Sparibaukur sem á sér fáa keppinauta

Nýhannaður framendinn er ákveðinn á svip og setur sterkan heildarsvip …
Nýhannaður framendinn er ákveðinn á svip og setur sterkan heildarsvip á bílinn. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson

Toyota hefur sett á markað nýja gerð Yaris-smábílsins og þótt hér sé aðeins um andlitslyftingu að ræða gengur Toyota svo langt að kalla bílinn hinn nýja Yaris. Víst er það satt að breytingarnar eru þónokkrar, aðallega á útliti bílsins en þó einnig á undirvagni.

Augljósasta breytingin er þó að framan, þar sem hann fær svipaðan framenda og glænýr Aygo, eins konar X-laga grill þar sem vélarhlífin teygir sig niður með áberandi Toyota-merkinu eins og nokkurs konar nef. Verst bara hvað risastórt loftinntakið minnir mann á yfirvaraskegg eins og á litlum Mexíkana. Næsta kynslóð Yaris verður reyndar framleidd í Mexíkó þegar þar að kemur samhliða nýjum Mazda2, og þá munu þeir bílar nota Skyactive-vélarnar frá Mazda, en það er framtíðarmúsík.

Stífari og sneggri í stýri

Toyota lagði nokkra vinnu í endurhönnun á undirvagni bílsins sem er stífari en áður. Það finnst vel í akstri hvað bíllinn er skemmtilegri og liggur betur þótt hann virki örlítið hastari á hraðahindrunum. Stýrið er líka aðeins nákvæmara en áður og búið er að bæta hljóðeinangrun. Að sögn Toyota er hann sá liprasti í sínum flokki en snúningsradíus hans er aðeins 4,7 metrar. Nýr Yaris Hybrid er sá hreinasti í sínum flokki smábíla því að kolefnisgildi hans er aðeins 75 g á km. Vélin er 1,5 lítra og fær hjálp frá rafmótor sem sameiginlega skila 98 hestöflum. Í tvinnútgáfu er hann aðeins fáanlegur með CVT-sjálfskiptingu sem hvín dálítið í þegar tekið er á bílnum. Þegar honum er ekið rólega eyðir hann hins vegar mjög litlu enda rafmótorinn að hjálpa til. Hægt er að stilla á rafstillingu eingöngu í um það bil tveggja kílómetra akstur á hraða undir 50 km á klst.

Betra innanrými

Búið er að færa bæði rafhlöður og bensíntank undir aftursætin og þess vegna er óhætt að segja að Yaris er rúmgóður fyrir smábíl að vera. Farangursrýmið er 286 lítrar með aftursætin á sínum stað og ef þau eru látin falla ofan í gólfið stækkar það í heila 768 lítra. Pláss fyrir farþega í aftursætum er þokkalegt og munar þar mest um gott höfuðrými og flatt gólfið. Fótarými er þó af skornum skammti ef þeir sem frammi í sitja þurfa sitt pláss. Mesta plássið er þó í framsætum sem eru bara nokkuð þægileg þrátt fyrir að vera í minna lagi. Það er reyndar dálítð langt að teygja sig í stýri og stjórntæki hægra megin við stýrið. Einhverra hluta vegna er mjög stuttur aðdráttur á stýri sem gjarnan hefði mátt færa eins og fimm sentimetrum nær ökumanni. Hybrid-útgáfan er annars vel búin í grunninn og efnisval í innréttingu er betra en áður. Bakkmyndavél, loftkæling og blátannarbúnaður er allt staðalbúnaður til að mynda.

Á pari við einu samkeppnina

Þegar nýr Yaris er borinn saman við aðra keppinauta sína þarf að gæta að mörgu. Hybrid-útgáfan er sér á parti svo að erfitt er að bera hana eina og sér saman við aðra bíla í flokknum þegar kemur að verði. Til dæmis er hún ennþá tæpri hálfri milljón dýrari en best búna Fiesta sem hægt er að fá. Betra er þá að miða við grunngerðir bílanna, en þar munar talsvert minna. Toyota Yaris er í grunninn á 2.690.000 kr. en ódýrasta Fiestan er á 2.450.000 kr. Mazda2 er ennþá ódýrari á aðeins 2.190.000 í sinni ódýrustu útfærslu. Kannski er þó réttast að bera hann saman við eina bílinn í flokknum sem einnig er Hybrid-bíll en það er Honda Jazz Hybrid. Sá bíll er boðinn á 3.390.000 kr. sem er örlítið betra verð en á Yaris Hybrid sem aftur á móti er örlítið betur búinn.

njall@mbl.is

Aðdráttur á stýri er takmarkaður og þar af leiðandi er …
Aðdráttur á stýri er takmarkaður og þar af leiðandi er erfiðara að finna þægilega stellingu á bakvið stýrið. Fimm sentimetra aðdráttur stýris í viðbót hefðu sannarlega gert gæfumuninn fyrir ökumanninn. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Gott höfuðrými er kostur í aftursætum en fótarými er eins …
Gott höfuðrými er kostur í aftursætum en fótarými er eins knappt og hægt er. Flatt gólfið bjargar þó plássinu fyrir horn fyrir farþegana. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Vélin er 1,5 lítra og skilar 74 hestöflum en þegar …
Vélin er 1,5 lítra og skilar 74 hestöflum en þegar rafmótorinn bætist við eykst aflið í 98 hestöfl. Blátt Toyota-merkið einkennir Hybrid-útgáfurnar. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Pláss í farangursrými er með allra besta móti og séu …
Pláss í farangursrými er með allra besta móti og séu bæði bökin felld niður fæst flutningsrými upp á 768 lítra. Ekki sem verst fyrir nettan bíl. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Nýhannaður framendinn er ákveðinn á svip og setur sterkan heildarsvip …
Nýhannaður framendinn er ákveðinn á svip og setur sterkan heildarsvip á bílinn. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Stýrið er aðeins nákvæmara en áður.
Stýrið er aðeins nákvæmara en áður. Ljósmynd/Tryggvi Þormóðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina