Eftirtektarverður sportjeppi

Þeir sem halda að Range Rover Evouqe sé bara malbiksjeppi …
Þeir sem halda að Range Rover Evouqe sé bara malbiksjeppi eru á villigötum, því þessi bíll er svo miklu meira og stendur algjörlega fyrir sínu. t.d. í utanbæjarakstri.

Range Rover Evouqe hefur verið á markaði síðan 2011 og kom til Íslands í fyrra, þar sem hann komst meðal annars í úrslit í vali á bíl ársins. Morgunblaðið reynsluók bílnum þá en ekki hefur verið fjallað um hann á síðum blaðsins svo að nú er bætt úr því.

Evouqe byggist á hugmyndabíl frá Land Rover sem kallaðist LRX og sást fyrst á NAIAS-bílasýningunni í Bandaríkjunum 2008.

Margir hafa sagt þennan bíl vera fína útgáfu af Freelander en það sanna í því er að grunnur hans byggist á Ford EUCD-undirvagninum sem meðal annars var notaður fyrir Freelander 2. Meira en 90% af bílnum voru hins vegar teiknuð og smíðuð upp á nýtt og í raun og veru á hann mikið sameiginlegt með stærri gerðum Ranger Rover.

Ekki bara malbiksjeppi

Það gætu margir haldið að þetta sé algjör malbiksjeppi en það er langt frá því. Eins og í öllum jeppum frá Land Rover er fjöðrunin aðalsmerki þessara bíla og Range Rover Evouqe er engin undantekning frá því, kemur á loftpúðafjöðrun eins og aðrir Range Rover-jeppar. Með því að stilla Terrain Response-takkann á það akstursumhverfi sem ekið er í fæst besta mögulega fjöðrun og samspil vélar og driflínu, ásamt innspili skrik- og spólvarnar eftir þörfum. Þetta bætir drifgetu bílsins nokkuð en venjulega skiptir hann aflinu meira til fram- en afturhjóla. Ekki skemmir heldur fyrir að dekkin eru mjög utarlega svo að að- og fráhorn hans er vel viðunandi fyrir jeppling. Aðfallshorn er 25° og fráfallshornið 33° og veghæðin 215 mm sem er það besta í flokknum. Eins og áður sagði er það samt fjöðrunin sem er aðalsmerkið og það er hrein unun að keyra bíl eins og þennan á malarvegi.

Eyðslufrekur

Reynsluakstursbíllinn var búinn 190 hestafla, 2,2 lítra dísilvél en hann er einnig fáanlegur með 237 hestafla, tveggja lítra bensínvél frá Ford. Ástæðan fyrir vali minni véla eins og þessara var sú að halda átti mengun niðri, enda er mengunargildi hans með minnstu dísilvélinni aðeins 133 g/km. Ekki hefur þó gengið eins vel að halda eyðslunni niðri því að þrátt fyrir uppgefna 6,5 lítra meðaleyðslu sýndi aksturstölva 11,6 lítra meðaleyðlu í mjög svo blönduum akstri.

Við hönnun bílsins var notast við léttari efni eins og ál í vélarhlíf og þak ásamt plastefni í afturhlera til að halda þyngdinni niðri.

Eigin þyngd bílsins er aðeins 1.685 kíló sem er 100 kílóum minna en í Freelander. Það finnst því vel í akstri að hér er um sannkallaðan sportjeppling að ræða, því hann liggur vel á sinni loftpúðafjöðrun og hefur ekki þann leiða ávana sem einkennir oft stóra sportjeppa að undirstýra út úr beygjum vegna þyngdar sinnar.

Þetta er líka svokallaður einrýmisbíll sem þýðir að hann er byggður í einu lagi en ekki með yfirbyggingu ofan á grind sem gerir hann stífari og þar af leiðandi betri í akstri á malbiki. Vélarnar eru hins vegar í minni kantinum fyrir bíl af þessu kaliberi og gaman væri nú að sjá hann með V6-vél í framtíðinni,

Sérstök sjálfskipting

Þegar sest er inn í tæki eins og þetta tekur smástund að átta sig á öllum þeim fídusum sem þessi bíll hefur upp á að bjóða, svo ekki sé talað um sum sérviskuleg atriði í hönnun innanrýmis hans. Sem dæmi má nefna snúningstakka fyrir val á gírum, sem kemur upp úr miðjustokknum þegar bíllinn er ræstur. Það er reyndar þægilegt að nota hana þegar maður er orðinn vanur því en mismunandi gerðir skiptinga í sjálfskiptum bílum eru hausverkur bílablaðamanna núorðið. Þetta er algengast í jeppum og jepplingum eins og þessum og því ekki laust við að maður óski eftir hefbundnari útfærslu.

Einn af hönnuðum innanrýmisins var ofurkryddið Victoria Beckham sem meðal annars skoðaði skútur og einkaþotur við val á efnum. Prófunarbíllinn var búinn sérstökum sportsætum sem satt best að segja voru frekar óþægileg og henta örugglega ekki öllum. Maður var hins vegar fljótur að gleyma því þegar kveikt var á 825 vatta Meridian-hljómkerfinu sem var sérhannað í þennan bíl. Það kerfi er algjörlega laust við bjögun eins og undirritaður reyndi með lögum eins og Nothing Else Matters með Metallica.

Tvíbent útsýni

Þegar hliðarsvipur Evouqe er skoðaður sést fljótt að tvær línur eru áberandi sem eru afturmjókkandi þak- og axlarlínur sem mætast ekki langt fyrir aftan bílinn. Þetta gerir það að verkum að útsýni er takmarkað og þá sérstaklega út um afturrúðu. Reynt er að bæta fyrir það með bakkmyndavél, nálægðarskynjurum allan hringinn og stórum hliðarspeglum. Hliðarspeglarir eru reyndar alveg sérlega góðir og hátíð að sjá spegla sem gefa jafn gott útsýni eins og þessa á bíl nú til dags. Innstig í öll fjögur sætin er þægilegt enda bíllinn í alveg mátulegri hæð og meira að segja átti yngsti fjölskyldumeðlimurinn ekki í vandræðum með að klifra sjálfur upp í barnabílstólinn.

Farangursrýmið er ekki stórt en er hins vegar notandavænt og sérlega aðgengilegt. Grunnverð Evouqe er 8.770.000 kr. og helsti keppinautur hans kemur frá sama umboði, en það er BMW X6. Ódýrasta útfærsla hans kostar 11.990.000 kr. en dýrari útfærslur eru sambærilegri í verði. Dynamic-bíllinn sem við prófuðum kostar 14,3 millj. kr. en M-Sport útfærsla X6 byrjar í um 14,2 millj. kr.

njall@mbl.is

Kostir:Fjöðrun, hljómtæki, hliðarspeglar

Gallar: Eyðsla, sportsæti, útsýni aftur um rúður

Díóðuljós í dagljósabúnaði gefa Evouqe ákveðinn og sterkan svip.
Díóðuljós í dagljósabúnaði gefa Evouqe ákveðinn og sterkan svip.
Stórir hliðarspeglar bæta upp annars slæmt útsýni aftur með bílnum.
Stórir hliðarspeglar bæta upp annars slæmt útsýni aftur með bílnum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina