á til að gleyma sér ekki í gleðinni því það er ekki langt í gangstéttarkantana, sem kysstir voru allavega einu sinni meðan á reynsluakstrinum stóð. Þrátt fyrir aðfinnslur um aftursæti er fátt slæmt sem hægt er að segja um þennan bíl.

Það er einna helst verðið sem maður hváir yfir, 8.370.000 kr. er vel í lagt fyrir bíl sem er ekkert meira búinn en hver annar bíll með jafnstórri vél. Þegar horft er til þeirrar staðreyndar að þessi bíll kostar rétt um þrjár milljónir í Bandaríkjunum er niðurstaðan sú að verðmiðinn er aðeins of hár. Meira að segja grunngerðir Ford Mustang og Chevrolet Camaro eru á samkeppnishæfu verði hérlendis en það eru bílar sem eru bæði stærri og öflugri en þessi.

njall@mbl.is

Innréttingin er lágstemmd.
Innréttingin er lágstemmd.
GT86 er algjört leiktæki og fljótur í hliðarskrið ef slökkt …
GT86 er algjört leiktæki og fljótur í hliðarskrið ef slökkt er á skrikvörninni, sem er hluti af staðalbúnaði bílsins. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson
Tveggja lítra vél án forþjöppu. Er frá Subaru, innspýtingin frá …
Tveggja lítra vél án forþjöppu. Er frá Subaru, innspýtingin frá Toyota.
Eins og sjá má er ekki mikið fótapláss fyrir tíu …
Eins og sjá má er ekki mikið fótapláss fyrir tíu ára stúlku í aftursætum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina