Fimm stjörnu skriðdreki

Range Rover Sport er gerðarlegur bíll með stórum álfelgum sem …
Range Rover Sport er gerðarlegur bíll með stórum álfelgum sem liggja utarlega á bílnum og gefa honum voldugan svip og hvassara yfirbragð. mbl.is/Tryggvi Þormóðsson

Þegar Range Rover Sport var frumsýndur blaðamönnum í Bretlandi var það gert með heldur óvenjulegum hætti. Tvær Boeing 747 þotur voru skornar í sundur og notaðar sem nokkurs konar torfærubraut til að sýna getu bílsins í miklum bratta og halla.

Stutt er síðan bíllinn kom á klakann og bílablaðamanni Morgunblaðsins gafst tækifæri á að reyna hann heila helgi um daginn. Veður voru mislynd og skiptist á sól og frost, rok og slydda í reynsluakstrinum. Við fengum engin flugvélaflök til að leika okkur í en náðum þó að keyra bílinn í möl og í léttari torfærum.

Fór í mikla megrun

Eins og oft er um bíla af nýrri kynslóð er bíllinn stærri á flesta kanta, hjólhaf hefur verið aukið í 178 mm en hann er 4 mm lægri og 62 mm lengri en áður. Farangursrými hefur stækkað í 784 lítra en er samt ekki stórt fyrir bíl á þessum mælikvarða. Undir gólfinu er nefnilega varadekk í fullri stærð sem tekur sitt pláss, enda 19 tomma felgur undir þessum bíl í grunnútgáfu sinni. Fyrir vikið er gólfið frekar hátt og því er hleðsla þannig að lyfta þarf hlutum upp á við. Nýi bíllinn er ekki lengur byggður á stigagrind sem leggst upp í botninn eins og sá gamli var, þessi er svokallaður einrýmisbíll sem þýðir á mannamáli að yfirbygging og undirvagn er að grunninum til sama stykkið sem ber allan þunga bílsins. Byggir hann þar á undirvagni stóra bróður síns er en samt 75% nýr í smíðum. Þrátt fyrir þetta er Range Rover Sport engin léttavara en gamli bíllinn var bara svo þungur fyrir að breytingin er undraverð. Með því að hafa alla grindina úr áli er búið að létta bílinn um hvorki meira né minna en 420 kíló. Meira að segja demparafestingar eru úr álsteypu, og nýi bíllinn er eftir þessar breytingar 28% stífari en gamli bíllinn.

Þarfur og óþarfur búnaður

Eins og títt er um Range Rover er Sportinn afskaplega vel búinn bíll og það var prófunarbíllinn alveg sérstaklega. Þegar maður skoðaði búnaðarlistann fékk það mann til að halda að hann gæti lifað af kjarnorkustyrjöld, svo vel búinn var hann. Sumt af þessum búnaði var kannski bölvaður óþarfi eins og ljósboginn með Range Rover-merkinu sem kviknaði þegar maður kom að bílnum í myrkri, það örlaði meira að segja á smákjánahrolli hjá undirrituðum. Ekki er að sjá að þetta sé aukabúnaður samkvæmt búnaðarlista enda erfitt að ímynda sér að einhver vilji borga peninga fyrir slíkan hégóma. En þegar kemur að þægindum innandyra eru fáir sem standast Range Rover snúning. Eins og framsæti með 18 rafstýringum sem hægt er að stilla svo þau henti nánast hverjum sem er. Einnig eru höfuðpúðar fjölstillanlegir og það var meira að segja stór skjár í þeim báðum fyrir aftursætisfarþegana. Megnið af lengra hjólhafi bílsins fer í að auka fótarými í aftursætum og þar sem tvö sætanna þar eru stillanleg líka er lítið hægt að kvarta yfir aðbúnaði þar. Þrátt fyrir að bíllinn nær að þekja næstum tíu fermetra líður ökumanni ekki eins og að hann sé á of stórum bíl, en það má helst þakka það hversu vel ökumaður sér út úr honum. Aukið öryggi fæst með bakkmyndavél sem skynjar hreyfingu, myndavélum að framan sem sjá fyrir horn og hliðarspeglum sem aðlaga sig hreyfingum bílsins þegar honum er ekið aftur á bak.

Óþjál gírskipting

Það er mikill munur á þessum bíl í akstri frá fyrri kynslóð, þökk sé minni þyngd hans. Í gamla bílnum fékk maður það á tilfinninguna að hin mikla þyngd hans væri bókstaflega að ýta honum út af veginum, en sú tilfinning er nú horfin. Hann er með mikið grip að framan og svarar einstaklega vel í stýri sem gefur góða tilfinningu fyrir veginum og gripinu. Á möl verður hann aðeins yfirstýrður, nema hann sé stilltur á rétta akstursstillingu sem flytur þá meira afl til framhjólanna. Sem betur fer er ekki sama takkaskipting í þessum bíl og Evoque en þess í stað er komin samskonar gírstöng og í Jaguar. Kannski þurfti maður lengri tíma til að venjast henni en undirritaður er þó vanur að eiga við alls konar sérvisku framleiðenda í þeim efnum. Samt var eins og stundum væri erfitt að láta hann hitta í gírana og þá sérstaklega í Drive og hún virkar óþjál í notkun. Afl V6 dísilvélarinnar mætti stundum vera meira eins og til dæmis í samanburði við V8 vélina frá Porsche Cayenne. Hún er þó sérlega hljóðlát og samkvæmt tölum framleiðanda mælist hávaði 67 dB á 30 km hraða á grófum vegi, samanber 70 dB í Cayenne.

Fjöðrunin er eins og í sportbíl, tvöföld klafafjöðrun að framan og fjölarma að aftan. Í grunnútgáfu Range Rover Sport fær hann hefðbundna dempara og jafnvægisstangir en í þeirri útgáfu sem við prófuðum var hann með virkum undirvagni sem gerir dempara og stangir stífari í beygjum en slakar á þeim á beinu köflunum til að auka við þægindin. Þetta finnst mjög vel í akstri og gerir þennan bíl mjög skemmtilegan því að slíkur búnaður hentar þessum bílum alveg sérlega vel. Fjölstillanlegt aksturskerfi fyrir mismunandi akstursaðstæður hækkar eða lækkar bílinn, breytir dreifingu afls eða læsir jafnvel millikassa eða afturdrifi svo erfitt er að sjá fyrir aðstæður sem þessi bíll ræður ekki við. Við erum kannski ekki að tala um jöklaferðir í því sambandi en framleiðandi segir til dæmis að vaðdýpt sé allt að 850 mm sem er vel í lagt. Í speglunum eru svo skynjarar sem vara ökumann við þegar hann er kominn of djúpt. Sé ökumaður kominn í ógöngur eins og kannski í djúpum snjó er síðan hægt að hækka bílinn upp í hálfs metra veghæð. Eitt vakti þó athygli í reynsluakstrinum hversu mikill og stór vatnsboginn var frá honum þegar ekið var í djúpar vatnsrásir. Að sjá vatnið sprautast marga metra fram á við og koma svo í stórum boga yfir framrúðuna var eitthvað alveg nýtt. Kannski höfðu stór og breið dekkin sitt að segja og sú staðreynd hversu framarlega þau eru.

Fáir keppinautar

Prófunarbíllinn var svokallaður LR-SDV6 dísil í Autobiography-útgáfu með Dynamic-pakka. Grunnverð slíks bíls er litlar 21.290.000 kr. Auk þess var hann búinn utanvegarpakka með háu og lágu drifi sem bætir 1.020.000 kr. við heildarpakkann, opnanlegu glerþaki sem kostar 481.000 kr. í viðbót og sjónvarpi og aukaskjám í aftursætum sem þýða 720.000 kr. aukakostnað. Loftkæld og upphituð fram- og aftursæti auk upphitaðrar framrúðu kosta samtals 734.000 kr. Búnaður sem leggur bílnum í stæði kostar reyndar aðeins 165.000 kr. en 360° myndavélabúnaður bætir 291.000 kr. við heildartöluna. Auk annars smærri búnaðar sem yrði of langt mál að telja upp kostar prófunarbíllinn nærri 30 millur. Spurningin er hvaða bílar geta keppt við svona súperstjörnu og þeir eru fáir. Erlendis er venjulega miðað við einn aðalkeppinaut sem er Porsche Cayenne og ekki að ósekju því að hann setur mörg viðmið í þægindum og efnisvali eins og þessi bíll gerir reyndar líka. Á Íslandi er hefðin sterk fyrir bílum eins og Toyota Land Cruiser 200 og Mercedes-Benz GL en hvorugur þessara bíla nær þó ekki að velgja honum undir uggum þótt þeir standist samanburð í verði.

Að innan er Sportinn með sömu hallandi innréttingu og stóri …
Að innan er Sportinn með sömu hallandi innréttingu og stóri bróðir hans. Tveir stórir litaskjáir sjá um allt upplýsingastreymi til bílstjórans og í stýri eru 15 flýtitakkar.
V6 dísilvélin er þokkaleg að afli og hljóðlát er hún. …
V6 dísilvélin er þokkaleg að afli og hljóðlát er hún. Ál er mikið notað í smíði bílsins eins og turnum fyrir framdempara sem eru venjulega úr stáli.
Range Rover Sport liggur skemmtilega vel á vegi og það …
Range Rover Sport liggur skemmtilega vel á vegi og það var aðeins á möl sem akstur hans var ekki eins og á teinum eins og sjá má.
Range Rover Sport ræður vel við vegleysur og á öldóttum …
Range Rover Sport ræður vel við vegleysur og á öldóttum malarvegi kastaðist hann ekki til og frá eins og margir aðrir bílar hefðu gert.
Afþreying fyrir aftursætisfarþega er oft vel metin hjá barnafjölskyldum. Séð …
Afþreying fyrir aftursætisfarþega er oft vel metin hjá barnafjölskyldum. Séð er fyrir því í þessum bíl með sjónvarpi og skjám í hnakkapúðum.
Þótt farangursrými sé nokkuð rúmgott er hátt upp í það …
Þótt farangursrými sé nokkuð rúmgott er hátt upp í það enda fer töluvert mikið pláss í að geyma fullvaxið varadekk innandyra.
Starfsstöð ökumanns í Range Rover Sport.
Starfsstöð ökumanns í Range Rover Sport.
Range Rover Sport.
Range Rover Sport.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina