Agnarsmátt listaverk

Á fimmtíu ára afmæli Fiat 500 árið 2007 kom þessi …
Á fimmtíu ára afmæli Fiat 500 árið 2007 kom þessi bíll fram. Hann hefur slegið í gegn víða um Evrópu og nú þegar hafa fjörutíu bílar verið seldir hér á landi. mbl.is/Rósa Braga

Margir hafa beðið þess með eftirvæntingu að Fiat500 yrði fáanlegur hér á landi. Bílaáhugamenn víða um Evrópu, ef til vill sérstaklega í Evrópu, biðu með öndina í hálsinum eftir að þessi nostalgíski hönnunargripur yrði fáanlegur.

Árið 2007, á fimmtíu ára afmæli Fiat 500, kom bíllinn á markað og var valinn bíll ársins af bílablaðamönnum í Evrópu árið 2008.

Hér á landi annast Diesel.is innflutning á þessum ofursvölu bílum sem eru minni en stór ísskápur.

Bíllinn sem prófaður var heitir Fiat 500 Sport. Það er líka til Fiat 500 Lounge og hann er með glerþaki en ekki þessu sportútliti sem Sport-týpan státar af.

Góðar Fiat-minningar

Fyrsti bíll undirritaðrar var Fiat UNO. Þó að UNO-inn hafi verið frá árinu 1987 er eitt og annað við Fiat 500 Sport sem vakti býsna góðar akstursminningar. Eitt af því er einfaldleikinn. Þessi bíll er ekki með milljón takka eins og flestir nýir bílar og það er bara fínt. Einfaldleikinn er nefnilega líka góður.

Í Fiat 500 sakna ég örfárra hluta úr nútímaökutæki en þeir eru ekki margir. Síður en svo! Fyrir það fyrsta er enginn spegill í sólskyggninu bílstjóramegin. Það er alveg ferlegt. Eftir hádegismatinn vill maður gjarnan geta gengið úr skugga um að ekki sé spínat á milli framtannanna. Til þess að góna á sjálfan sig í þessum bíl, að því gefnu að maður sé sjálfur bílstjórinn, þarf maður að nota baksýnisspegilinn sem er lítill og of langt í burtu fyrir nærsýna.

Þetta er að sjálfsögðu ekki neitt sem kemur niður á aksturseiginleikunum heldur ruglar aðeins í hégómakenndinni. Maður sér fyrir sér ítalskar smábeinóttar stúlkur í sínu fínasta pússi á leið á stefnumót inni í Róm, alveg að fara á sínum ítölsku límingum, þrífa upp varalitinn og ætla í leiðinni að tékka á þessu með spínatið... En þá er enginn spegill. Það er afleitt.

Fær í allan snjó

Það er gaman að geta skrifað um það að einstakt tækifæri gafst til að aka Fiat 500 við verstu mögulegu aðstæður. Lífið er ekki alltaf dans á rósum og sömu sögu er að segja af rammíslensku veðurfari. Það getur verið býsna kraftmikið. Ekki dans á rósum.

Á sunnudaginn gerði kraftmikið veður þar sem hviðurnar virtust á köflum koma úr öllum mögulegum áttum á sama tíma. Það var mikil áskorun á okkur Fiat 500 því við vorum á heimleið: Austur fyrir fjall – á Selfoss. Af einhverjum ástæðum var enginn á austurleið. Sennilega hafa flestir haft haft vit á að fylgjast með veðurfregnum og því haldið kyrru fyrir heima. Tuttugu og átta metrar á heiðinni.

Þegar við Fiat komum að Litlu kaffistofunni voru einmitt nokkur snjóruðningstæki þar og bílstjórarnir sennilega að hvíla lúin bein. Áfram héldum við Fiat og hann var svo ótrúlega seigur að ég varð hreinlega gapandi hissa. Þetta litla dýr hakkar sig í gegnum allt og lætur ekki hrikalegar vindrokur slá sig út af laginu þó léttur sé. Þetta kom skemmtilega á óvart. Við slíkar aðstæður ekur maður sannarlega ekki geyst en Fiat 500 vann vel á sínum hraða og skilaði okkur báðum á áfangastað með prýði. Það er fátt sem gleður mann jafnmikið og smábíll sem segir snjósköflunum stríð á hendur og sigrar þá.

Innréttingin og hinn innri bíll

Þetta er smábíll og þegar um smábíl er að ræða fer maður auðvitað ekki að skrifa um að það sé lítið pláss í bílnum. Það eru belti aftur í fyrir farþega af minni gerðinni. Það er vel. Þó reyndi ekki á það í þetta skiptið en af innsæi blaðamanns var gengið út frá því að vel gæti farið um tvö börn í bílstólum eða á sessum upp að 8 ára aldri.

Fullorðnir komast fyrir aftur í með herkjum enda er ekki mælt með því nema í tilraunaskyni. Þetta er smábíll. Fullorðið fólk kemst vel fyrir í bílstjórasætinu og farþegasætinu og það ætti að vera nóg fyrir markhóp Fiat 500.

Rýmið frammi í nýtist afar vel og sem fyrr segir eru engir aukatakkar til að hugsa um. Enginn súkkulaðibræðari, eins og sumir kalla sætishitarana, enginn stýrishiti eða neitt í þá veru en miðstöð, útvarp með tengi fyrir allt nema SD-kort og tvískipt stilling á lipurð stýrisins, án þess þó að hægt sé að færa stýrið ofar eða neðar. Það er bara í þeirri stöðu sem verksmiðjan kvaddi hann með.

Gírskiptingin er á skemmtilegum stað, rétt fyrir neðan miðstöðina. Hún er ofar en gengur og gerist og það kemur vel út.

Eyðsla og verð

Bíllinn er of dýr. Það verður bara að segjast eins og er, sé miðað við þann flokk smábíla sem hann tilheyrir. Tæpar þrjár milljónir fyrir svona fallegan bíl er of mikið, þó svo að hann sé fallegur. Sem fyrr segir var Sportútgáfan prófuð. Hinn kallast Fiat 500 Lounge og kostar 2.670.000 krónur. Fiat 500 er dálítið kraftlaus og það sem verra er viðkemur eyðslunni. Framleiðandi gefur upp frábærar eyðslutölur sem maður auðvitað óskar sér alltaf að eigi sér stoð í íslenskum raunveruleika og íslenskri veðráttu. Því miður er það sjaldnast þannig. Framleiðandi nefnir 4,8 lítra í utanbæjarakstri á hverja 100 kílómetra. Í þessari prófun náðist eyðslan niður í 5,9 lítra í miklum sparakstri. Í blönduðum akstri er sagt að eyðslan sé 5,5 lítrar en hún var um 6,8 í reynsluakstrinum. Þetta er of mikið fyrir svona lítinn bíl.

En mikið svakalega er hann fagur og gæddur miklum töfrum!

malin@mbl.is

Kostir:Hönnun og umgjörð ökumanns

Gallar: Verð og eyðsla

Afturendinn er mjög sportlegur og breitt púströrið er vel sýnilegt.
Afturendinn er mjög sportlegur og breitt púströrið er vel sýnilegt. mbl.is/Rósa Braga
Ítalski draumurinn.
Ítalski draumurinn. mbl.is/Rósa Braga
Stílhreinar 15
Stílhreinar 15" felgur. mbl.is/Rósa Braga
Að framan heldur bíllinn einkennum sínum vel og minnir á …
Að framan heldur bíllinn einkennum sínum vel og minnir á frumgerðina. mbl.is/Rósa Braga
Hér er ekki verið að flækja hlutina.
Hér er ekki verið að flækja hlutina. mbl.is/Rósa Braga
Vel fer um ökumann og farþega í framsætunum.
Vel fer um ökumann og farþega í framsætunum. mbl.is/Rósa Braga
Allir mælar á einum stað í smáu mælaborðinu.
Allir mælar á einum stað í smáu mælaborðinu. mbl.is/Rósa Braga
Skemmtileg áferð er á áklæðunum.
Skemmtileg áferð er á áklæðunum. mbl.is/Rósa Braga
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina